Hoppa yfir valmynd
23. október 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 1050/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. október 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 1050/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24030152

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 25. mars 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Laos ( hér eftir kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. mars 2024, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í fimm ár.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði ekki gert að sæta brottvísun og endurkomubanni. Til vara krefst kærandi þess að endurkomubann hennar verði stytt í tvö ár.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins hafði lögregla afskipti af kæranda og karlmanni er hún kvað vera kærasta sinn (hér eftir M) á bílastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar 3. mars 2024 þar sem þau hafi verið að ferja farangur hóps farþega í tvær hópferðabifreiðar sem hafi gefið til kynna að þau ynnu við farþegaflutninga. Þegar gengið hafi verið á kæranda og M hafi þau ekki verið samræmd í frásögnum sínum um hvað þau væru að gera þarna og hafi lögreglan því talið ástæðu til frekari rannsóknar. Lagði lögregla til grundvallar að tilgangur kæranda og M með dvöl hér á landi væri farþegaflutningar og atvinna án viðhlítandi atvinnuréttinda og var Útlendingastofnun gert viðvart. Kæranda var birt tilkynning, dags. 5. mars 2024, þar sem fram kom að til skoðunar væri að brottvísa henni og ákvarða endurkomubann á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Í tilkynningu Útlendingastofnunar voru reifuð laga- og reglugerðarákvæði sem gilda um heimild til dvalar og atvinnu og taldi stofnunin að kærandi hefði brotið alvarlega gegn ákvæðum laga um útlendinga með atvinnustarfsemi hér á landi án tilskilinna atvinnu- og dvalarleyfa. Kæranda var veittur þriggja daga frestur til þess að leggja fram andmæli, sbr. 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi lagði fram andmæli og frekari fylgigögn 8. mars 2024. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. mars 2024, var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins í fimm ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 13. mars 2024 og kærð til kærunefndar útlendingamála 25. mars 2024. Með tölvubréfi, dags. 9. apríl 2024, lagði kærandi fram greinargerð vegna málsins.

Kærunefnd kvað upp úrskurð nr. 943/2024, dags. 25. september 2024, í máli kæranda þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest, en endurkomubann kæranda stytt úr fimm árum í þrjú. Hinn 26. september 2024 barst kærunefnd tölvubréf kæranda, þar sem gerðar voru athugasemdir við úrskurð kærunefndar með hliðsjón af leiðréttri ákvörðun Útlendingastofnunar, sem tekin var í kjölfar framlagningar vegabréfs kæranda. Útlendingastofnun hafði ekki upplýst kærunefnd um töku nýrrar stjórnvaldsákvörðunar, þrátt fyrir beiðni kærunefndar um afrit af hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins, sbr. tölvubréf nefndarinnar, dags. 26. mars 2024. Í ljósi framangreinds kvað kærunefnd upp úrskurð nr. 1049/2024, dags. 23. október 2024, og afturkallaði úrskurð sinn nr. 943/2024.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að málsatvik séu í raun afar einföld þar sem deilt sé um það hvort skilyrði b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, séu uppfyllt. Kærandi hafnar niðurstöðu Útlendingastofnunar og kveðst aldrei hafa gerst brotleg við lög á Íslandi né starfað hér á landi. Af ákvörðun Útlendingastofnunar megi vera ljóst að kærandi sé borin sökum um refsiverða háttsemi og vísar hún til meginreglu réttarríkisins um að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hennar hafi verið sönnuð, sbr. m.a. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Stjórnvöldum á sviði útlendingamála beri að virða valdmörk sín en þeim sé ekki falið hlutverk við rannsókn sakamála á Íslandi. Kærandi vísar til þess að í tilviki hennar geti hún aðeins talist brotleg gegn lögum um útlendinga þegar brot gegn öðrum lögum teljist sönnuð.

Kærandi vísar til þess að í máli hennar liggi ekki fyrir játning, og vísast m.a. til andmæla kæranda sem lögð hafi verið fram hjá Útlendingastofnun. Ekki sé fullt samræmi á milli skýrslna lögregluþjóna sem hafi rætt við kæranda og M og ekki liggi fyrir nein sönnunargögn um sekt hennar. Eðli málsins samkvæmt liggi heldur ekki fyrir refsidómur í máli kæranda. Hún telji hvorki ótrúverðugt né óalgengt að vinir hafi ákveðið að ferðast saman og sumir tekið að sér hlutverk skipulagningar og lagt út kostnað vegna þess. Þá átelur kærandi það sérstaklega að Útlendingastofnun leggi sjálfstætt mat á sekt hennar, og telur stofnunina komna út fyrir verksvið sitt og velsæmismörk. Gögn sem lögð hafi verið fram hjá Útlendingastofnun hafi eingöngu verið ætlað að leggja áherslu á að ágreiningur ríkti um staðreyndir og samskipti lögregluþjóna við kæranda og M. Vilji stjórnvöld á sviði útlendingamála frekari rannsókn á meintum brotum kæranda beri þeim að fela lögreglu þá rannsókn, sem þar til bæru stjórnvaldi.

Kærandi byggir á því að túlka beri ákvæði b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga þröngt í málum sem varða tilvik þar sem útlendingur hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laga um útlendinga, á þann hátt að sekt hafi sannast samkvæmt meginreglum réttarríkisins eða eftir atvikum að fyrir liggi fullnægjandi og afdráttarlaus játning. Slík játning liggi ekki fyrir í máli kæranda og telst brot hennar ósannað.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna, hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum eða kemur sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga kemur m.a. fram að í b-lið felist heimild til að vísa útlendingi brott ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna. Hér undir myndu sem fyrr geta fallið fleiri en eitt brot gegn lögunum sem hvert fyrir sig teldist ekki alvarlegt.

Samkvæmt gögnum málsins hafði lögregla afskipti af kæranda og M á bílastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fram kemur í skýrslu lögreglu að kærandi og M hafi verið að hlaða farangri í tvær bifreiðar sem reyndust bílaleigubifreiðar. Vegna sætaskipunar hafi lögreglu grunað að kærandi og M væru að sinna farþegaflutningum í atvinnuskyni en bifreiðarnar hafi ekki borið þess merki að fyrir lægi rekstrarleyfi til farþegaflutninga. Aðspurð hafi kærandi og M í fyrstu vísað til þess að farþegarnir væru fjölskyldumeðlimir og hafnað því að um ferðaþjónustustarfsemi væri að ræða. Lögregla hafi þá rætt við einn farþega bifreiðanna sem hafi kveðið M vera vin sinn frá fyrra ferðalagi. Aðspurður hafi farþeginn sýnt lögreglu gögn sem hafi innihaldið upplýsingar um fyrirhugaða dvöl, gististaði, reikninga, verðlista o.s.frv. Kvaðst farþeginn hafa pantað pakkaferðina frá Taílandi. Þá kemur fram í skýrslunni að farþegarnir hafi ekki vitað nöfn ökumannanna. Lögregla hafi gert M grein fyrir misræmi í frásögn farþeganna og málsaðila, og hafi M þá játað að skipuleggja ferðir víðsvegar um Evrópu, þ. á m. á Íslandi, og ekki talið það sérstakt vandamál þar sem fjármagn kæmi inn í hagkerfið í gegnum ferðaþjónustu og hótelgistingu. Í framhaldi hafi lögregla tekið kæranda og M til frekari viðræðna á varðstofu lögreglu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kærandi kvað sig og M ekki hafa fengið neinar greiðslur frá hópnum en að hópurinn hafi lagt fjármuni inn á sameiginlegan reikning og ef það væru umfram fjármunir á reikningnum þá myndu þeir renna til kæranda og M. Kærandi vísaði til misskilnings á lögum og kvaðst ekki vita að þessi atvinnustarfsemi væri ólögmæt á Íslandi. Hún og M hafi sinnt sams konar starfsemi í mörgum löndum en aldrei lent í vandræðum.

Meðal gagna sem fylgdu skýrslum lögreglu eru ljósmyndir sem teknar voru á vettvangi þegar afskipti voru höfð af kæranda og M. Innihalda ljósmyndirnar m.a. þýðingar af rafrænum samskiptum farþega við kæranda og M ásamt ferðaáætlun, sundurliðaða eftir dögum.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi starfað ólöglega hér á landi án tilskilinna atvinnu- og dvalarleyfa, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að heimilt væri að brottvísa kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga þar sem hún hefði brotið alvarlega gegn ákvæðum laga um útlendinga.

Meðal fylgigagna málsins er afrit af tveimur vegabréfum kæranda. Hið fyrra er nr. [...], útgefið [...] 2017 með gildistíma til [...] 2027. Í vegabréfinu má finna fjórar vegabréfsáritanir á Schengen-svæðið en sú nýjasta var útgefin af frönskum stjórnvöldum 17. febrúar 2020 og heimilaði kæranda allt að 90 daga dvöl á tímabilinu 27. febrúar 2020 til 26. febrúar 2025. Framangreind dvalarheimildi grundvallast á reglugerð Evrópusambandsins og ráðsins (EB) nr. 810/2009 um Bandalagsreglur um vegabréfsáritanir, sbr. til hliðsjónar reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 og 20. gr. laga um útlendinga. Hið síðara vegabréf nr. [...], er útgefið [...] 2022 með gildistíma til [...] 2032 en í vegabréfinu er ekki að finna áritun inn á Schengen-svæðið. Samkvæmt stimplum í vegabréfum kæranda, með hliðsjón af útgefnum vegabréfsáritunum verður lagt til grundvallar að kærandi hafi haft heimild til dvalar þegar lögregla hafði afskipti af henni í umrætt sinn, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga.

Heimild kæranda til dvalar grundvallaðist á vegabréfsáritun fyrir ferðamenn en ekki er um að ræða heimild til langtímadvalar hér á landi, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga um útlendinga. Slík vegabréfsáritun veitir ekki heimild til atvinnuþátttöku hér á landi. Samkvæmt meginreglum laga um atvinnuréttindi útlendinga ber erlendum ríkisborgurum almennt að hafa atvinnuleyfi til starfa hér á landi en frá því eru undanþágur sem mælt er fyrir um í III. kafla laganna. Undanþágur vegna tímabundinna starfa í allt að 90 daga á ári eru lögfestar í 23. gr. laganna. Fram kemur í 1. mgr. 23. gr. til hvaða starfa slíkar undanþáguheimildir geti átt við en í 2. mgr. koma fram formskilyrði varðandi tilkynningu og upplýsingamiðlun til Vinnumálastofnunar, sem fer með framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Á vefsvæði sínu hefur Vinnumálastofnun birt frekari upplýsingar vegna leiðsögumanna og hópstjóra. Á vefsvæðinu er jafnframt hlekkur þar sem aðilar geta lagt fram tilkynningu til Vinnumálastofnunar í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar þurfa leiðsögumenn með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins að sækja um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi vegna starfa sinna á Íslandi, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 23. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Af því leiðir að leggja verður til grundvallar að nauðsynlegt sé fyrir útlendinga sem koma hingað til lands til að starfa sem leiðsögumenn að sækja um tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga  og lögum um útlendinga.

Kærandi vísar til þess að stjórnvöld á sviði útlendingamála njóti ekki valdbærni til þess að meta hvort kærandi hafi gerst brotleg gegn lögum um útlendinga.

Hin kærða ákvörðun var reist á b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og mælir fyrir um heimild til að brottvísa útlendingi sem hefur brotið gegn ákvæðum laganna eins og mælt er nánar fyrir um í ákvæðinu. Fól ákvörðunin þannig ekki í sér að kæranda væri gerð refsing. Að teknu tilliti til 2. mgr. 4. gr. laga um útlendinga eru Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála meðal stjórnvalda sem annast framkvæmd laganna og eru valdbær til töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli laganna.

Kærandi ber fyrir sig að meint brot hennar gegn lögum um útlendinga hafi ekki verið sönnuð, auk þess sem ekki væri ótrúverðugt eða óalgengt að vinir ferðist saman og skipti með sér verkum þannig að sumir taka að sér að skipuleggja og leggja út fyrir kostnaði vegna ferðarinnar. Kærunefnd hefur yfirfarið gögn málsins, þ.m.t. lögregluskýrslur og ljósmyndir sem lögregla tók á vettvangi. Framangreindu til viðbótar lagði kærandi fram fylgigögn hjá Útlendingastofnun, sem sýna fram á bókun tiltekinna gististaða. Þar að auki lagði kærandi fram bréf, dags. 6. mars 2024, sem ber þess merki að vera frá einum farþega áðurnefndra bifreiða. Þar vísar bréfritari til þess að hann eigi í vinasambandi við kæranda og M og kveðst ekki hafa greitt þeim laun eða önnur gjöld fyrir aðstoð þeirra við skipulagningu ferðarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins er tölvuvert misræmi á milli þess sem kærandi og M hafa borið fyrir sig við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála samanborið við upplýsingar í lögregluskýrslum sem fyrir liggja vegna málsins.

Kærandi og M báru fyrir sig í fyrstu að vera að sækja fjölskyldumeðlimi en þeim framburði breyttu þau síðar og kváðust vera að sækja vin sinn og fjölskyldumeðlimi hans. Samkvæmt skýrslunum hafi kærandi og M getað nafngreint einn farþeganna en farþegarnir á hinn bóginn ekki vitað hvað þau hétu. Þá bera kærandi og M fyrir sig að hafa greitt umtalsverðan kostnað fyrir komu farþeganna til landsins og kveða greiðslur farþeganna til þeirra vera endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Á hinn bóginn benda ljósmyndir sem lögregla tók á vettvangi og þýddi með aðstoð þýðingarforrits til þess að samskipti á milli kæranda eða M og eins farþeganna hafi m.a. varðað verðlista fyrir þjónustu, greiðslu þjónustugjalda til handa kæranda og M, og útgáfu reikninga. Þá hafi M greint frá því að hann skipulegði ferðir víðsvegar um Evrópu, þ.m.t. á Íslandi, og hafi áður komið til Íslands í sama tilgangi. Hann hafi hins vegar ekki talið það sérstakt vandamál þar sem þetta fæli í sér innstreymi fjármagns í gegnum ferðaþjónustu. Þar að auki hafi kærandi vísað til þess að hafa sinnt sams konar starfsemi í mörgum löndum áður og bar fyrir sig misskilning og kvaðst ekki vita að hún mætti ekki vinna á Íslandi.

Að öllu framangreindu virtu er hafið yfir vafa að tilgangur með dvöl kæranda hér á landi hafi verið að stunda atvinnustarfsemi, þ.e. skipulagning ferðar fyrir ferðamenn, þ.m.t. að annast samgöngur fyrir fólk hér á landi og milliganga um gistibókanir. Samkvæmt því sem þegar hefur komið fram hafði kærandi heimild til dvalar hér á landi, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hún hafði ekki heimild til þess að stunda atvinnu, sbr. 2. mgr. 50. gr. Atvinnustarfsemi án viðhlítandi heimildar hefur neikvæð áhrif á aðilann sjálfan, þjónustukaupa, og íslenskt samfélag í heild. Slík háttsemi er til þess fallin að grafa undan íslenskum vinnumarkaði með hliðsjón af réttindum og réttaröryggi launþega. Enn fremur eru þjónustukaupendur í ótryggri stöðu auk þess sem tekju- og virðisaukaskattur af seldri vinnu rennur ekki til ríkissjóðs. Að teknu tilliti til framangreinds telur kærunefnd brot kæranda gegn lögum um útlendinga alvarleg og eru skilyrði til brottvísunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Ekkert í gögnum málsins eða málatilbúnaði kæranda bendir til þess að 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir brottvísun kæranda.

Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Í ákvæðinu kemur fram að endurkomubann skuli að jafnaði ekki vara lengur en fimm ár og eigi skemur en tvö ár. Þó geti endurkomubann varað lengur en fimm ár þegar útlendingur telst ógn við öryggi ríkisins, almannaöryggi eða allsherjarreglu. Við ákvörðun um lengd endurkomubanns skuli litið til einstaklingsbundinna aðstæðna hverju sinni. Í hinni kærðu ákvörðun var kæranda gert að sæta endurkomubanni til fimm ára. Að teknu tilliti til atvika málsins telur kærunefnd hæfilegt að kærandi sæti endurkomubanni til tveggja ára.

Samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga skal að jafnaði veita útlendingi frest í 7-30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Samkvæmt e-lið ákvæðisins er m.a. heimilt að veita styttri frest eða fella hann niður í tilvikum þegar útlendingi er vísað úr landi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Að teknu tilliti til málsatvika telur nefndin rétt að fella frest kæranda til sjálfviljugrar heimfarar niður með vísan til e-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að endurkomubanni er m.a. bæði ætlað að hafa almenn og sérstök varnaðaráhrif gagnvart brotum á ákvæðum laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga hefst endurkomubann til landsins þann dag sem útlendingur er færður úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt, samkvæmt umsókn þar um, að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því ákvörðun um brottvísun var tekin. 

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun hvað varðar brottvísun kærenda frá landinu á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og niðurfellingu frests til þess að yfirgefa landið sjálfviljug staðfest. Endurkomubann kæranda skal vera tvö ár.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar brottvísun kæranda. Endurkomubann kæranda er ákveðið tvö ár.

 

The decision of the Directorate of Immigration regarding the appellant‘s expulsion is affirmed. The appellant‘s entry ban shall be two years.

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta