Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisskattstjóri verðlaunaður fyrir frumkvöðlastarf í nýtingu upplýsingatækni

Ríkisskattstjóri hlaut á dögunum upplýsingatækniverðlaun SKÝ árið 2016 fyrir áralangt frumkvöðlastarf í nýtingu upplýsingatækni, en verðlaunin voru veitt í lokahófi UT-messunnar.

Í rökstuðningi valnefndar UT-verðlaunanna segir að embætti ríkisskattstjóra hafi verið leiðandi í rafrænni stjórnsýslu og nýtt upplýsingatækni á snjallan hátt viðskiptavinum sínum til góða.

RSK hefur um árabil unnið að því að hagnýta upplýsingatækni í þágu almennings og stofnana. Árið 1999 opnaði RSK fyrir skattskil á netinu en smám saman urðu upplýsingar á framtölum meiri og frá og með 2010 hafa framtölin verið fullbúin á vefnum hjá upp undir helmingi framteljenda. Í dag skila nánast allir skattframtölum sínum rafrænt en metárið 2015 voru rafræn skil 99,74%.

Upplýsingatækni gegnir mikilvægu hlutverki í framtíðaráhersluverkefnum í stjórnsýslunni og hagnýting hennar stuðlar að bættri þjónustu við notendur og aukinni skilvirkni innan kerfisins. Dæmi um verkefni sem unnið er að á vegum RSK um þessar mundir eru innleiðing rafrænna skattkorta, sem leysa pappírskort af hólmi, rafræn skil á skatttekjum og innleiðing rafrænnar fyrirtækjaskrár. Öruggar rafrænar auðkenningar eru lykillinn að því að hægt sé að nýta nýjar, rafrænar lausnir og hefur RSK gegnt leiðtogahlutverki á því sviði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta