Hoppa yfir valmynd
6. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 39/2014

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 39/2014

 

Ákvarðanataka: Lögmæti. Samþykki allra. Tvískiptir gluggar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 17. júlí 2014, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 5. ágúst 2014, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 13. ágúst 2014, og athugasemdir gagnaðila, dags. 1. september 2014, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 6. október 2014.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 63 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á sjöundu hæð hússins. Ágreiningur er um lögmæti ákvarðana á aðalfundi um framkvæmdir á gluggum.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að ákvarðanir á aðalfundi um framkvæmdir á gluggum séu ólögmætar.

Í álitsbeiðni kemur fram að á aðalfundi gagnaðila hafi verið samþykkt, án þess að fyrir lægi annað en mjög lausleg kostnaðaráætlun og án þess að hafa skriflega atkvæðagreiðslu, með yfirgnæfandi meiri hluta en samt mótatkvæði, að ráðast í endurnýjun glugga á þremur af níu úthliðum hússins. Upphaflegir gluggar séu svokallaðir völundargluggar sem hægt sé að snúa við og jafnvel opna á milli til að þrífa glerið. Þeir séu komnir til ára sinna. Sumarið 1992 hafi gagnaðili staðið fyrir því að þeir sem vildu gátu keypt nýja glugga á sinn kostnað. Nokkuð margir hafi tekið tilboðinu og þessir gluggar hafi staðið sig prýðilega. Síðan hafi gagnaðili ekki skipt sér af endurnýjun glugga en mjög margir íbúar hafi á mismunandi tímum, með mismunandi aðferðum, kostað nýja glugga sjálfir. Því miður hafi gæðaeftirliti með þessum ísetningum víða verið ábótavant og margir af þessum gluggum leki, mest inn í vegg. Mest valdi hér að sumir smiðir hafi ekki tekið upphaflega gluggann allan út heldur hafi verið festur nýr gluggi í gamlan ramma sem hafi haldið áfram að fúna. Þegar hugað hafi verið í þetta sinn að endurnýjun glugga hafi komið í ljós að ekki hafi virst hægt að fá hverfisglugga aftur alls staðar í stað þeirra sem fyrir voru. Í húsinu séu aðallega fjórar tegundir: A 70x70 cm í kompum og baðherbergjum, B 127x118 cm í eldhúsum, C 150x145 cm í herbergjum í tveimur göflum og D 240x140 cm í stofum. A-gluggar séu ekkert vandamál. D-gluggar verði að vera fastir gluggar við endurnýjun í heilu lagi og það sé lítið vandamál því hægt sé að opna úr stofum út á svalir. Styrinn standi um B- og C-glugga. Samþykkt hafi verið á aðalfundi í ár að hafa tvískipta glugga þannig að hægt sé að opna 20‒25 cm breitt stykki hægra megin en hafa hinn hlutann fastan. Við eftirgrennslan hafi álitsbeiðandi komist að því að að minnsta kosti einn traustur aðili selji hverfisglugga af B-stærð sem standist kröfur sem gera verði til glugga í húsum eins og hér um ræði. Enn fremur hafi tiltölulega nýlega verið settir upp gluggar að minnsta kosti af C-stærð í nálægum húsum frá öðrum framleiðanda.

Í greinargerð gagnaðila segir að á bls. 6‒9 í tiltekinni ástandsskýrslu sé fjallað um glugga þar sem segi: „Gluggar hússins eru ýmist upprunalegir veltigluggar, og aðrir timburgluggar málaðir með þekjandi viðarvörn, álgluggar sem settir hafa verið í gamla ísteypta gluggakarma eða plastgluggar af ýmsum toga. Mikið hefur verið endurnýjað af gluggabúnaði í húsinu í gegnum tíðina, án þess að karmar hafi verið endurnýjaðir. Þetta hefur verið gert í áföngum og víðast á vegum einstakra íbúðareigenda. Af þessu leiðir að gluggabúnaður hússins er sundurleitur og aldur þeirra mjög misjafn. Vegna mikilla lekavandamála sem hafa verið í húsinu er búið að reyna að þétta glugga með miklu magni af kítti, áfellum, álklæðningu og fleiru. Árangur þessara viðgerða hefur þó verið heldur misjafn. Þéttingar með kítti hafa ekki tekist vel, en kíttað hefur verið allt og þétt/hátt upp að gluggum að neðanverðu sem leiðir til þess að það loftar ekki undir glugga eins og ætti að gera og „dropun“. Með minni loftun verður meiri hætta á fúaskemmdum en ella væri. Talsvert fannst af fúaskemmdum í timburgluggum. Þær skemmdir eru að mestu leyti bundnar við áveðurshliðar hússins sem snúa í suður og austur eins og algengt er. Fúaskemmdir eru þó ekki alltaf sýnilegar. Almennt er algengt við glugga sem eru 30-50 ára gamlir, að fúaskemmdir séu til staðar innar í gluggakörmum við girði, sem einnig er oft sundurryðgað og ónýtt. Dæmi um þetta hafa fundist við gamla glugga í D. Geta slíkar skemmdir oft orsakað leka á milli steins og gluggakarms. Nokkuð er af ónýtu gleri og allflestir botnlistar glerja eru óloftaðir. Búið er að endurnýja hluta opnanlegra faga, en mikið var hins vegar af upprunalegum fögum sem voru einnig flest mjög léleg. Talsvert var af ónýtum og ryðguðum vinklum og lömum og í sumum tilfellum vantaði vinkla á fög. Á nokkrum stöðum var ástand lamabúnaðar þannig að fög voru við það að detta úr. Einnig bar á ábendingum vegna óþéttra faga bæði á athugasemdalistanum og í samtali við íbúa. Ekki reyndist unnt að skoða eldri karma við ál og plastglugga þar sem að annað hvort náðu nýir gluggar út fyrir karma eða búið var að klæða gamla karma af. Ábendingar bárust hins vegar um að í einhverjum tilvikum hafi ekki verið þétt fullnægjandi að þessum gluggum en nauðsynlegt er að þétting milli nýja gluggans og gamla karmsins sé í góðu lagi eigi hann ekki að leka. Þá þarf ástand eldri karma einnig að vera gott. Almennt má segja að reynslan af ísetningu nýrra ál eða plastglugga í eldri gluggakarma hafi verið slæm á Íslandi. Við slíka framkvæmd er nauðsynlegt að þéttingar á milli eldri karma og steins sé í lagi, en við 50 ára gamla karma, þar sem veðurálag er mikið og fúaskemmdir hafa komið upp, er slíkt því miður sjaldnast raunin. Ennfremur eru tíð lekavandamál vegna þéttinga á milli eldri karms og nýrra gluggahluta. Þá hafa ábyrgðarmál við framkvæmdir sem þessar verið óljósar þegar vandamál koma upp, enda gerir framkvæmdin ráð fyrir að eldri karmar séu í lagi og að slíkt sé forsenda nýju framkvæmdarinnar. Nokkrir þessara glugga (nýrra í eldri körmum) eru með opnanlegu fagi sem opnast inn. Þetta skapar talsverða lekahættu þar sem veðurálag er mikið. Sem dæmi eru opnanleg fög og svalahurðir almennt alltaf látin opnast út við slíkar aðstæður á áveðurshliðum. Mikil lekavandamál eru á áveðurshliðum, en þar af eru 3-4 hliðar af 9 sérstaklega slæmar. Lekavandamál eru að stórum hluta rakin til glugga, en mikið er um að brúnir blettir væru í efri hluta glugga að innanverðu (litur frá einangrun). Einnig kom fram, í samtölum við fjölda íbúa, að mikið vatn berst inn með fögum, körmum og loftum í verstu verðum. Þetta gerist í mörgum tilvikum vegna rýrnunar á eldra tréverki, þar sem rifa myndast milli trés og steins og á vatnið þá greiðari leið inn. Þá lekur í mörgum tilvikum undir glugga og með fögum og slíkt birtist þá gjarnan sem leki á næstu hæðum fyrir neðan (við loft ofl. t.d.). Vatnið leitar í mörgum tilvikum niður á næstu hæðir í gegnum korkeinangrun sem veldur því að rakablettir fá brúnan lit. Gerð var athugun á því hvort hugsanlega væru minni lekavandamál við þá glugga sem hafa verið endurnýjaðir með álglugga í eldri karmi eða ekki. Niðurstaðan var að ekki var talin fylgni á milli þessara atriða – að lekavandamál frá gluggum eru talin tengjast bæði upprunalegum trégluggum, nýrri álgluggum í eldri körmum og öðrum gluggategundum. Almennt er líftími tréglugga talin vera 30-50 ár, en skemmri sé tréverki ekki haldið vel við með reglulegri yfirferð, málningu og viðgerðum. Einnig hefur veðurálag veruleg áhrif á endingu glugga og tréverks. Upprunalegir gluggar hússins eru flestir veltigluggar og einhverjir hafa verið endurnýjaðir. Notkun veltiglugga tíðkaðist talsvert hér áður fyrr en á síðustu áratugum hefur notkun þeirra lagst nánast alveg af. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Erfitt er að nálgast varahluti í veltiglugga núorðið og mikil lekavandamál hafa gjarnan fylgt veltigluggum. Þá eru aðrar tegundir glugga almennt taldar heppilegri vegna öryggismála. Hafa þessir þættir auk annarra valdið því að notkun veltiglugga er sáralítil í dag á Íslandi, hvort heldur sem er við nýbyggingar eða endurnýjun á eldri gluggum.“

Jafnframt kemur fram í skýrslunni að lagt sé til að skipt verði um alla glugga hliða að undanskildum gluggum á svölum. Þá sé lagt til að settir verði nýir ál-/trégluggar í stað þeirra gömlu og reynt verði að samræma útlit glugga hússins eins og kostur er. Einnig að nýir gluggar verði ýmist fastir, með pósti eða fagi eða einu opnanlegu fagi (minnstu gluggarnir). Auk þess sé lagt til að gluggar verði endurnýjaðir í heild sinni með körmum og að notkun veltiglugga verði aflögð. Að auki sé lagt til að stærstu gluggarnir í stofum verði fastir (ekki opnanlegir), þ.e. þegar hægt sé að lofta út um viðkomandi stofurými á annan hátt. Síðan sé lagt til að gluggar sem séu í herbergjum og í eldhúsum verði með opnanlegu, t.d. ca 30‒35 cm breiðu fagi sem opnist út. Loks sé lagt til að minni gluggar (<1,0 m x 1,0 m sem viðmið) verði með opnanlegu fagi sem opnist út.

Framkvæmdir þær sem gagnaðili hyggist fara í séu heildarframkvæmdir vegna viðgerða á ytra byrði hússins, steyptum flötum og gluggum. Framkvæmdir þessar séu nauðsynlegar og löngu tímabærar enda liggi húsið undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi, þ.m.t. viðhaldi glugga og gluggaumbúnaðar. Gluggabúnaður hússins sé sundurleitur, aldur misjafn og ástand að jafnaði mjög slæmt. Í ástandsskýrslunni sé lagt til að skipt verði um alla glugga að undanskildum gluggum inni á svölum. Þetta sé og nauðsynlegt vegna heildarútlits hússins. Gagnaðili telur framkvæmdir þær sem hér um ræði vera nauðsynlegar, meðal annars vegna lekavandamála í húsinu og séu þeir gluggar sem skipta eigi út þáttur í heildarlausn framkvæmdanna og því undir samþykki 2/3 hluta eigenda komið.

Gagnaðili telur að umræddar framkvæmdir feli ekki í sér verulega breytingu á útliti hússins og því nægi samþykki 2/3 hluta eigenda, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Njóti það meðal annars stuðnings í samanburði á núverandi teikningum og teikningum þeim sem gera tillögu að útliti glugga sem og í yfirlýsingu tiltekins einstaklings frá tilteknu fyrirtæki sem komi fram í fundargerð aðalfundar, dags. 25. mars 2014 á bls. 2. Þá hafi komið fram að ekki sé hægt að taka ábyrgð á veltigluggum upp á tólf hæðir.

Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að mótrök gagnaðila snúi í fyrsta lagi að því að tillögur þess á aðalfundi séu heildaraðgerðir í samræmi við tiltekna ástandsskýrslu sem lýsi mjög slæmu ásigkomulagi hússins, í öðru lagi að þær hafi verið samþykktar á aðalfundi með mjög yfirgnæfandi meiri hluta og í þriðja lagi að framkvæmdirnar feli ekki í sér verulega breytingu á útliti hússins. Gagnaðili hafi ekki tjáð sig um skýringu álitsbeiðanda um það að af sérstöðu glugga samkvæmt 5. tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús leiði að húsfélag ráði takmarkað yfir aðgerðum í gluggamálum.

Ástandsskýrslan sé að því leyti undarleg að ástandslýsingu sé áfátt og hún og aðgerðaáætlun hangi ekki saman innbyrðis. Í stuttu máli séu veggir mjög góðir, þak í fínu lagi en það séu vandamál með glugga. Hins vegar greini ástandsskýrslan ekki frá því hversu margir gluggar og hvaða gluggar séu ekki í lagi. Síðan sé sett fram nokkuð hressileg aðgerðaáætlun sem ekki einu sinni stjórn gagnaðila ætli að fara eftir. Tillögur gagnaðila séu engin heildaráætlun heldur bara áætlun um að skipta um glugga á þremur hliðum þess án þess að láta athuga ástand glugganna.

Álitsbeiðandi búi í svokallaðri A-íbúð. Samkvæmt tillögu gagnaðila eigi þar að skipta út tveimur gluggum af C-gerð og einum af D-gerð (sbr. upphaflega beiðni). Allir þrír gluggar hafi verið endurnýjaðir 1992 og séu í mjög góðu ástandi. Sama eigi við um að minnsta kosti fjórar aðrar A-íbúðir. Í þremur A-íbúðum hafi ekkert verið endurnýjað en í fjórum hafi menn fengið misgóða og í tveimur tilvikum mjög slæma endurnýjun. Álitsbeiðandi giskar á að endurnýjun þessara glugga kosti 2‒2,5 milljónir króna á íbúð en þar af komi 50‒60% í hlut eiganda. Álitsbeiðandi spyr hvort það sé líðandi að neyðast til að borga 1,2 milljónir króna úr eigin vasa samkvæmt skipan frá gagnaðila án þess að ástæða sé til.

Álitsbeiðandi telur að fundargerðir aðalfundar þann 25. mars 2014 og 6. maí 2014 séu í alla staði misvísandi, ekki síst vegna þess að fundarstjóri hafi ákveðið að felldra tillagna yrði ekki getið í fundargerð. Atkvæðagreiðslur hafi ekki verið skriflegar og vægast sagt ruglingslegar. Engin leið hafi verið að greiða atkvæði samkvæmt umboði en atkvæði samkvæmt umboði hafi verið talin með í fundarsókn. Álitsbeiðandi viti að hann sjálfur og einn eigandi hafi greitt atkvæði á móti tillögu tvö en álitsbeiðandi hafi auk þess haft umboð frá einum eiganda. Að öðru leyti vísi álitsbeiðandi til bókunar sinnar fremst í fundargerð seinni fundarins. Það sé ekki nokkur leið að greina vilja íbúa út frá þessum fundum enda hafi ekki legið fyrir kostnaðaráætlun vegna aðgerðanna.

Álitsbeiðandi saknar þess að sjá teikningar af austurgafli hússins og suðausturhlið þess með tvískiptum gluggum og án. Þær séu til í fórum gagnaðila og vitni glöggt um að hér sé ekki um óverulega breytingu að ræða. Tvískipting sé satt að segja mikil skemmd á útliti hússins sem sé teiknað af tilteknum einstaklingi og hafi verið á sýningum og þess getið í bókum um byggingarsögu Reykjavíkur. Þegar íbúar tiltekins húss hafi tekið húsið sitt í gegn sem sé mjög líkt í stíl hafi menn haldið útliti glugganna. Þá telur álitsbeiðandi ekki óeðlilegt að E myndi fjalla um það hvort hér sé um að ræða skemmd á hugverki en hugur manna þar virðist ekki mikill.

Að lokum segir álitsbeiðandi að gagnaðili hafi lagt fram yfirlýsingu frá tilteknu fyrirtæki um að það ábyrgist ekki veltiglugga til uppsetningar á allt upp á tólftu hæð. Álitsbeiðandi hafi fengið svipuð skilaboð frá tilteknu fyrirtæki um glugga af C-gerð en ekki B-gerð. Álitsbeiðandi spyr hvernig það sé þá með glugga með toppfestingu. Ef enginn gluggi verður tvískiptur séu engin rök með því að neyða íbúðareigendur til að farga góðum gluggum.

Í athugasemdum gagnaðila segir að samþykktir þær sem gerðar hafi verið á framhaldsaðalfundi þann 6. maí 2014 snúi að því að samþykkt hafi verið að fara í þar tilgreindar framkvæmdir og að keyptir verði tvískiptir gluggar. Stjórn gagnaðila hafi talið að nauðsynlegt að leita til félagsmanna um heimild til að leita eftir tilboðum í umræddar viðgerðir. Í samþykktunum hafi ekki falist heimild til stjórnar til að taka ákvörðun um hvaða tilboði skyldi tekið. Á grundvelli þeirra samþykkta sem gerðar hafi verið á framhaldsaðalfundi muni stjórnin leita tilboða. Þegar tilboð liggi fyrir verði boðað til fundar á ný til að taka ákvörðun um hvaða tilboði verði tekið. Um 5. tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús segir að það leiði af sjálfu sér að óframkvæmanlegt er að skipta um hálfa glugga. Með því að samþykkt sú sem gerð hafi verið feli í sér óverulega útlitsbreytingu, að um heildarframkvæmd sé að ræða og að ómögulegt sé vegna kostnaðar og fyrirhafnar að rannsaka hvern einasta glugga liggi fyrir að skipta þurfi út öllum gluggum enda gluggar víða hriplekir. Framangreindur töluliður snúi því í þessu tilviki frekar að spurningunni um kostnaðarskiptingu milli íbúðareigenda og húsfélagsins, sbr. mál kærunefndar nr. 34/997.

Kostnaðartölur þær sem álitsbeiðandi nefni um gluggaskipti séu úr lausu lofti gripnar og alltof háar. Endanleg tala eigi eftir að koma í ljós er fyrir liggi samþykkt tilboð. Athugasemdir álitsbeiðanda um atkvæðagreiðslur og umboð séu óskiljanlegar og því ekki hægt að svara þeim. Engin tillaga hafi komið fram um skriflega atkvæðagreiðslu en gagnaðili hafi verið með öll gögn tilbúin hefði slík tillaga komið fram.

Um útlitsbreytinguna sé rétt að taka fram að engar breytingar á útliti hússins og engar framkvæmdir verði framkvæmdar án tilskilinna leyfa, hvort sem það sé frá höfundarrétthöfum eða opinberum aðilum. Húsið sæti ekki friðun. Nauðsyn viðgerðanna hafi komið berlega í ljós í því óveðri sem hafi gengið yfir nú um helgina. Samkvæmt upplýsingum eigenda hafi lekið á fyrstu, aðra og þriðju hæð hússins. Ekki sé vitað um fjórðu hæð en það hafi lekið á fimmtu og sjöttu hæð, ekki sé vitað um sjöundu hæð, það hafi lekið á áttundu, níundu, tíundu og elleftu hæð en tólfta hæð hafi sloppið. Þá segir að álitsbeiðandi sé sá eini sem setji sig upp á móti framkvæmdinni.

 

III. Forsendur

Deilt er um hvort ákvarðanataka á framhaldsaðalfundi gagnaðila þann 6. maí 2014 hafi verið lögmæt. Álitsbeiðandi telur ákvarðanir um gluggaframkvæmdir ólögmætar á þeim forsendum að þörf sé fyrir samþykki allra eigenda og einnig með vísan til 5. tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, þar sem ráðstöfunarréttur húsfélagsins yfir gluggum sé takmarkaður.

Í máli þessu er um að ræða framkvæmdir þar sem skipta á út gluggum hússins og setja í þeirra stað tvískipta glugga. Í fyrirliggjandi ástandskýrslu er tvískiptum glugga lýst þannig að innri karmur er hefðbundinn úr tré en utan á er viðhaldsþétt álkápa sem ver tréverk gluggans. Samkvæmt lýsingu í skýrslunni eru gluggar hússins nú ýmist veltigluggar og aðrir timburgluggar, álgluggar eða plastgluggar. Álitsbeiðandi telur að samþykki allra sé þörf fyrir skiptingu glugganna með vísan til 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús. Í ákvæðinu segir meðal annars að sé um endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Í 2. mgr. sömu greinar segir að sé um að ræða framkvæmdir sem hafa breytingar á sameign í för með sér sem geti þó ekki talist verulegar nægi 2/3 hluta eignarhluta, bæði miðað við fjölda og eignarhluta.

Kærunefnd telur að uppsetning nýrra, tvískiptra glugga falli ekki undir verulega breytingu á sameign heldur falli fremur undir 2. mgr. 30. gr. laganna og því þörf fyrir samþykki 2/3 hluta eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta, sbr. og einnig 3. tölul. B-liðar 41. gr. laganna.

Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús telst til sameignar allur ytri gluggaumbúnaður, bæði á séreignarhlutum og sameign. Hins vegar telst sá hluti gluggaumbúnaðar sem er inni í séreign, svo og gler í gluggum og hurðum, vera séreign, sbr. 5. tölul. 5. gr. laganna. Álitsbeiðandi telur ráðstöfunarrétt gagnaðila yfir gluggum takmarkaðan með vísan til síðarnefnda ákvæðisins. Samkvæmt 39. gr. laganna ber að taka sameiginlegar ákvarðanir um sameignina á löglega boðuðum húsfundi. Á framhaldsaðalfundi þann 6. maí 2014 voru lagðar fram tvær tillögur stjórnar um framkvæmdir utanhúss. Fyrri tillagan hljóðaði svo: „Að farið verði í gluggaskipti skv. skýrslu […] og því áfangaskipt og byrjað á austurgafli 7, 8 og 9.“ Öll atkvæði voru samþykk tillögunni að undanskildu einu sem var á móti og álitsbeiðandi greiddi ekki atkvæði. Seinni tillagan hljóðaði svo: „Að keyptir verði tvískiptir gluggar skv. fyrirliggjandi teikningu.“ Sú tillaga var samþykkt með öllum atkvæðum að undanskildu einu. Teknar voru ákvarðanir um sameignarhluta glugganna á fundinum en kærunefnd telur að óhjákvæmilegt geti verið að ákvörðunartaka um framkvæmdir á sameignarhluta glugga geti haft áhrif á séreignarhluta þeirra.

Eins og áður greinir telur kærunefnd að um sé að ræða ákvarðanatöku sem þarf samþykki 2/3 hluta eigenda, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús og 3. tölul. B-liðar 1. mgr. 41. gr. laganna. Samkvæmt fundargerð framhaldsaðalfundar áttu 47 eignarhlutar af 63 fulltrúa á fundinum eða 74,82% eignarhluta, þar af voru 39 íbúðareigendur en átta einstaklingar mættu fyrir hönd íbúðareigenda samkvæmt umboði. Fundargerðin var lesin upp og leiðrétt í lok fundar og samþykkt með áorðnum breytingum. Um kröfur um fundarsókn er kveðið á um í 42. gr. laganna þar sem segir í 2. mgr. að sé um að ræða ákvarðanir sem falla undir B-lið þá verði a.m.k. helmingur eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta að vera á fundi og tilskilinn meirihluti þeirra að greiða atkvæði með tillögu. Kærunefnd telur ljóst af framangreindu að fundarsókn hafi verið nægileg og einnig að fengist hafi nægilegt samþykki fyrir báðum tillögum þar sem 45 greiddu atkvæði með. Að framangreindu virtu telur kærunefnd að ákvarðanataka á framhaldsaðalfundinum þann 6. maí 2014 hafi verið lögmæt.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að ákvarðanataka á framhaldsaðalfundi þann 6. maí 2014 sé lögmæt.

 

Reykjavík, 6. október 2014

Auður Björg Jónsdóttir    

Karl Axelsson

Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta