Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2019 Forsætisráðuneytið

772/2019. Úrskurður frá 31. janúar 2019

Úrskurður

Hinn 31. janúar 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 772/2019 í máli ÚNU 18040011.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 17. apríl 2018, kærði A synjun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, HSU, á beiðni um aðgang að tveimur tilkynningum um meint ástand kæranda í útkalli.

Aðfaranótt 30. maí 2015 var kærandi, læknir sem var á bakvakt […], kallaður út. Á vettvangi voru nokkrir aðilar, þar á meðal sjúkraflutningamenn og lögregla. Fáeinum dögum síðar barst HSU tilkynning frá einum þeirra um að kærandi hefði verið í annarlegu ástandi í útkallinu. Í framhaldi af því kannaði HSU málið nánar og fékk þá svipaðar upplýsingar frá öðrum aðila sem jafnframt hafði verið viðstaddur um nóttina, þ.e. að kærandi hefði ekki virst allsgáður.

Forstjóri HSU ráðfærði sig við embætti landlæknis og í kjölfarið var ákveðið að vísa máli kæranda til formlegrar meðferðar embættisins, sbr. 10. og 13. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Var það gert með bréfi, dags. 4. júní 2015. Kærandi var upplýstur um þetta með bréfi dagsettu þann sama dag og honum tjáð að tilefni framangreindra tilkynninga varðaði við 15. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012.

Með tölvupósti til HSU, dags. 12. júní 2015, gerði lögfræðingur Læknafélags Íslands, f.h. kæranda, athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar í málinu. Kærandi kannaðist ekki við að hafa verið í annarlegu ástandi í útkallinu. Það sætti furðu að málið væri komið í þennan farveg án þess að kærandi væri upplýstur um málið og honum gefið tækifæri til að tjá sig um þær tilkynningar sem HSU höfðu borist áður en málið var sent landlækni.

Með bréfi, dags. 15. júní 2015, upplýsti landlæknir kæranda að embættið myndi fylgja málinu eftir á grundvelli lögbundinnar eftirlitsskyldu sinnar skv. III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu. Óskað var umsagnar kæranda vegna málsins. Sama dag barst kæranda bréf frá HSU þar sem vinnuframlag hans var afþakkað frá og með 16. júní 2015. Yrði hann settur í launað leyfi um óákveðinn tíma. Eftir fund með landlækni 18. júní 2015, þar sem kærandi lagði fram greinargerð sína, var honum tilkynnt samdægurs að landlæknir teldi ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins. Í kjölfar formlegs erindis landlæknis til kæranda þess efnis, dags. 22. júní 2015, tilkynnti HSU honum að leyfi hans væri lokið og bað hann að snúa aftur til starfa.

Í kjölfarið tóku við samskipti milli Læknafélags Íslands, f.h. kæranda, og HSU, þar sem málsmeðferð HSU í málinu var áfram gagnrýnd. Að auki var þess óskað að HSU upplýsti um nöfn þeirra sem tilkynnt höfðu um meint ástand kæranda. Það fór að lokum svo að kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis í nóvember 2015 vegna vinnubragða HSU í tengslum við tilkynningu forstjóra stofnunarinnar til landlæknis og ákvörðunar um að senda hann í launað leyfi frá störfum á meðan mál hans væri til athugunar hjá landlækni. Jafnframt sneri kvörtun hans að því að honum hefði verið synjað um aðgang að gögnum þar sem fram kæmi hverjir létu í té upplýsingar sem leiddu til tilkynningar HSU til landlæknis.

Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8715/2015, dags. 26. júní 2017, var komist að þeirri niðurstöðu að HSU hefði borið, á grundvelli óskráðra grundvallarreglna um rannsókn máls, að upplýsa málið betur með því að gefa kæranda kost á að tjá sig um þær upplýsingar sem bárust um meint ástand hans í útkallinu í maí 2015 og önnur atriði sem fjallað var um í málinu áður en tilkynning var send landlækni.

Varðandi aðgang kæranda að tilkynningum aðila sem tilkynntu um meint ástand hans hafði HSU litið svo á að ákvörðun um að tilkynna mál kæranda til landlæknis teldist ekki vera stjórnvaldsákvörðun. Aftur á móti teldi stofnunin að um aðgang kæranda að gögnum málsins færi eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993, einkum 15.-17. gr. þeirra. Samkvæmt 17. gr. bæri að takmarka aðgang kæranda að gögnum málsins því hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim ættu að víkja fyrir mun ríkari almanna- og einkahagsmunum. Um takmörkun á rétti til aðgangs að gögnum samkvæmt stjórnsýslulögum og upplýsingalögum giltu sömu sjónarmið. Umboðsmaður tók fram að ákvörðun HSU hefði ekki verið tekin á réttum lagagrundvelli, heldur giltu upplýsingalög nr. 140/2012 um aðgang kæranda að umbeðnum gögnum.

Þar sem kæruleiðir hefðu ekki verið tæmdar um gagnabeiðnina gæti umboðsmaður ekki tjáð sig um hana. Kærandi þyrfti að leggja aftur inn beiðni um gögnin á grundvelli upplýsingalaga, kæra synjun ef við ætti og bera svo málið aftur undir umboðsmann ef niðurstaða æðra stjórnvalds yrði honum í óhag. Þá fyrst gæti umboðsmaður tjáð sig efnislega um rétt kæranda til gagnanna.

Kærandi sendi HSU í kjölfarið beiðni, dags. 23. nóvember 2017, á grundvelli upplýsingalaga um aðgang að tilkynningum þeirra aðila sem veitt höfðu upplýsingar um meint ástand kæranda, þ.m.t. að nöfnum þeirra. Kom þar einnig fram að kærandi teldi stofnunina með framgöngu sinni í málinu mögulega hafa valdið sér bótaskyldum álitshnekki og að hann áskildi sér rétt til að krefja HSU um greiðslu miskabóta vegna þess. Beiðninni var synjað með bréfi lögmanns HSU, dags. 21. mars 2018.

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærandi byggi kröfu sína um aðgang að tilkynningunum á III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012, enda lúti hinar umbeðnu upplýsingar að honum sjálfum, þ.e. meintu ástandi hans í útkalli. Kærandi telur engan fót fyrir tilkynningunum og bendir á að samstarfsmennirnir virðist hafa verið á staðnum án þess að gera nokkuð, líkt og þeim hefði borið ef ástand hans hefði verið með þeim hætti sem fram kom í tilkynningunum. Lögreglan var á staðnum og ók á eftir kæranda frá heimili sjúklings að starfsstöð HSU. Kærandi telur útilokað að lögreglan hefði gefið honum leyfi til að setjast undir stýri hefði ástand hans virst óeðlilegt.

Kærandi telur sig eiga verulega hagsmuni af því að fá að vita hverjir það voru sem tilkynntu um meint ástand hans. Hann telur að viðkomandi aðilar hefðu betur rætt grunsemdir sínar strax, því það hefði gert honum kleift að sanna að ekkert væri að ástandi hans. Mögulega hafi falist í tilkynningunum atlaga að mannorði kæranda og geti þær hugsanlega veitt kæranda rétt til að kæra þá sem tilkynntu hann fyrir rangar sakargiftir.

Hvergi í lögum sé þeim sem tilkynna um ástand heilbrigðisstarfsmanns tryggð nafnleynd, enda sé eðlilegt að þeir sem beri fram svo alvarlegar ásakanir þurfi að svara fyrir þær. Í kærunni segir að lokum að kærandi mótmæli því að hagsmunir þeirra sem tilkynntu sig vegi þyngra en hagsmunir hans sjálfs, þar sem ekki verði betur séð en að niðurstaða umboðsmanns Alþingis sé sú að kærandi eigi ótvíræðan rétt til aðgangs að upplýsingum um tilkynningarnar og nöfn þeirra sem stóðu að þeim.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 24. apríl 2018, var kæran kynnt HSU og frestur veittur til 8. maí 2018 til að senda umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að. Að beiðni HSU var frestur framlengdur til og með 31. maí 2018.

Í umsögn HSU, dags. 1. júní 2018, er í upphafi gerð grein fyrir helstu málavöxtum. Síðan er rakið að kærandi hafi krafist afhendingar umbeðinna gagna með vísan til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Honum hafi verið synjað um afhendingu með vísan til 3. mgr. 14. gr. sömu laga, þar sem stofnunin telji að hagsmunir sem mæli með því að gögnunum sé haldið leyndum vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá þau afhent.

HSU telur að málið varði aðeins kröfu kæranda um að fá vitneskju um nöfn þeirra aðila sem tilkynntu kæranda til yfirstjórnar stofnunarinnar, þar sem hann hafi þegar verið upplýstur um efni tilkynninganna að öðru leyti. Stofnunin mótmælir þeirri túlkun kæranda á áliti umboðsmanns Alþingis að kærandi eigi ótvíræðan rétt til aðgangs að umbeðnum upplýsingum, og tekur fram að umboðsmaður hafi ekki fjallað efnislega um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum. Umbeðin gögn geymi upplýsingar um kæranda en einnig um einkamálefni þeirra sem tilkynntu um meint ástand hans, og að réttur kæranda til aðgangs ylti því á mati á gagnstæðum hagsmunum.

Það er mat HSU að kærandi álíti hagsmuni sína annars vegar vera fjárhagslega, þar sem hann áskildi sér í gagnabeiðni til HSU að krefjast skaða- og miskabóta. Hins vegar álíti kærandi að upplýsingar þeirra sem tilkynntu um meint ástand hans hafi mögulega falið í sér aðför að mannorði hans og aðgangur að nöfnum þeirra geti gert honum kleift að leggja fram kæru á hendur þeim vegna rangra sakargifta.

Stofnunin telur langsótt að þeir sem tilkynntu um meint ástand kæranda hafi brotið á honum með þeim hætti að hann geti átt rétt á greiðslu skaða- eða miskabóta úr þeirra hendi. Skilyrði almennu reglunnar um skaðabótaábyrgð séu ekki uppfyllt; háttsemi viðkomandi aðila hafi ekki verið saknæm heldur hafi þeir þvert á móti brugðist rétt við. Þeir hafi haft grunsemdir um að kærandi væri undir áhrifum vímugjafa og miðluðu þeim í trúnaði til þar til bærra aðila. Óumdeilt sé að það brot sem kærandi var grunaður um sé alvarlegt, sbr. 15. gr. laga um heilbrigðisstarfsfólk nr. 34/2012, en þar kemur fram að heilbrigðisstarfsmanni sé óheimilt að starfa undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Ef kærandi telji sig eiga rétt til skaða- eða miskabóta í kjölfar atburða í framhaldi af þeim tilkynningum sem um ræði í málinu eigi kröfur kæranda frekar að beinast að HSU.

Varðandi þá málsástæðu kæranda að honum sé nauðsynlegt að fá aðgang að nöfnum þeirra sem tilkynntu um meint ástand hans til að geta kært þá fyrir rangar sakargiftir telur stofnunin hana langsótta þar sem fyrirliggjandi upplýsingar og gögn í málinu sýni augljóslega að þeir hafi ekki haft ásetning til rangrar skýrslugjafar. Upplýsingagjöfin hafi þvert á móti verið varfærnisleg og gefin í trúnaði til réttra aðila. Í umsögninni er því velt upp hvort raunverulegir hagsmunir kæranda af því að fá upplýsingarnar kunni að vera að svala forvitni sinni og eiga möguleika á að leita hefnda gagnvart viðkomandi aðilum með einhverjum hætti síðar meir.

Stofnunin gerir einnig athugasemd við þau rök kæranda að rétt viðbrögð þeirra sem tilkynntu um meint ástand hans hefðu verið að gera athugasemdir við kæranda sjálfan á vettvangi. Réttmætar ástæður geti verið fyrir því að láta slíkt eiga sig og gera þess í stað athugasemdir við yfirmenn viðkomandi læknis í trúnaði, t.d. ef viðkomandi læknir sé í stöðu til að hafa áhrif á starfsaðstæður og -frama viðkomandi aðila. Jafnframt gæti það gert starfssamband milli aðila erfitt til framtíðar, auk þess sem að í litlu samfélagi geti slíkar athugasemdir haft neikvæð áhrif á samskipti utan vinnustaðar.

HSU telur að bæði almannahagsmunir og einkahagsmunir þeirra sem tilkynntu um meint ástand kæranda mæli gegn afhendingu umbeðinna gagna. Almannahagsmunirnir séu fólgnir í því að upplýsingar um yfirvofandi hættu þurfi að geta borist til aðila sem séu til þess bærir að meta hvort um raunverulega hættu sé að ræða og bregðast við með réttum hætti. Almannahættan felist í mögulegum afleiðingum þess að heilbrigðisstarfsmaður sé undir áhrifum áfengis eða vímuefna við störf sín. Að mati stofnunarinnar sé nauðsynlegt að aðilar sem hafi grunsemdir um slíka háttsemi heilbrigðisstarfsfólks geti upplýst rétta aðila um þær án þess að eiga á hættu að viðkomandi starfsmaður verði upplýstur um nöfn þeirra. Ef ekki sé hægt að tryggja nafnleynd sé hætt við að fólk veigri sér við því að veita upplýsingar sem kunni að vera nauðsynlegar til að afstýra hættu. Að auki hafi forsvarsmenn HSU upplýst þá sem tilkynntu um meint ástand kæranda að fullum trúnaði yrði haldið um nöfn þeirra. Því til stuðnings er í umsögninni vísað til úrskurðar Persónuverndar í máli nr. 2014/1740 þar sem strætisvagnabílstjóri var ekki talinn eiga rétt á að fá upplýsingar um nöfn farþega sem hafði tilkynnt um háttsemi bílstjórans.

Hvað varðar hagsmuni þeirra sem tilkynntu um meint ástand kæranda segir í umsögninni að þeir hafi upplýst þar til bæra aðila um grunsemdir sínar í góðri trú, í þeim tilgangi að afstýra mögulegri almannahættu, og að þeim hafi verið heitið trúnaði. Verði kærandi upplýstur um nöfn þeirra kunni það að hafa neikvæð áhrif á stöðu þeirra í samfélaginu og samskipti við aðra.

Með bréfi, dags. 21. júní 2018, var kæranda kynnt umsögn HSU og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kæru sinnar. Í athugasemdum kæranda, dags. 11. júlí 2018, er því mótmælt að hagsmunir þeirra sem tilkynntu um meint ástand hans af því að njóta nafnleyndar vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá að vita hverjir þeir séu. Mikilvægt sé að sá sem telji heilbrigðisstarfsmann ófæran til starfa tilkynni það tafarlaust til að hægt sé að grípa inn í meðferð sjúklings og þannig forða því að hann verði fyrir skaða, og til að mögulegt sé að ganga úr skugga um það sem fyrst hvort heilbrigðisstarfsmaður sé ófær til starfa, t.d. með því að taka úr honum blóðprufu. Það skipti máli fyrir heilbrigðisstarfsmann sem kvartað er undan að geta hreinsað sig af kvörtun reynist hún röng. Kærandi tekur fram að hefðu þeir sem tilkynntu um meint ástand hans ekki treyst sér til að ræða grunsemdir sínar beint við kæranda hefðu þeir getað snúið sér til lögreglu, sem var á staðnum í útkallinu.

Kærandi telur það ekki hlutverk HSU að meta það hvort þeir sem tilkynntu um meint ástand hans kunni með háttsemi sinni að hafa brotið á kæranda þannig að hann eigi rétt til skaða- eða miskabóta, heldur sé það hlutverk dómstóla að komast að niðurstöðu um slíkt álitamál. Eins og málið horfi við kæranda hafi viðkomandi aðilar staðið að tilkynningum sínum með óboðlegum hætti, þ.e. með því að kvarta eftir á og gera kæranda þannig ókleift að sýna fram á að ekkert væri athugavert við ástand sitt. Kæranda hafi ekki verið sýnd nein tillitssemi af hálfu HSU heldur hafi hann fyrirvaralaust verið settur í leyfi. Það sé vandséð af hverju þeir sem tilkynntu um meint ástand kæranda eigi að njóta meiri tillitssemi en hann sjálfur fékk að njóta af hálfu HSU.

Kærandi bendir á að ef þeir sem tilkynntu um meint ástand kæranda hefðu kosið að tilkynna málið til embættis landlæknis hefði kærandi í andmælaferlinu fengið að vita hverjir þeir væru. Það sé algild vinnuregla þegar kvartað sé yfir vinnubrögðum heilbrigðisstarfsmanna. Kærandi sjái því ekki af hverju þessir tilteknu aðilar eigi að njóta sérstakrar nafnleyndar þegar almenna reglan í heilbrigðisþjónustu sé sú að sá sem kvartað sé yfir fái að vita hver standi að baki kvörtuninni. Kærandi vísar því á bug að almannahagsmunir eigi að koma í veg fyrir að hann fái nöfn þessara aðila upplýst. Forsvarsmenn HSU þurfi að bera ábyrgð á því að hafa lofað þeim nafnleynd.

Úrskurð Persónuverndar sem HSU vísar til í umsögn sinni telur kærandi ekki vera fordæmisgefandi í þessu máli, þar sem tilkynningin sem þar var til umfjöllunar hafi verið annars eðlis en þær sem deilt er um í þessu máli. Kærandi telur sig hafa ríka hagsmuni af því að vita hverjir tilkynntu um meint ástand sitt, vegna mögulegrar ábyrgðar þeirra á röngum sakargiftum. Hann telur fráleita þá fullyrðingu HSU að með tilkynningunum hafi tilgangurinn verið sá að afstýra almannahættu, þar sem í þessu máli hafi engin almannahætta verið til staðar. Að lokum tekur kærandi fram að hann telji að álit umboðsmanns Alþingis megi skilja á þann veg að hann eigi lögvarinn rétt á að fá að vita hverjir báru hann sökum.

Með bréfum, dags. 2. janúar 2019, var óskað eftir afstöðu þeirra sem tilkynntu um ástand kæranda í útkallinu til afhendingar tilkynninganna. Í svörum beggja aðila er lagst gegn því að þær verði afhentar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að HSU hefði á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, verið rétt að kalla eftir afstöðu umræddra einstaklinga áður en það afgreiddi upplýsingabeiðni kæranda.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er læknir, til aðgangs að tveimur tilkynningum sem bárust HSU í kjölfar útkalls um að ástand hans í útkallinu hefði verið óeðlilegt. Kærandi óskaði eftir aðgangi að gögnunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem þau innihéldu upplýsingar um hann sjálfan. HSU synjaði honum um aðgang að tilkynningunum á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga, því þær innihéldu jafnframt upplýsingar um einkamálefni annarra en kæranda og hagsmunir þeirra af því að upplýsingarnar færu leynt vægju þyngra en hagsmunir kæranda af að fá aðgang að þeim.

2.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli kæranda komst hann að þeirri niðurstöðu að þar sem ákvörðun HSU að tilkynna mál kæranda til landlæknis teldist ekki stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, giltu stjórnsýslulög ekki um aðgang kæranda að umbeðnum gögnum í málinu heldur upplýsingalög. Var því beint til kæranda að leggja aftur inn beiðni um gögnin til HSU á grundvelli upplýsingalaga, sem hann og gerði líkt og áður er rakið.

Gagnabeiðni kæranda var byggð á 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, en í ákvæðinu segir að veita skuli aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan, óski hann eftir því. Úrskurðarnefnd hefur farið yfir þær tilkynningar sem deilt er um í málinu. Ljóst er að í þeim er eingöngu fjallað um kæranda sjálfan og meint ástand hans í útkalli. Beiðni kæranda er því réttilega heimfærð til 14. gr. upplýsingalaga og ber af þeirri ástæðu að taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á afhendingu bréfanna á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins.

Áður en lengra er haldið er vert að nefna að upplýsingaréttur aðila skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga verður að jafnaði ekki takmarkaður með öðrum hætti en sem fram kemur í 2. og 3. mgr. sömu greinar. Í 2. mgr. er fjallað um takmarkanir vegna almannahagsmuna en í 3. mgr. um takmarkanir vegna einkahagsmuna. Með gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga hefur einnig verið talið að lagaákvæði um sérstaka þagnarskyldu geti takmarkað rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þannig gæti sérstakt lagaákvæði um nafnleynd þeirra sem legðu inn ábendingar um brot heilbrigðisstarfsmanna í starfi takmarkað rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum. Slík ákvæði um nafnleynd er að finna í íslenskum lögum, sbr. t.d. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um nafnleynd tilkynnanda í barnaverndarmálum. Þar sem sambærilega reglu er ekki að finna varðandi þá tilkynningu sem mál þetta lýtur að verða takmarkanir á rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum tilkynningum aðeins byggðar á 2. og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Í umsögn sinni vísar HSU til almannahagsmuna sem mæli gegn afhendingu gagnanna, sem felist í því að upplýsingar um yfirvofandi hættu þurfi að geta borist til aðila sem séu til þess bærir að meta hvort um raunverulega hættu sé að ræða og bregðast við með réttum hætti. Stofnunin telur nauðsynlegt að þeir sem veiti slíkar upplýsingar njóti nafnleyndar, m.a. til að þeir veigri sér ekki við upplýsingagjöfinni. Í 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, er fjallar um takmarkanir á upplýsingarétti aðila vegna almannahagsmuna, er annars vegar vísað til gagna skv. 6. gr. upplýsingalaga og hins vegar gagna sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt skuli fara skv. 10. gr. laganna. Ljóst er að þeir almannahagsmunir sem HSU vísar til falla undir hvorugt ákvæðið. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að aðgangur kæranda að tilkynningunum verður ekki takmarkaður á grundvelli almannahagsmuna.

Af hálfu HSU hefur komið fram að forsvarsmenn stofnunarinnar hafi upplýst þá sem tilkynntu um meint ástand kæranda um að fullum trúnaði yrði haldið um nöfn þeirra og að þeir hafi því verið í góðri trú um nafnleynd. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að sú meginregla gildir að upplýsingar og gögn stjórnvalda skulu vera aðgengileg nema takmarkanir á upplýsingarétti sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum eða sérlögum eigi við. Stjórnvöld geta ekki án lagaheimildar heitið trúnaði eða samið sig undan skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt lögunum. Við mat á því hvort aðgangur að tilteknum upplýsingum skuli veittur getur hins vegar haft þýðingu að þær hafi verið gefnar í trúnaði.

Beiðni kæranda um aðgang að tilkynningunum var synjað af HSU með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, þar sem fram kemur að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafi jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæli með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felst í því að vega skuli og meta þessa hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir eru að meginstefnu þeir sömu og um ræðir í 9. gr. laganna. Í þeirri grein er m.a. vísað til einka- eða fjárhagsmálefna einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Úrskurðarnefnd hefur farið yfir þær tilkynningar sem deilt er um í málinu. Þar er ekki að finna neinar upplýsingar sem talist geta varðað einka- eða fjárhagsmálefni viðkomandi einstaklinga. Af þeirri ástæðu standa ekki rök til að synja kæranda um aðgang að umbeðnum tilkynningum, og skal því veita honum aðgang að þeim í heild sinni.

Úrskurðarorð:

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er skylt að afhenda kæranda A tvær tilkynningar um meint ástand hans, sem dagsettar eru 1. og 5. júní 2015, og bárust stofnuninni í kjölfar útkalls.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta