Hoppa yfir valmynd
10. júní 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 259/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 259/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21050009

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 8. apríl 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2021, um að umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Írak, um alþjóðlega vernd, yrði ekki tekin til efnismeðferðar og að hann yrði endursendur til Grikklands.

Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda hinn 19. apríl 2021 og 23. apríl 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 7. maí 2021. 

Kærandi krefst þess aðallega að mál hans verði endurupptekið með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda sé ákvörðun kærunefndar útlendingamála byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Til vara krefst kærandi þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar verði frestað á grundvelli 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er byggt á því að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar við meðferð máls hans. Mat stjórnvalda á aðstæðum kæranda, þ. á m. á aðstæðum hans í Grikklandi og heilsufari hans, hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum og fyrirliggjandi upplýsingar hafi verið ranglega túlkaðar. Kærandi telji að ef kærunefnd hefði framkvæmt fullnægjandi mat á aðstæðum hans og byggt á réttum upplýsingum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, hefði nefndin komist að þeirri niðurstöðu að mál hans skyldi tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, líkt og niðurstaðan hafi verið í úrskurði kærunefndar nr. 393/2018. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til þess að heilsufar hans fari hrakandi og aðgengi hans að heilbrigðisþjónustu í Grikklandi sé ekki tryggt.

Kærandi telur að endursending hans til Grikklands muni leiða til óafturkræfra afleiðinga fyrir sig og brjóta gegn 68. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1944 og 42. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi, með vísan til skýrslna um aðstæður flóttamanna í Grikklandi, á hættu að vera heimilis- og atvinnulaus þar í landi. Megi því jafna aðstæðum hans við aðstæður aðila í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi frá 21. janúar 2011 (3096/09). Þá telur kærandi að íslensk stjórnvöld hefðu þurft að afla tryggingar frá grískum stjórnvöldum um að við endursendingu kæranda til Grikklands verði ekki brotið gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss frá 4. nóvember 2014 (29217/12).

Kærandi telur að kærunefnd sé ekki fær til að fjalla um beiðni hans um frestun réttaráhrifa. Í því sambandi vísar hann til þess að kærunefnd hafi, þ. á m. í úrskurði nr. 412/2018, sýnt að afstaða nefndarinnar sé að reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 skorti ekki lagaheimild. Með vísan til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga telur kærandi að kærunefnd beri, líkt og í úrskurðum nefndarinnar nr. 477/2018 og 489/2019, að fallast á beiðni hans um frestun réttaráhrifa.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

i.         Krafa um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda þann 8. apríl 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur að tilvísun kæranda til úrskurða kærunefndar nr. 393/2018, 412/2018, 477/2018 og 489/2018 hafi ekki þýðingu fyrir þetta mál. Kærunefnd telur ljóst að ekki sé hægt að jafna stöðu aðila við stöðu aðila í framangreindum úrskurðum. Í fyrstnefnda úrskurðinum var um að ræða fimm manna fjölskyldu með andlega erfiðleika sem átti von á öðru barni og í þeim síðarnefndu var um að ræða hreyfihamlaðan einstakling með mikla þjónustuþörf og bróður hans sem endursenda átti til annars viðtökuríkis. Að mati kærunefndar geta framangreindir úrskurðir því ekki haft fordæmisgildi í máli aðila. Þá geta tilvísaðir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu ekki haft fordæmisgildi í máli aðila, enda var um að ræða mál sem varðaði endursendingu aðila til Grikklands og Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í máli kæranda liggur hins vegar fyrir að hann er handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.

Í greinargerð kæranda kemur fram að ef þörf þyki muni hann framvísa nýjum gögnum um heilsufar sitt til kærunefndar sem staðfesti að atvik máls hans hafi breyst frá því að ákvörðun í því hafi verið tekin, sbr. 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd leiðbeindi kæranda um að framvísa nýjum gögnum, þ. á um um heilsufar hans, og veitti honum frest til 21. maí 2021 til þess. Í tölvubréfi, dags. 21. maí 2021, kom fram að kærandi hafi ekki gögn um heilsufar sitt og að hann byggi frásögn sína þar um á eigin líðan. Að öðru leyti byggir kærandi beiðni um endurupptöku á máli sínu á sömu málsatvikum og málsástæðum og hann byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu fyrir kærunefnd, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna.

Að framangreindu virtu ert það því mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku.

ii.       Beiðni um frestun réttaráhrifa

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum aðila af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi aðila óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi aðila að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Af beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa má ráða þá afstöðu hans að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála um að hann skuli yfirgefa landið takmarki möguleika hans til að fá endurskoðun úrskurðarins hjá dómstólum og njóta þar réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst er að vera kæranda á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem hann höfðar til ógildingar á úrskurðum kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur kærandi möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í því ljósi og með vísan til aðstæðna aðila að öðru leyti er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé ástæða til að fresta réttaráhrifum úrskurða í máli kæranda á þeim grundvelli að framkvæmd úrskurðarins valdi tjóni á málatilbúnaði hans fyrir dómstólum eða skerði réttindi sem honum eru tryggð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-2434/2017, frá 23. maí 2018, og E-6830/2020, frá 15. desember 2020.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála hefur verið tekin afstaða til málsástæðna kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og komist að niðurstöðu um að synja umsókn hans  um efnismeðferð. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurðum í máli kæranda að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í viðtökuríki séu þess eðlis að endursending kæranda þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða að aðila sé ekki tryggð raunhæf leið til að ná fram rétti sínum þar í landi, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í samræmi við framangreint er það jafnframt mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að verða fyrir óafturkræfum skaða, snúi hann aftur til viðtökuríkis.

Tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli kæranda. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í ríkinu, sem vísa á kæranda til, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Eftir skoðun á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa telur kærunefnd að athugasemdir sem þar koma fram varðandi málsmeðferð og efnislegt mat kærunefndar í málinu séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að niðurstaða kærunefndar í málinu sé haldin annmarka sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að fallast á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í máli hans.

Kærunefnd leggur áherslu á að mál þetta snýst um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í því skyni að bera mál undir dómstóla, en ekki hvort skilyrði frestunar framkvæmdar með vísan til lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi, m.a. í ljósi Covid-19 faraldursins. Aðila er leiðbeint um að berist honum boð um flutning til viðtökuríkis er honum heimilt að vekja athygli kærunefndar á því en kærunefnd getur þá ákveðið að fresta framkvæmd úrskurðar, sbr. framangreint ákvæði, séu skilyrði til þess uppfyllt.

Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra ástæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Samkvæmt framansögðu eru hvorki forsendur til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né fresta réttaráhrifum þess skv. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar hefði talsmanni kæranda mátt vera framangreint ljóst af lestri fyrrgreindra ákvæða. Beiðni kæranda var ekki studd með nýjum gögnum og telur kærunefnd, með hliðsjón af framangreindu, að um tilhæfulausa beiðni sé að ræða. Þá var á bls. 1. í greinargerð kæranda vísað til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2018, og úrskurður kærunefndar, dags. 28. nóvember 2018, lytu að máli kæranda, en svo er ekki. Loks var vísað ranglega til þess að önnur lögmannsstofa en sú sem talsmaður kæranda starfar hjá hefði verið falið að fara með málið fyrir dóm.

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda er hafnað.

The appellant’s requests are denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta