Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál 431/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 431/2022

Miðvikudaginn 23. nóvember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 30. ágúst 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. ágúst 2022 um að heildargreiðslur til kæranda skuli vera óbreyttar, þrátt fyrir hækkun á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 1. janúar 2003. Vegna eingreiðslu örorkubóta vegna slyss sem var metið til 20% orkutaps var greiðsluhlutfall örorkulífeyris 80%. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. ágúst 2022, var kærandi upplýstur um að greiðsluhlutfall örorkulífeyris hefði verið hækkað í 100% þar sem heimild til að lækka örorkulífeyri samkvæmt 4. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar hafi verið felld úr gildi með lögum nr. 108/2021 um breytingu á lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Í bréfinu kemur einnig fram að þar sem greiðslur sérstakrar uppbótar til framfærslu örorkulífeyrisþega lækki sem nemi hækkun örorkulífeyris sé ekki um breytingu á greiðslum að ræða.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. október 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að enginn sjáanlegur rökstuðningur hafi verið í ákvörðun Tryggingastofnunar annar en tilvitnun.

Kærandi sé ekki eingöngu öryrki vegna eins slyss í gamla daga heldur vegna margra atriða, svo sem uppskurða á baki, hnjám og fleira. Það beri að taka tillit til þess en ekki einhvers slyss í gamla daga. Stofnunin geti ekki tekið þessa ákvörðun einhliða vegna einhvers slyss sem hann hafi fengið greitt fyrir og án nokkurra skýringa.

Þessi ákvörðun sé kærð og ef þörf krefji muni hann leita til umboðsmanns Alþingis og óska álits lögmanns ef svo beri undir. Kærandi vilji réttlæti og skýringar á kærðri ákvörðun.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé breyting á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris kæranda í kjölfar breytingar á lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatryggingar og lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar með lögum nr. 108/2021 um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Tryggingastofnun telji að ekki sé um að ræða ágreining um grundvöll skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna eins og kveðið sé á um í 13. gr. laga um almannatryggingar.

Greiðslur örorkulífeyris til kæranda hafi verið lækkaðar í 80% vegna eingreiðslu slysatrygginga almannatrygginga í samræmi við ákvæði 4. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar þar sem kveðið hafi verið á um að hafi lífeyrisþegi þegar fengið greiddan lífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skyldi taka tillit til þess við útreikning örorkulífeyris vegna almennrar örorku fyrir sama tímabil.

Með lögum nr. 108/2021 um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga hafi verið gerðar breytingar á ákvæðum laganna um örorkubætur vegna slyss, en eftir breytinguna greiðist örorkubætur vegna slyss sem miskabætur. Einnig hafi verið gerðar breytingar á ýmsum ákvæðum laga um almannatryggingar um samspil greiðslna á grundvelli þessara tveggja laga. Breytingarlögin hafi meðal annars haft í för með sér brottfellingu 4. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar.

Fyrir lagabreytinguna hafi verið heimilt við örorkumat vegna slyss, ef orkutap hafi verið talið minna en 50%, að greiða í einu lagi örorkubætur sem jafngilti lífeyri hlutaðeigandi um tiltekið árabil samkvæmt reglugerð sem ráðherra setji, þ.e. til 67 ára aldurs. Lagaheimild fyrir eingreiðslu vegna slysaörorku undir 50% hafi verið að finna í 5. mgr. 29. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, í 5. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Reglugerð um eingreiðslu örorkubóta Tryggingastofnunar ríkisins sé nr. 187/2005.

Kafli um slysatryggingar almannatrygginga, sem hafði verið í lögum um almannatryggingar, hafi verið felldur brott með breytingarlögum nr. 88/2015 og jafnframt hafi tekið gildi ákvæði 4. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar um áhrif þegar greidds lífeyris samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga á útreikning örorkulífeyris á grundvelli laga um almannatryggingar.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi verið með 75% örorkumat almannatrygginga samfleytt frá 1. janúar 2003. Greiðsluhlutfall örorkulífeyris kæranda hafi verið 80%, þ.e. bótaflokkurinn „örorkulífeyrir“ hafi verið lækkaður um 20% vegna þess að kærandi hafði fengið eingreiddar örorkubætur vegna slyss en orkutap vegna þess hafi verið metið til þess hlutfalls. Aðrar tengdar bætur, þ.e. aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging örorkulífeyrisþega og heimilisuppbót, hafi ekki verið lækkaðar af þessum sökum en lækkunin hafi á hinn bóginn haft þau áhrif á heildargreiðslur til kæranda að sérstök uppbót til framfærslu, sem greiðist að því marki sem örorkulífeyrisþegi sé með tekjur undir tilteknum viðmiðunarmörkum, hafi verið hærri en ella vegna lækkunar örorkulífeyrisins.

Við gildistöku breytingarlaga nr. 108/2021 hafi fallið úr gildi 4. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar um að taka ætti tillit til eingreiddra örorkubóta vegna slyss við ákvörðun á örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar. Frá og með 1. janúar 2022 hafi greiðsluhlutfall örorkulífeyrisgreiðslna kæranda verið hækkað úr 80% í 100%. Kæranda hafi verið tilkynnt um þessa breytingu með bréfi, dags. 25. ágúst 2022, og hafi hún komið til framkvæmda 1. september 2022. Í bréfinu hafi kæranda verið tilkynnt um leiðréttingu á örorkulífeyrinum frá 1. janúar 2022 en jafnframt hafi verið tekið fram að þar sem greiðslur sérstakrar uppbótar til framfærslu örorkulífeyrisþega myndu lækka sem næmi hækkun örorkulífeyris yrði ekki um breytingu á greiðslum að ræða.

Greiðslur örorkulífeyris og tengdra bóta til kæranda hafa breyst tvisvar á árinu 2022, þ.e. annars vegar vegna 3% hækkunar greiðslna frá 1. júní 2022 og hins vegar vegna hækkunar á fjárhæð örorkulífeyris vegna breytinga á lögum um slysatryggingar og brottfalls 4. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Ekki hafi verið um að ræða breytingu á tekjuáætlun kæranda á árinu 2022.

Mánaðarlegar greiðslur kæranda frá janúar til maí 2022 hafi skipst í örorkulífeyri 42.105 kr., aldurstengda örorkuuppbót 5.263 kr., tekjutryggingu 160.464 kr., heimilisuppbót 54.238 kr. og sérstaka uppbót til framfærslu 68.364. kr., eða samtals 330.434 kr.

Eftir 3% hækkun greiðslna frá 1. júní 2022, sbr. 2. gr. laga nr. 27/2022 um breytingu á lögum um tekjuskatt og samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu) og einnig reglugerð nr. 616/2022 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2022, reglugerð nr. 617/2022 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar og reglugerð nr. 618/2022 um breytingu á reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, hækkuðu mánaðarlegar greiðslur kæranda um 10.889 kr. Eftir það hafi greiðslur skipst í örorkulífeyri 43.368 kr., aldurstengda örorkuuppbót 5.421 kr., tekjutryggingu 165.520 kr., heimilisuppbót 55.947 kr. og sérstaka uppbót til framfærslu 71.067. kr., eða samtals 341.323 kr.

Við framangreindar breytingar hafi fjárhæðir örorkulífeyris og sérstakrar uppbótar til framfærslu breyst frá 1. janúar 2022. Breytingin hafi ekki haft áhrif á aðra bótaflokka.

Vegna tímabilsins janúar til maí 2022 hafi mánaðarlegar greiðslur örorkulífeyris hækkað úr 42.105 kr. í 52.631 kr. (þ.e. um 10.526 kr.) og sérstök uppbót til framfærslu hafi lækkað úr 68.365 kr. í 57.838 kr. (þ.e. um 10.526 kr.).

Vegna tímabilsins júní til desember 2022 hafi mánaðarlegar greiðslur örorkulífeyris hækkað úr 43.368 kr. í 54.210 kr. (þ.e. um 10.842 kr.) og sérstök uppbót til framfærslu hafi lækkað úr 71.067 kr. í 60.225 kr. (þ.e. um 10.842 kr.).

Þar sem hækkun örorkulífeyris og lækkun sérstakrar uppbótar til framfærslu hafi þannig numið sömu fjárhæð hafi í raun ekki verið um breytingu á greiðslum kæranda að ræða.

Mánaðarlegar heildargreiðslur á tímabilinu janúar til maí 2022 hafi því áfram verið 330.434 kr. og mánaðarlegar heildargreiðslur kæranda fyrir tímabilið júní til desember 2022 hafi ekki breyst heldur. Þar sem kærandi hafi á hinn bóginn frá 1. ágúst 2022 byrjað að fá mánaðarlega greidda uppbót vegna reksturs bifreiðar 20.037 kr., sem hafi ekki áhrif á útreikning annarra bótaflokka, hafi mánaðarleg heildargreiðsla hækkað við þá breytingu í 361.360 kr.

Þar sem ekki verði séð að um sé að ræða ágreining um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna eins og kveðið sé á um í 13. gr. laga um almannatryggingar fari Tryggingastofnun hér með fram á að mál þetta verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. ágúst 2022 um breytingu á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris kæranda.

Kærandi hefur fengið 80% greiðsluhlutfall örorkulífeyris, með vísan til þágildandi 4. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, vegna eingreiðslu örorkubóta vegna slyss samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga þar sem orkutap vegna slyssins hafði verið metið til 20% læknisfræðilegrar örorku. Í 1. mgr. 12. gr. síðarnefndu laganna var kveðið á um að ef slys ylli varanlegri örorku skyldi greiða hinum slasaða mánaðarlegan slysaörorkulífeyri eftir reglum 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eða örorkubætur í einu lagi með þeirri undantekningu að réttur til örorkulífeyris reiknist frá 16 ára aldri. Þá hljóðaði áðurnefnd 4. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatrygginga svo:

„Hafi lífeyrisþegi þegar fengið greiddan lífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skal taka tillit til þess við útreikning örorkulífeyris vegna almennrar örorku fyrir sama tímabil.“

Með 19. gr. laga nr. 108/2021 um breytingar á lögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 (atvinnusjúkdómar, miskabætur og fleira), var 4. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar felld úr gildi. Þá var með 11. gr. sömu breytingalaga gerð breyting á 1. mgr. 12. gr. laga um slysatryggingar almannatryggingar og hljóðar nú 1. málsliður 1. mgr. á þá leið að ef slys veldur varanlegu líkamstjóni skuli greiða hinum slasaða miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Kæra þessi varðar þá ákvörðun Tryggingastofnunar að breyta greiðsluhlutfalli örorkulífeyris kæranda, nánar tiltekið hækkun greiðsluhlutfalls grunnlífeyris úr 80% í 100%. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar þess að felld var úr gildi 4. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar um að taka skuli tillit til þess við útreikning örorkulífeyris vegna almennrar örorku hafi lífeyrisþegi þegar fengið greiddan lífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Með vísan til framangreinds liggur fyrir að heimild til að lækka greiðsluhlutfall örorkulífeyris vegna eingreiðslu örorkubóta vegna slyss var felld úr gildi með lögum nr. 108/2021 sem tóku gildi 1. janúar 2022 og við þá lagabreytingu var greiðsluhlutfalls örorkulífeyris kæranda hækkað úr 80% í 100%.

Þessi breyting á greiðsluhlutfalli leiddi til þess að upphæð sérstakrar uppbótar lækkaði sem nam hækkun örorkulífeyris. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð skal telja allar skattskyldar tekjur til tekna við útreikning þess bótaflokkar, þar á meðal bætur almannatrygginga. Hækkun örorkulífeyrisgreiðslna kæranda leiddi þar af leiðandi til þess að greiðslur sérstakrar uppbótar lækkuðu sem því nam.

Með hliðsjón af framangreindu gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemdir við hvernig Tryggingastofnun hefur staðið að breytingu á greiðslum til kæranda.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. ágúst 2022 um að heildargreiðslur til kæranda skuli vera óbreyttar, þrátt fyrir hækkun á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að heildargreiðslur til A, skuli vera óbreyttar, þrátt fyrir hækkun á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta