Fréttapistill vikunnar 6. - 12. desember
Þjónustan flutt til fólksins
Í næstu viku, vikuna fyrir jól ætlar Heyrnar-og talmeinastöð Íslands að brydda upp á nýbreytni í þjónustu sinni. Þá ætla starfsmenn frá stöðinni að heimsækja fjórar öldrunastofnanir á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. á Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði, Droplaugarstaði og Grund. Hugmyndin með heimsóknunum er að bjóða íbúum þessara stofnana upp á að fá heyrnartækin sín stillt. Ef vel tekst til verður hugsanlega boðið upp á þessa þjónustu oftar. Heyrnar-og talmeinastöðin vill með þessu koma til móts við þá sem leita til stöðvarinnar en í mörgum tilvikum þarf eldra fólk fylgd til þess að nálgast þessa þjónustu stöðvarinnar. Með þessu vill HTÍ létta undir bæði með þeim sem nota heyrnartæki og einnig starfsfólki öldrunarstofnanna.
Bætur hækka um áramótin - frumvarp varð að lögum í dag
Frumvarp heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra var samþykkt á Alþingi í dag. Grunnlífeyrir þeirra sem yngstir eru greindir 75% öryrkjar tvöfaldast. Grunnlífeyrir þeirra sem fá tvöfaldan lífeyri er nú 20.630 krónur á mánuði en verður 42.498 krónur og hefur þá verið tekið tillit til 3% almennrar hækkun grunnlífeyris frá 1. janúar. Tekjutrygging örorkulífeyrisþega er nú 39.493 krónur á mánuði. Hún hækkar um 3% um áramótin og hækkar auk þess um 2000 krónur sem varð að samkomulagi við aldraða í fyrra. Tekjutryggingin verður því 42.678 kr. á mánuði. Sama breyting verður á tekjutryggingaraukanum. Hann er nú 18 þúsund krónur á mánuði en hækkar um 3% um áramótin og 2000 krónur sbr. samkomulagið við aldraða og verður 20.540. Heimilisuppbótin sem þeir njóta sem búa einir var 16.960 en verður 17.469 krónur á mánuði með þeirri 3% prósenta hækkun sem verður um áramótin og verður 18.197 með eingreiðslu á heimilisuppbótina. Þetta þýðir til dæmis að einhleypur öryrki með óskertar mánaðargreiðslur sem fær 98.080 krónur á mánuði nú hækkar í 126.547 krónur á næsta ári. Hækkunin er fyrir þennan einstakling 28.467 krónur á mánuði eða um 29%. Tekjutrygging ellilífeyrisþega er nú 38.500 og hækkar frá áramótum um 2000 krónur á mánuði, auk 2000 króna hækkunarinnar vegna samkomulagsins við aldraða sem gert var á síðasta ári. Óskert tekjutrygging ellilífeyrisþega verður því 41.655 kr. á mánuði. Heimilisuppbót með eingreiðslu var 17.667 en verður 18.197 með þriggja prósenta hækkun um áramótin.
Greiðslur TR vegna örorkubóta hafa aukist umtalsvert á síðustu árum
Í umræðum um tvöföldun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar hefur Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, m.a. lagt áherslu á að úr töflum Tryggingastofnunar ríkisins um útgjöld vegna bótagreiðslna (grunnlífeyrir, tekjutrygging/tekjutryggingarauki og heimilisuppbót) til örorkulífeyrisþega megi sjá hve mjög framlögin til bótaflokkanna hafi aukist.
Greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins vegna örorkulífeyrisþega voru á árinu 2000 tæpir fimm komma fjórir milljarðar (5.389), greiðslurnar voru um sex milljarðar króna á árinu 2001 (6.012), í fyrra var þessi upphæð rúmir sjö komma einn milljarður króna (7.127) og áætlanir gera ráð fyrir að í ár verði þessi upphæð tæpir átta komma þrír milljarðar (8.299). Með því sem lagt er til í frumvarpi Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra verða útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna þessarar bótaflokka örorkulífeyrisþega tæpir tíu komma þrír milljarðar króna (10.278) og hafa aukist um tæpa fimm milljarða á fjórum árum, eða tæplega 91%. Tekið skal fram að öryrkjum hefur fjölgað nokkuð á tímabilinu, en þeim fjölgaði um fimmtung á árunum 2000 til 2003.
Námskeið um þunglyndi haldin um allt land
Undanfarna mánuði hefur landlæknisembættið staðið fyrir námskeiðum um þunglyndi og afleiðingar þess fyrir faghópa innan heilsugæslunnar og félagsþjónustunnar, fyrir lögreglu, skólafólk og presta. Námskeiðin eru þáttur í verkefninu Þjóð gegn þunglyndi og megintilgangur þeirra er að auka vitneskju þessara hópa um helstu einkenni þunglyndis og sjálfsvígshegðunar. Frá þessu er sagt á heimasíðu landlæknisembættisins.
Nánar...
Fundur um málefni langveikra barna
Fundur var haldinn nýlega í nefnd fjögurra ráðuneyta: heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, menntamála- félagsmála- og fjármálaráðuneytis sem ætlað er að fylgja eftir stefnumótun ríkisstjórnar í málefnum langveikra barna frá árinu 2000 og sjá um að ramræma aðgerðir sem falla undir fleiri en eitt ráðuneyti. Nefndin bauð til fundarins fulltrúum frá ýmsum stofnunum og samtökum sem koma að málefnum barna. Tilgangurinn var að skoða hvað hefur áunnist varðandi framkvæmd stefnunnar og hvaða leiðir séu vænlegar til frekari árangurs. Í umræðu bar hátt nauðsyn á samhæfingu og samþættingu þjónustukerfa sem veita langveikum börnum og aðstandendum þeirra þjónustu. Stofnunum og samtökum gafst kostur á að kynna starfsemi sína og helstu mál sem þarfnast úrlausnar á þessu sviði. Í framhaldi mun nefndin vinna úr þeim ábendingum sem fram komu og hafa til hliðsjónar við frekari störf. Formaður nefndarinnar er Margrét Björnsdóttir deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
12. desember 2001