Fræðsluefni um Ellu umferðartröll sýnt yngstu grunnskólanemendunum
Fræðsluefni um Ellu umferðartröll var kynnt í gær í Ráðhúsi Reykjavíkur en það er leikrit ætlað nemendum í fyrsta og öðrum bekk grunnskóla. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra var viðstödd kynninguna ásamt Jóni Gnarr borgarstjóra og fleiri gestum og fengu þau afhent endurskinsmerki Ellu til að minna á mikilvægi notkunar þeirra.
Markmið verkefnisins er að auka öryggi barna sem eru að fara í fyrsta sinn ein út í umferðina og kynna umferðarreglurnar fyrir þeim á ævintýralegan og fræðandi hátt. Sjóvá og N1 styrktu verkefnið.
Leikritið er eftir Önnu Bergljótu Thorarensen og leikendur eru Andrea Ösp Karlsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson sem eru í leikhópnum Kraðaki. Öll börn sem fá Ellu tröllastelpu í heimsókn fá endurskinsmerki með sér heim ásamt umferðargátlista Ellu umferðartrölls. Listann eiga þau að fylla út með foreldrum og fara yfir umferðarreglurnar. Á vefsíðu verkefnisins er hægt að taka þátt í leik þar sem börn geta nálgast listann, litað myndir af Ellu og félögum og unnið til verðlauna.