Hoppa yfir valmynd
5. júní 2020 Innviðaráðuneytið

Sóknarfæri felast í orkuskiptum í samgöngum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp á aðalfundi Bílgreinasambands Íslands. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fjallaði um samgönguáætlun, framtíðarsýn í samgöngumálum og orkuskipti í ávarpi á aðalfundi Bílgreinasambands Íslands sem haldinn var í gær. Ráðherra sagði talsverð sóknarfæri felast í orkuskiptum í samgöngum og rafvæðingu bílaflotans, bæði fyrir umhverfið en einnig efnahag landsins.

Í umfjöllun sinni um samgönguáætlun sagði Sigurður Ingi að framlög til samgöngumála hefðu verið stóraukin á kjörtímabilinu. Framlög hefðu þannig verið aukin um 20 milljarða á fyrsta tímabili núgildandi samgönguáætlunar. Þá sagði hann að í sérstöku fjárfestingarátaki stjórnvalda hafi 6,5 milljarðar kr. verið settir aukalega í samgöngumál á þessu ári, gagngert til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þeim verði varið í að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir. Nýr samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hefði ennfremur mikla þýðingu en um væri að ræða mestu uppbyggingu í samgönguinnviðum í sögu svæðisins en fjárfesting næmi 120 milljörðum kr. á 15 ára tímabili.

Ráðherra sagði að í tillögu að nýrri samgönguáætlun, sem væri nú til umræðu á Alþingi, væri boðað að flýta mörgum mikilvægum framkvæmdum. Sérstök áhersla væri til að mynda lögð á að klára aðskilnað akstursstefna á vegum kringum höfuðborgarsvæðið að Borgarnesi, að Leifsstöð og að Hellu á næstu 15 árum. Þá sagði hann frá nýju frumvarpi til laga um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum en tilgangur þeirra væri að auka fjármagn enn frekar til vegaframkvæmda með samvinnu og þátttöku fjárfesta í völdum verkefnum.

Ráðherra sagði allar vegaframkvæmdir samgönguáætlunar hefðu sama markmið, að auka umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar milli byggða. 

Sjálfbærar samgöngur

Ráðherra fjallaði ennfremur stöðu Íslands hvað varðar sjálfbærar samgöngur, orkuskipti og fjölbreytta samgöngumáta. Hann sagði það vera eitt af lykilmarkmiðum samgönguáætlunar að leitast við að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar á umhverfið og að jafna aðgengi landsmanna að þjónustu m.a. með niðurgreiðslu á þjónustu í almenningssamgöngum milli byggða í flugi, með ferjum eða í almenningsvögnum. Ísland hafi ennfremur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum, ynni náið með Norðurlöndum á því sviði og hvort tveggja endurspeglist í metnaðarfullri loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Sigurður Ingi sagði að eitt sterkasta vopnið til ná markmiðum Íslands og annarra Norðurlanda væri að styðja við orkuskipti í samgöngum. Ánægjulegt væri að vistvænum fólksbílum hafi fjölgað talsvert en einnig hafi auknum fjármunum verið varið í gerð göngu- og hjólastíga og að styðja við rekstur almenningssamgangna, hvort tveggja til að hvetja til fjölbreyttari ferðamáta. Ráðuneytið hafi einnig stutt við rannsóknir á ræktun orkujurta með það að markmiði að framleiða innlenda orkugjafa sem gætu komið í stað innflutnings á lífeldsneyti í díselolíu.

Sigurður Ingi sagði mikil sóknarfæri felast í orkuskiptum í samgöngum og rafvæðingu bílaflotans, bæði fyrir umhverfið en einnig efnahag landsins. Mikilvægt væri að geta nýtt eigin orkugjafa í stað þess að flytja inn hráolíu með miklum tilkostnaði fyrir þjóðarbúið.

Lagaumhverfið hamli ekki framþróun

Ráðherra sagði í umræðum eftir ávarp sitt að það væri mjög mikilvægt að laga- og regluumhverfið væri ekki hamlandi fyrir framþróun á sviði samgangna. Ráðuneytið fylgdist vel með innleiðingu tækninýjunga og tryggja þyrfti góða innviði, þ.m.t. fjarskiptanet, sem styðji vel við notkun upplýsingatækni við umferðarstjórnun, miðlun rauntímaupplýsinga m.a. um aðstæður, innheimtu notenda- og veggjalda, samskipti milli ökutækja, samskipti við innviði og við umhverfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta