Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Ræddu tvíhliða samskipti, norræna samvinnu, Brexit og öryggismál

Forseti Íslands, utanríkisráðherra og forseti sænska þingsins.  - mynd
Tvíhliða samskipti Íslands og Svíþjóðar, norræn samvinna, Brexit og öryggismál voru meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, en Guðlaugur Þór er í föruneyti Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, sem staddur er í opinberri heimsókn í Svíþjóð. Málefni norðurslóða og loftslagsmál bar einnig á góma, sem og friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs, en Svíþjóð situr í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna nú um stundir.

„Samskipti Íslands og Svíþjóðar eru náin og fara vaxandi, meðal annars á sviðum viðskipta og ferðamennsku, auk þess sem fjölmargir Íslendingar leggja stund á nám og búa í Svíþjóð. Ríkin vinna þétt saman í norrænu samstarfi og það er tilhlökkunarefni að taka við formennsku í Norðurlandasamstarfi af Svíum um næstu áramót. Þá er Svíþjóð, auk Finnlands, sérstaklega mikilvægt samstarfsríki Atlantshafsbandalagsins og varnarsamvinna ríkjanna hefur aukist hröðum skrefum. Það er því sérlega ánægjulegt að opinber heimsókn forseta Íslands til Svíþjóðar eigi sér stað á þessum tímapunkti, og við látum úrslit gærkvöldsins í handboltanum ekki skyggja þar á," segir Guðlaugur Þór.

Þá fylgdi utanríkisráðherra forseta Íslands á fundi forseta sænska þingsins og forsætisráðherra Svíþjóðar, og situr í kvöld hátíðarkvöldverð konungshjónanna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta