Neytendasamtökin gegna mikilvægu hlutverki
Neytendasamtökin hafa mikilvægu hlutverki að gegna til að gæta hagsmuna neytenda á Íslandi og upplýsa neytendur um rétt sinn.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hafa undirritað þjónustusamning á milli ráðuneytisins og Neytendasamtakanna til eins árs. Með samningnum er Neytendasamtökunum falið að sinna ákveðnum verkefnum á sviði neytendamála fyrir hönd stjórnvalda, svo sem fræðslu til almennings um neytendamál, sinna kvörtunar og leiðbeiningarþjónustu til almennings um neytendamál og upplýsa um rétt neytenda og kæruleiðir. Með samningnum munu Neytendasamtökin m.a. hafa símatíma sem er öllum aðgengilegur og þá sjá samtökin um Evrópsku neytendaaðstoðina fyrir hönd Íslands og hafa umsjón með rafrænum vettvangi á sviði neytendamála.
„Með þjónustusamningi er Neytendasamtökunum gert kleift að halda úti öflugri þjónustu á þessu sviði og stuðla að aukinni neytendavitund. Í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er til frekari skoðunar hvernig unnt sé að efla starfsemi Neytendasamtakanna enn frekar og styrkja þannig þennan málaflokk,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Neytendasamtökin taka að sér að aðstoða neytendur við að gæta hagsmuna sinna, ná fram rétti sínum og útkljá deilumál sem kunna að koma upp og veita skýrar og greinargóðar upplýsingar um réttindi neytenda. Samtökin veita neytendum m.a. leiðbeiningar um hvort og hvernig leggja megi ágreining fyrir úrskurðaraðila á sviði neytendamála.