Reglugerð um greiðsluþátttöku fyrir heilbrigðisþjónustu til umsagnar
Hér með birtir velferðarráðuneytið til umsagnar drög að reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu. Í reglugerðinni er kveðið á um fjárhæðir og greiðslur þegar nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu tekur gildi 1. febrúar 2017.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir þetta mikil tímamót. Núverandi kerfi sé flókið, óréttlátt og illskiljanlegt notendum. „Í þessu nýja kerfi eru þeir sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda varðir fyrir miklum útgjöldum eins og rætt hefur verið um áratugum saman. Við stígum hér mikilvægt skref í átt til þess að hlutdeild sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu verði svipuð því sem best gerist annars staðar á Norðurlöndunum.“
Alþingi samþykkti í júní sl. frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um sjúkratryggingar þar sem kveðið er á um nýtt fyrirkomulag á greiðslum sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu.
Samkvæmt lögunum verður tryggt að mánaðarlegar greiðslur fólks vegna heilbrigðisþjónustu fari aldrei yfir tiltekið hámark og þannig sett þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verða lægri en hjá öðrum. Undir nýja kerfið fellur þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, rannsóknir og geisla- og myndgreiningar.
Í meðförum Alþingis náðist full samstaða um nýtt greiðsluþátttökukerfi og eins lýsti það yfir vilja til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga með auknu fjármagni inn í heilbrigðiskerfið. Í meðfylgjandi reglugerð taka fjárhæðir mið af yfirlýstum vilja Alþingis, en líkt og fram kemur í frumvarpi til fjárlaga ársins 2017 mun koma til kasta þess að tryggja nauðsynlegar útgjaldaheimildir við gerð fjárlaga vegna áformaðrar kostnaðarlækkunar sjúklinga í nýju greiðsluþátttökukerfi.
Kostnaðarþök í nýju greiðsluþátttökukerfi
Við innleiðingu á nýju kerfi munu greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu mánuðina á undan reiknast til afsláttar. Kostnaðarþök í nýju greiðsluþátttökukerfi verða því eftirfarandi.
-
Almennur notandi með fullan afslátt þegar kerfið tekur gildi mun greiða að hámarki 49.200 kr. á ári en börn, aldraðir og öryrkjar með fullan afslátt að hámarki 32.800 kr. á ári.
-
Almennur notandi mun í nýju kerfi greiða að hámarki 69.700 kr. á ári fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem lögin taka til.
-
Öryrkjar, aldraðir og börn munu greiða að hámarki 46.467 kr. á ári.
Í meðfylgjandi reglugerð er rakið ítarlega hvernig greiðslum verður háttað í nýju kerfi og tilgreindar fjárhæðir fyrir þá þjónustuþætti sem falla undir nýja greiðsluþátttökukerfið.
Frestur til að skila umsögnum um meðfylgjandi reglugerð er til 16. desember. Umsagnir skal senda á netfangið [email protected] og skrá í efnislínu: „umsögn um reglugerð vegna nýs greiðsluþátttökukerfis.“
Sjá einnig: