Hoppa yfir valmynd
6. október 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Stefna, framtíðarsýn og aðgerðaáætlun Lýðheilsustöðvar

Ágætu fundarmenn,

Stefna, framtíðarsýn og aðgerðaáætlun Lýðheilsustöðvar 2006-2010, sem hér verður kynnt er mikilvægt gagn. Það er mér því sérstök ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag. Íslendingar hafa sjaldan eða aldrei búið við betri heilsu en þá sem í dag þekkist, mörgum smitsjúkdómum hefur verið útrýmt og lífslíkur fólks eru með því besta sem þekkist í heiminum. Betri menntun, auknar tækniframfarir, bætt heilbrigðisþjónusta og almenn velsæld hafa fært okkur betri heilsu. Við viljum þó gera enn betur. Stöðugt og með markvissum hætti þarf því áfram að efla heilbrigði allra Íslendinga. Bætt lýðheilsa er því verkefni sem stöðugt þarf að vinna að. Með almennri heilsuvernd og góðri heilbrigðisþjónustu, heilsueflingu, rannsóknum og ekki síst – samfélagslegri ábyrgð þarf að viðhalda og bæta heilsu, líðan og aðstæður sem flestra Íslendinga.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeim breytingum sem eiga sér stað í þjóðfélaginu og haga stefnumörkun og aðgerðum í samræmi við þær. Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, aukin kyrrseta, óhollara mataræði, ónóg hreyfing og offita eru staðreyndir sem horfa verður til.

Samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands eru hjarta- og æðasjúkdómar og krabbamein efst á lista fyrir dánarorsakir hér á landi. Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru það hins vegar sjúkdómar af geðrænum toga sem tróna efst á lista yfir 10 helstu orsakir glataðra góðra æviára hér á landi og hjarta- og æðasjúkdómar koma þar fyrir neðan. Á hverjum tíma er mikilvægt að allt forvarna- og lýðheilsustarf byggist á bestu rannsóknum og þekkingu á heilsufari landsmanna á heilsufarsógnum á hverjum tíma. Ef svo er ekki náum við tæpast þeim árangri sem við stefnum að.

Það eru fjölmargir þættir sem hafa áhrif á heilsu og hver og einn einstaklingur þarf að líta í eigin barm og skoða hvað hann getur sjálfur gert til þess að hafa áhrif á bætta velferð sína. Reykingar, áfengisneysla, óhollt mataræði og ónóg hreyfing eru þættir sem hvert okkar getur haft áhrif á og ákveðið að bæta um betur. Framtíðarsýn okkar þarf að snúast um að ná tökum á lýðheilsu okkar. Að við sjálf höfum áhrif – til hins betra.

Upphafsorð framtíðarsýnar Lýðheilsustöðvar lúta einmitt að mikilvægi þess að þekking og vitund aukist, - meðal landsmanna og einnig ráðamanna, um þá þætti sem hafa áhrif á bætta heilsu og líðan.

Góðir fundarmenn.

Ég vil óska Önnu Elísabetu Ólafsdóttur forstjóra Lýðheilsustöðvar og hennar starfsfólki til hamingju með framsýna stefnu, góða framtíðarsýn og aðgerðaáætlun Lýðheilsustöðvar til ársins 2010. Ég hef sem heilbrigðisráðherra sérstakan áhuga á að vinna eins náið með stöðinni og mér frekast er unnt. Starf Lýðheilsustöðvar er mikilvægt fyrir þjóðfélagið. Það er því von mín og trú að með samstillum aðgerðum stjórnvalda, þar sem Lýðheilsustöð spilar stórt hlutverk, félagasamtaka, atvinnulífs, verslunar og fólksins í landinu takist að efla lýðheilsu hér á landi þannig að andlegt og líkamlegt heilbrigði aukist.

Til hamingju með daginn.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta