Nr. 239/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 24. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 239/2018
í stjórnsýslumálum nr. KNU18040030 og nr. KNU18040031
Kærur […] og […]
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 16. apríl 2018 kærðu […], fd. […], og […], fd. […], ríkisborgarar […] (hér eftir nefnd kærendur), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2018, um að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur hafa ekki lagt fram greinargerð en litið verður svo á að þau krefjist þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi hér á landi.
Fyrrgreindar ákvarðanir voru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests. Í ljósi þess að málsatvik, málsástæður og kröfur kærenda í málum KNU18040030 og KNU18040031 eru sambærilegar verður kveðinn upp einn úrskurður í báðum málunum.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í hinum kærðu ákvörðunum kom m.a. fram að kærendur hafi sótt um dvalarleyfi á Íslandi vegna sérstakra tengsla og hafi umsóknir þeirra verið mótteknar hjá Útlendingastofnun þann 15. febrúar 2018. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2018, var kærendum synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærendur kærðu þær ákvarðanir þann 16. apríl 2018. Með kæru fylgdu frekari gögn. Með tölvupósti, dags. 17. apríl sl., var kærendum veittur frestur til 2. maí sama árs til að skila greinargerð. Viðbótargögn frá kærendum og Útlendingastofnun bárust m.a. þann 18., 20. og 30. apríl sl.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í hinum kærðu ákvörðunum Útlendingastofnunar var tekið fram að kærendur hafi sótt um dvalarleyfi hér á landi vegna sérstakra tengsla, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Var rakið að kærendur væru eldri hjón frá […] sem ættu […] uppkomin börn og […] barnabörn á Íslandi. Í ákvörðuninni var fjallað um inntak 78. gr. laga um útlendinga og m.a. 4. mgr. þess ákvæðis sem og 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Í málinu lægi fyrir að kærendur hefðu aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og því hefðu þau ekki myndað sterk tengsl við landið væri horft til dvalartíma. Þó hefðu kærendur fjölskyldutengsl við Ísland enda ættu þau uppkomin börn og […] barnabörn hérlendis. Ennfremur væri ljóst að […] þeirra hefði ítrekað sent peningagreiðslur til […]. Samkvæmt gögnum málsins væru umönnunarsjónarmið þó ekki til staðar í málum kærenda. Þá var það mat stofnunarinnar að það teldist ekki bersýnilega ósanngjarnt að veita kærendum ekki dvalarleyfi hér á landi enda væru hjónin saman í heimaríki. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu ekki svo sérstök tengsl við Ísland að beita ætti undantekningarreglu 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Var umsóknum þeirra um dvalarleyfi því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærendur hafa ekki lagt fram greinargerð til kærunefndar. Í umsóknum kærenda um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2018, segir m.a. að tilgangur dvalar hér á landi sé að kærendur geti verið nærri börnum sínum og barnabörnum sem séu búsett á Íslandi. Af frekari gögnum málsins verður af ráðið að kærendur byggi umsóknir sínar um dvalarleyfi einnig á aðstæðum eins barnabarns síns sem glími við […]. Kemur t.d. fram í læknisvottorði, dags. 16. apríl 2018, sem stílað er á kærunefnd útlendingamála, að umrætt barnabarn hafi greinst með […]. Umönnun barnsins valdi […]. Við meðferð málsins hafa kærendur lagt fram gögn um heilsufar sitt, sbr. meðal annars tvö læknisvottorð, dags. 10. apríl 2018.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.
Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum um 78. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að ákvæðið geti t.d. átt við þegar einstaklingur sé einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnist umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búi hér á landi. Ákvæði 4. mgr. 78. gr. laganna er samkvæmt orðalagi sínu undantekning frá þeirri almennu reglu að sérstök tengsl myndist á meðan á löglegri dvöl stendur. Ber að mati kærunefndar að túlka ákvæðið þröngt.
Umsóknir kærenda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eru á því reistar að þau eigi börn og barnabörn hér á landi og sérstaklega barnabarn sem glími við […]. Þurfi foreldrar barnsins á […], t.d. við […]. Virðist því sem meginmarkmið umsókna kærenda um dvalarleyfi sé að gera þeim kleift að […].
Í reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um mat á umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Í 20. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Útlendingastofnun er heimilt að gefa út dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Útgáfa slíks dvalarleyfis er heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þarf að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfa að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.
Af framangreindum ákvæðum má ráða að þau umönnunarsjónarmið sem vísað er til í 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga eiga við þær aðstæður þar sem umsækjandi um dvalarleyfi þarfnast sjálfur umönnunar og að fjölskyldu- og félagslegar aðstæður hans í heimaríki eru að öðru leyti þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Eins og áður hefur komið fram hafa kærendur lagt fram læknisfræðileg gögn um heilsufar sitt, m.a. læknisvottorð, dags. 10. apríl sl. Þá hafa ekki komið fram önnur gögn við meðferð málsins sem varða umönnunarþörf kærenda. Kærunefnd hefur farið yfir þau gögn og að mati nefndarinnar gefa gögnin ekki til kynna að kærendur þurfi á sérstakri umönnum að halda.
Líkt og fram hefur komið byggja kærendur umsóknir sínar um dvalarleyfi á því að þeir vilji sameinast börnum sínum og barnabörnum sem séu búsett hérlendis. Í ljósi þess læknisvottorðs sem kærendur hafa lagt fram, dags. 16. apríl sl., og áður hefur verið fjallað um, telur kærunefndin rétt að leggja til grundvallar að meginástæða umsókna þeirra séu […]. Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið gera ákvæði reglugerðar um útlendinga ekki ráð fyrir því að útlendingi, sem hefur aldrei dvalist hér á landi, verði veitt dvalarleyfi samkvæmt 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga á grundvelli þess að aðstandandi hans hér á landi þarfnist umönnunar. Með vísan til fyrri umfjöllunar og með hliðsjón af aðstæðum kærenda í heimaríki, þ.e. meðal annars þess sjónarmiðs að kærendur eru hjón og því líklega til stuðnings hvort öðru, telur kærunefnd ljóst að ekki séu til staðar umönnunarsjónarmið sem gætu leitt til þess að kærendum yrði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga eða að slík niðurstaða sé bersýnilega ósanngjörn.
Samkvæmt framangreindu uppfylla kærendur ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga og er því ekki heimilt að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason