Hoppa yfir valmynd
29. maí 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Horfur í efnahagsmálum krefjast lækkunar opinberra skulda

Fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029  um miðjan apríl. Staða efnahagsmála sem liggur til grundvallar áætluninni er um margt merkileg, ekki síst þegar hún er borin saman við stöðu efnahagsmála fyrir aðeins þremur til fjórum árum síðan. Gerbreytt umgjörð efnahagsmála frá því fyrir fjármálakreppuna 2008, með öruggt og afar vel fjármagnað bankakerfi, stóran gjaldeyrisforða, afgang á viðskiptajöfnuði, árangursrík þjóðhagsvarúðartæki og sterk ríkisfjármál hafði þá orðið fyrir verulegri áraun í heimsfaraldrinum við hrun í stærstu útflutningsatvinnugrein hagkerfisins.

Umgjörðin stóðst prófið

Skemmst er frá því að segja að hin nýja umgjörð efnahagsmála stóðst áraun heimsfaraldursins með stakri prýði. Vissulega er verðbólga enn of há, en hún er á niðurleið líkt og vikið verður að síðar. Um hitt er þó síður hægt að deila að öfugt við reynsluna úr fjármálahruninu þá hjálpaði veiking krónunnar til við aðlögun hagkerfisins að áfallinu. Hún studdi við samkeppnishæfni atvinnulífsins en leiddi ekki til markverðrar hækkunar skulda heimila og fyrirtækja líkt og áður þegar mikill meirihluti skulda var verðtryggður eða tengdur erlendum gjaldmiðlum. Þá er Ísland eitt afar fárra ríkja þar sem framleiðslutap vegna faraldursins hefur að fullu verið unnið upp. Það þýðir ekki aðeins að verðmætasköpun hagkerfisins hafi náð fyrra stigi heldur var landsframleiðsla á mann árið 2023 orðin sú sama og greiningaraðilar gerðu ráð fyrir að hún yrði áður en þeir svo mikið sem höfðu heyrt af COVID-19 líkt og sjá má á mynd.

Landsframleiðsla á mann hefur verið unnin upp að fullu

Vaxandi fjölbreytni útflutnings

Það er ekki aðeins að þakka hröðum viðsnúningi í ferðaþjónustu, þó hann hafi sannarlega verið drifkraftur efnahagsbatans. Mynd 2 sýnir enda að vægi ferðaþjónustu í útflutningi hefur minnkað frá því fyrir faraldurinn. Á sama tíma hefur vægi annarra burðarstólpa útflutnings, þ.e. áls og sjávarafurða, staðið í stað. Árangur hefur hins vegar náðst í að fjölga stoðum útflutnings. Það sést á auknu vægi hratt vaxandi greina, með fiskeldi, lyfjaframleiðslu og tæknitengda þjónustu í broddi fylkingar, í útflutningi. Þessar greinar nálgast nú sjávar¬útveg að umfangi.

Á tímabili fjármálaáætlunar þarf útflutningur í enn meira mæli að byggja á greinum sem reiða sig ekki á náttúruauðlindir og geta drifið lífskjaravöxt til framtíðar. Slík starfsemi er í mikilli alþjóðlegri samkeppni og brýnt að tryggja fyrirtækjum samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Þar skipta langtímakjarasamningar miklu máli. Ríkisfjármálin hafa einnig mikilvægu hlutverki að gegna. Ábyrg ríkisfjármál með varfærni og festu að leiðarljósi eru til þess fallin að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs og stuðla að hraðari lækkun verðbólgu og vaxta en ella.

Ferðaþjónusta er enn langstærsta stoð útflutnings

Aðstæður krefjast varfærni í hagstjórn

Staða hagkerfisins er sterk eftir þróttmikinn og óskuldsettan hagvöxt í kjölfar heimsfaraldursins. Lág skuldsetning, bæði sögulega og í samanburði við nágrannaríki, ásamt mikinn og langvarandi vöxt kaupmáttar sem sjá má á mynd 3 og á sér fáar hliðstæður í samanburðarríkjum er skýr vitnisburður um það.

Áhættan sem umlykur efnahagshorfur virðist þrátt fyrir það meiri en stundum áður. Fyrir það fyrsta virðast áföll dynja yfir með meiri tíðni en áður, þó um það sé erfitt að fullyrða. Ekki sér fyrir endann á jarðhræringum og endurteknum eldgosum í nágrenni Grindavíkur. Atburðirnir hafa kallað á margvíslegar stuðningsaðgerðir ríkissjóðs, en þar vega þyngst kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík af hálfu fasteignafélagsins Þórkötlu. Aukin stríðsátök, einkum vegna innrásar Rússa í Úkraínu, hafa þrýst á ríki Vesturlanda að ráðstafa stærri hluta verðmætasköpunar í varnarmál. Með því eru stjórnvöld, af góðri ástæðu, að ráðstafa kaupmætti í vopn og varnir. Þessum sama kaupmætti verður þá ekki varið í íslenskan útflutning.

Á sama tíma er vaxandi sundrung í alþjóðastjórnmálum næstum áþreifanleg og samkvæmt nýrri skýrslu AGS um horfur í heimsbúskapnum  hafa viðskiptahindranir, hvort sem er með vörur og þjónustu eða fjárfestingu, tífaldast síðastliðinn áratug.

Það er fullt tilefni til bjartsýni og engin ástæða til annars en að ætla að hér gangi áfram vel. Í hættulegri heimi sem er ekki eins opinn fyrir viðskiptum og áður er þó að sama skapi full ástæða til varfærni. Þjóðhagslegt hlutverk opinberra fjármála við þessar aðstæður er fyrst og fremst að styrkja viðnámsþrótt opinberra fjármála með því að tryggja að undirliggjandi afkoma styðji við lækkun opinberra skulda í hlutfalli við landsframleiðslu. Þannig hafa ríkisfjármálin sem mest svigrúm til þess að verja samfélagið gegn áföllum þegar þess gerist næst þörf. Dragi hraðar úr efnahagsumsvifum á næstu mánuði en hagspár gera ráð fyrir hefur Seðlabankinn feikinægt svigrúm til að bregðast við því, telji hann tilefni til. Varfærni og festa ættu að einkenna fjármálastefnu hins opinbera.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta