Ráðherra ávarpar baráttusamkomu SÁÁ
Góðir fundargestir.
Ég vil byrja á því að fagna því frumkvæði sem SÁÁ hefur sýnt með því að boða til þessa baráttu- og hátíðarfundar hér í Háskólabíó í kvöld. Það er nauðsynlegt að ræða stöðu forvarnar- og meðferðar úrræðar mála reglulega.
Saga SÁÁ er nú orðin um þrjátíu ára gömul, löng og merkileg, og landsmönnum er öllum vel kunnugt ötult og fórnfúst starf SÁÁ í þágu þess málsstaðar, sem samtökin hafa gert að sínum.
Vandi áfengis og vímuefna hefur löngum verið vandamál á Íslandi og má lesa um miklar hörmungar tengdar áfengisneyslu langt aftur í aldir. Sá mælikvarði um neyslumagn og skaðsemi sem við höfum stuðst við síðustu ár bendir til vaxandi neyslu, bæði áfengisneyslu og vímuefnaneyslu af öðrum toga. Þessari auknu neyslu hefur fylgt aukinn vandi fíknar með öllum þeim afleiðingum á heilsufar og félagslega stöðu sem fíknin veldur. Mikilvægt er að halda áfram baráttu gegn þessari vá sem að samfélagi okkar stafar.
Um leið og þessi vettvangur neyslu og fíknar hefur breyst, þá hafa einnig skoðanir leikra og lærðra á orsökum fíknarinnar, afleiðingum hennar sem og aðferðum til meðferðar á henni verið að breytast. Sá grunnur sem SÁÁ byggir á er, eins og allir hér þekkja, runnin úr rótum hins bandaríska kerfis sem margir kenndu við Freeport eða Minnisota og á sjöunda hundruð Íslendinga kynntust, einkum á áttunda áratugnum.
Umfang starfsemi SÁÁ hefur í áranna rás verið vel kynnt. Nýlega kom út umfangsmikil ársskýrsla samtakanna, glæsileg að vanda, sem ég ætla ekki að rekja nánar hér en hún greinir frá ýmsum þeim þáttum, sem snúa að þessum málaflokki. Sýna þær tölur að margur er vandinn óunninn en um leið að framlag SÁÁ til fíknimeðferðar er óhemju umfangsmikið og fjölbreytilegt. Skýrslan getur einnig um þjónustusamning milli heilbrigðisráðuneytisins og Samtakanna sem nú er í endurnýjun.
Eins og oft áður koma annað slagið upp álitaefni um fjárveitingar til rekstursins og umfang þeirrar þjónustu sem ríkið kaupir og ég vonast til þess og hef fulla trú á að úr muni rætast nú sem áður, vonandi innan sem skamms tíma. Í fjárlögum í ár er gert ráð fyrir að framlög til SÁÁ séu samtals 579,1 m. kr. en framlögin voru 506,6 m. kr. fyrir árið 2006. Aukin fjárframlög eru til þess að mæta kostnaði vegna aukins fjölda opíumfíkla, 4,3 m. kr., fjárveiting vegna túlkaþjónustu, 2,2 m. kr., til viðhalds húsnæðis, 13,1, framlag til eflingar göngudeildarþjónustu 10 m. kr., launa- og verðlagsreikningur 42,9 m. kr.
Hér er um raunhækkun upp á um 30 milljónir króna að ræða milli ára.
Í sambandi við mikilvægi þess að taka á þessum vanda þá hlýtur okkur öllum að vera ljóst mikilvægi forvarna, bæði fyrsta, annars og þriðja stigs forvarna. Fyrsta stigs forvarnir verða að beinast að börnum og unglingum, öllum okkur er vel kunnugar þær niðurstöður fjölda rannsókna, að skaðsemi áfengisneyslu er verulega háð því hvenær á æviskeiðinu hún hefst. Forvarnir þurfa því að beinast að mikilvægi þess að notkun þessara efna leiði ekki til stjórnleysis í neyslu og fíknar, sem síðan kallar á aðkomu heilbrigðisþjónustunnar, félagsþjónustunnar eða annarra þátta samfélagsins. Mikilvægt er því að þeir sem sinna forvörnum á einn eða annan hátt auki samstarf sín á milli svo að forvarnirnar verði markvissari og öll þekking sé nýtt sem býr í samfélagi okkar svo sem hjá foreldrum, ríki, sveitafélögum, skólum, lögreglu, frjálsum félagasamtökum og kirkju- og trúfélögum.
Vegna þessa ber okkur einnig skylda til að leita sífellt þekktra, sannaðra leiða til að ná sem árangursríkastri meðferð með sem bestri nýtingu þess fjár sem við höfum úr að spila.
Við þurfum því sífellt að vera vakandi yfir því sem gert er og spyrja okkur á gagnrýninn hátt til dæmis:
Er ákveðin meðferð betri en önnur meðferð, þ.e eru sumar meðferðir áhrifaríkari en aðrar?
Eru sumar meðferðaraðferðir hentugri vissum hópi sjúklinga en öðrum?
Hvaða sérhæfðu meðferð þurfum við að veita neytendum sem einnig hafa geðræna sjúkdóma eða aðra sjúkdóma?
Er betra að meðhöndla fólk inniliggjandi en á göngudeildum?
Hvaða meðferðir gefa bestan árangur þegar til lengri tíma er litið?
Að mínu mati þarf sífellt að vera spyrja þessara spurninga. Svaranna er að leita í eigin reynslu og rannsóknum og sömuleiðis í erlendum rannsóknum. Að mínu mati þarf að þróa aukna möguleika til afeitrunar og meðferðar, helst án innlagna, þegar ástand og einkenni krefjast þess ekki. Í því sambandi vil ég rifja upp að um og yfir 90% þeirra sem eru í meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn í nágrannalöndum okkar fá meðferð á göngudeildum, sem í flestum og í nánast öllum tilvikum er umtalsvert ódýrari en innlagnarmeðferð. Árangurinn er hins vegar svipaður. . Ég hef kosið að verja 10 milljónum króna til að styrkja göngudeildarþjónustu á vegum samtakanna eins og endurspeglast í fjárlagafrumvarpinu og veit að innan SÁÁ er rekin vaxandi göngudeildarþjónusta.
Ég tel í þessu sambandi mikilvægt, að við séum vakandi yfir því að mæla og meta árangur okkar, að árangurinn sé skilgreindur eftir þeim aðferðum sem viðgangast á alþjóðlegum vettvangi.
Mér er ljóst að árangursmælingar eru ekki auðveldar, um þær er tekist en það leysir okkur ekki undan þeirri skyldu að vera sífellt að skoða raunverulegan árangur til langs tíma.
Í þessu sambandi vil ég einnig víkja að því, að ég tel mjög mikilvægt að nýta getu heilsugæslunnar í landinu til hins ýtrasta. Ég hvet til aukins samstarfs við hana, hún er dreifð um land allt, er í mikilli nálægð við íbúa landsins, þar býr mikil þekking, bæði þekking á íbúunum og þekking í fræðunum. Heilsugæslan er grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar.
Margar rannsóknir sína að heilsugæslan getur náð umtalsverðum árangri í að greina áfengis- og vímuefnavanda á byrjunarstigi og tekið drjúgan þátt í meðferð vegna slíkra vandamála. Því er mikilvægt að samstarf meðferðarstofnana og heilsugæslu sé eins mikið og mögulegt er, bæði til að efla forvarnarstarf beggja aðila, til að efla kunnáttu og þekkingu til að takast á við þennan vanda, til að bæta samskipti ef til innlagna kemur, svo og til að bæta upplýsingaflæði að innlögnum loknum.
Ég tel samstarf af þessum toga vera öllum til gagns, bæði starfsfólki og þeim sem meðferðarinnar þurfa að njóta.
Ég vil einnig leggja mikla áherslu á mikilvægi samstarfs milli stofnana, eins og SÁÁ og Landspítala-háskólasjúkrahúss.
Mikilvægi almennra forvarna er öllum ljóst en á þeim vettvangi starfa fleiri aðilar og þar þarf samræming og samstarf einnig að vera sem mest. Þá er sérstaklega mikilvægt að boðið sé upp á fjölbreytt meðferðarúrræði og þá sérstaklega úrræði fyrir aldurshópinn 18 - 25 ára. En það er sá hópur sem er í einna mestri áhættu.
Við höfum á undanförnum árum verið að þróa þau tæki sem við höfum til að efla forvarnir í landinu – fyrst og fremst gagnvart yngri kynslóðunum. Hér vísa ég til þess þegar Áfengis- og vímuvarnarráði var komið á fót og svo síðar þegar við settum upp Lýðheilsustöð meðal annars í því skyni að efla, samræma og samhæfa allt það víðtæka forvarnastarf sem unnið er.
Hin unga stofnun var á dögunum að kynna metnaðarfulla stefnu og aðgerðaáætlun sem ég bind miklar vonir við og er sannfærð um að á eftir að skila okkur enn meiri árangri en við höfum séð á undanförnum árum.
En samkvæmt heilbrigðisáætlun okkar sem nær til 2010 voru sett markmið um að árleg sala áfengis verði ekki meiri en 5 lítrar af hreinu alkóhóli á hvern íbúa 15 ára og eldri. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni frá 2005 er sala áfengis 7,05 lítrar á hvern íbúa 15 ára og eldri og hefur farið vaxandi hin seinni ár.
En höfum við eitthvað til að státa okkur af kynnu einhverjir að spyrja? Svarið er já.
Samkvæmt heilbrigðisáætluninni skal árið 2010 hafa dregið úr áfengis- og vímuefnaneyslu fólks undir lögaldri um 25%. Hlutfall ungmenna sem orðið hafa drukknir í 10. bekk hefur farið lækkandi undanfarið – á sama tíma og áfengisneysla hefur almennt farið vaxandi mælt í lítrum á mann – þetta hlutfall var 54% árið 2003 en var komið niðrí 44% samkvæmt könnun sem gerð var í ár.
Hlutfall þeirra sem prófað hafði hass í sama aldurshópi var 13% árið 2003 en var 10% samkvæmt könnun í ár.
Hvoru tveggja er ánægjuleg vísbending að almennt forvarnastarf hefur skilað árangri – almennt talað er ástand þessara mála í góðu lagi hjá meirihluta ungmenna.
Mér er það hins vegar ljóst að í afmörkuðum hópi sem almennar forvarnir ná ekki til hefur ástandið farið versnandi þrátt fyrir almennan opinberan vilja til að hjálpa fólki til sjálfshjálpar.
Ef við ætlum að ná varanlegum árangri þurfa allir, yfirvöld og stofnanir, einstaklingar og samtök, að vinna eins og einn maður að sama markmiði.
Í augnablikinu er starfandi á vegum ríkisstjórnarinnar nefnd sem hefur það hlutverk að móta heildstæða forvarnastefnu sem byggi á samræmdum leiðum í þágu forvarna og betri nýtingu þeirra fjármuna sem þegar er veitt í verkefni á þessu sviði.
Í starfinu taka þátt fulltrúar ráðuneyta og stofnana, sveitarfélaga, lögreglu, skólayfirvalda, íþróttahreyfingarinnar og annarrar tómstundastarfsemi, svo sem listnáms, auk fulltrúa foreldra. Til stendur að kynna niðurstöðu þessa starfs innan nokkurra vikna.
Það er afar brýnt, bæði gagnvart ungmennum almennt og ekki síður gagnvart þeim hópi sem verst er settur gagnvart áfengis- og vímuefnum, að stórefla samstarf heilbrigðis-dóms-og félagsmálayfirvalda, sveitarfélaganna, og stofnananna sem heyra undir ráðuneytin þrjú sem ég nefndi.
Þetta segi ég vegna þess að þegar þekkingin og reynslan sem menn búa yfir til dæmis í meðferðargeiranum, félagsmálageiranum og síðast en ekki síst hjá lögreglunni safnast saman og nýtist saman þá höfum við öflugt tæki til að vinna með.
Ég bind í þessu sambandi miklar vonir við nefndarstarfið sem ég vísaði til hér að framan sem félagsmálaráðherra leiðir.
Mér finnst nauðsynlegt í lokin að við minnum okkur öll á að skaðsemi áfengis og vímuefna er hægt að fyrirbyggja. Minnum okkur einnig á að það eru til áhrifaríkar meðferðir til þess að meðhöndla misnotkun og fíkn í áfengi og vímuefni. Minnum okkur sömu leiðis á að við þurfum að auka samstarf, upplýsingaflæði, menntun og rannsóknir á þessu sviði. Á öllum þessum sviðum tel ég að samtökin hafi mikið gildi um ókomin ár.
(Talað orð gildir)