Til forystu í tóbaksvörnum
Fundarstjóri, erlendir gestir og
og aðrir góðir ráðstefnugestir.
Ég vil byrja á því að þakka það tækifæri sem hér býðst til að setja ráðstefnuna Loft 2006. Einnig vil ég þakka það frumkvæði sem þeir sem standa að ráðstefnu sem þessari hafa sýnt með því að efna til ráðstefnunnar. Okkur sem að tóbaksvörnum störfum er nauðsynlegt að koma saman og kynnast þeim sjónarmiðum sem á döfinni eru í þeim efnum til þess að auka við þekkingu okkar og fræðast um nýjar leiðir í tóbaksvörnum.
Í áranna rás hafa íslensk stjórnvöld verið í fararbroddi í heiminum í lagasetningu og forvörnum á sviði tóbaksvarna með dyggri aðstoð ykkar sem hér eruð. Tóbaksvarnir og lagasetning um þær eru oft ekki alveg einfalt mál þótt allir sem að þeim starfa og hafa kynnt sér hættuna af tóbaksreyk, geri sér fulla grein fyrir nauðsyn lagasetningar um þau efni, nú síðast með lagasetningu um bann við reykingum á veitingastöðum. Slík frumvörp þurfa að hafa meirihlutastuðning á þingi sem oft tekur tíma að fá, því áróður gegn tóbaksvörnum er líka mikill og úr ýmsum áttum. Þá skiptir máli að raddir þeirra sem vinna að þessum málum heyrist vel og kröftuglega eins og þið sem hér eruð hafið gert. Við megum ekki gleyma því í þessari baráttu að raddir þeirra sem hvetja til frelsis til reykinga geta oft verið áberandi og þeim þarf að svara með kröftugum mótrökum um þá miklu hættu sem af tóbaksreykingum stafar.
Ráðherra og ráðuneytið hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir ýmsum lagasetningum á sviði tóbaksvarna, sem dæmi má nefna sýningarbann á tóbaki í verslunum, bann við umfjöllun um einstakar vörutegundir tóbaks og nú síðast reykingabann á veitingahúsum. Ráðherra og ráðuneytið hafa þurft að búa við það að tóbaksframleiðslufyrirtæki hafa stefnt ráðherra vegna sumra þessara lagasetninga fyrir dómstóla, en málin hafa að meginstefnu til unnist hingað til. Við höfum við lagasetninguna haft að leiðarljósi að minnka sölu tóbaks og vernda þá sem ekki reykja með því að hefta tóbaksreyk frá öðrum. Við höfum fundið til ábyrgðar okkar gegn þessum vágesti sem tóbaksreykingar eru. Við höfum sinnt skyldu okkar til að spyrna við fótum til að hefta útbreiðslu tóbaksreykinga og að koma í veg fyrir að þeir sem ekki reykja byrji á því. Heilbrigðisyfirvöld hafa lagt fyrir Alþingi heilbrigðisáætlun til ársins 2010 og er henni ætlað að marka stefnu í heilbrigðismálum. Þar er það markmið sett að minnka reykingar fullorðinna og ungmenna umtalsvert og er það undir okkur öllum komið að það takmark náist. Til þess að svo megi verða þarf að taka höndum saman í tóbaksvörnum. Ég hef nú ákveðið að styrkja reyksíma-þjónustuna á Íslandi og mun gera það með sérstöku framlagi svo unnt sé að efla starfsemina. Reyksímaþjónusta, sem annast ráðgjöf í reykbindindi, er hluti af því markmiði stjórnvalda að þeir sem nú þegar eru háðir reykingum dragi úr þeim og hætti helst alveg að reykja.
Það hefur sýnt sig í alþjóðlegum könnunum að öflugar tóbaksvarnir minnka reykingar og afleiðingin er að tóbaksvarnir bjarga mannslífum og skilaboðin eru skýr: Tóbaksvarnir hafa áhrif.
Þótt við höfum unnið marga einstaka sigra á sviði tóbaksvarna megum við þó ekki láta deigan síga því að við eigum, ef svo má að orði komast, enn eftir að vinna stríðið. Við getum því ekki unnt okkur hvíldar þótt við höfum hlotið margar viðurkenningar m.a. á erlendum vettvangi vegna stefnu okkar í tóbaksvörnum. Má þar nefna, að samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins var íslensk löggjöf og reglur í fyrsta sæti hvað varðaði forvarnagildi laga og reglugerðasetningar í Evrópulöndunum.
Við vorum auk þess með fyrstu þjóðum til að undirrita og staðfesta rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir og tókum fullan þátt í gerð hans. Sá samningur er talinn af mörgum vera stórvirki þar sem svo margar þjóðir gátu komið sér saman um t.d. skaðsemi óbeinna reykinga og skuldbundu sig til þess með að samþykkja ráðstafanir til varnar óbeinum reykingum.
Við höfum verið í sambandi og samvinnu við marga aðila sem hér eru vegna stefnumótunar í tóbaksvörnum og fengið fjölmörg erindi og bréf sem hvetja okkur til dáða og styrkja málflutning okkar í tóbaksvörnum.
Ráðstefna sem þessi er í anda rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem 168 þjóðir hafa samþykkt. Í samningnum viðurkennir alþjóðasamfélagið hinar skelfilegu afleiðingar tóbaksneyslu og óbeinna reykinga og þau áhrif sem þau hafa á heilsu, samfélagið, fjárhag þjóða og umhverfi um heim allan.
Stefna okkar Íslendinga í tóbaksvörnum hefur verið metnaðarfull og skýr. Við höfum verið í forystu í tóbaksvörnum á heimsvísu og vakið fyrir það athygli á alþjóðavettvangi.
Þetta hefði ekki tekist nema með fulltingi og aðstoð þeirra sem að tóbaksvörnum starfa á Íslandi. Við megum og eigum að vera stolt af framgöngu okkar og ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem hér eru og hafa aðstoðað okkur beint og óbeint við að koma stefnu okkar í heilbrigðismálaráðuneytinu í framkvæmd.
Ég segi ráðstefnuna Loft 2006 hér með setta.
(Ávarp ráðherra á ráðstefnunni LOFT 2006 14.09.2006, Kirkjulundi, Reykjanesbæ)