Sjúklingar meta heilbrigðisþjónustuna
Starfsfólk og sjúkrahús fær góða einkunn
Fréttatilkynning nr. 51/2003
Sjúklingar fá góða þjónustu, læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar koma fram við þá af virðingu, það er þægilegt andrúmsloft á sjúkradeildum, tillit er tekið til einstaklingsbundinna þátta og tækjabúnaður á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum er góður. Þetta kemur meðal annars fram í Gallup könnun sem ber heitið Gæði frá sjónarhóli sjúklings sem gerð var fyrir heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið og landlæknisembættið í maí og júní og byggist á svörum aðspurðra sjúklinga sem lágu inni á 13 stofnunum víðs vegar um landið.
Könnunin var gerð dagana 15. maí til 28. júní í sumar. Tekið var úrtak úr hópi útskrifaðra sjúklinga af 13 sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum og þeir spurðir út um sjúkrahúsdvölina. 57% aðspurðra voru konur, 43% karlar. Rúmur helmingur, eða 55%, var lagður inn brátt og 45% af biðlistum. Tæpur helmingur, eða 48 af hundraði, lá inni 2 til 6 sólarhringa. Meðalaldur aðspurðra var 57,8 ár.
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna gæði sjúkrahúsþjónustunnar frá sjónarhóli sjúklinga. Þróuð hefur verið aðferð sem notuð er við könnunina, eða mælitæki, sem byggist á fræðilegum grunni. Mælitækið hefur reynst bæði réttmætt og áreiðanlegt við endurteknar kannanir í Svíþjóð.
Vaxandi áhersla hefur undanfarið verið lögð á það víða um lönd að kanna viðhorf sjúklinga til þjónustunnar sem þeir njóta. Hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin til dæmis hvatt til þess að ánægja sjúklinga með þjónustuna sé mæld árlega. Mæling af þessu tagi er þar fyrir utan í samræmi við Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 og gæðaáætlun heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins.
Könnunin...
Nánari upplýsingar veitir Margrét Björnsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu (HTR) í síma 545 8700
25. nóvember 2003