Hoppa yfir valmynd
23. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 340/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 340/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070002

 

Beiðni [...], [...] og [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Þann 24. maí 2018 með úrskurðum nr. 187/2018 og 188/2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 29. janúar 2018 um að synja [...], kt. [...] (hér eftir M) og [...], kt. [...] (hér eftir K), ríkisborgurum Albaníu, um dvalarleyfi, brottvísa þeim og ákveða tveggja ára endurkomubann til landsins. Niðurstaða kærunefndar var birt K og M þann 28. maí 2018. Þann 1. júní 2018 barst kærunefnd beiðni K og M um frestun réttaráhrifa á úrskurðum nefndarinnar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 28. júní 2018, var beiðni K og M um frestun réttaráhrifa synjað. Sá úrskurður var birtur þeim þann 2. júlí 2018. Samdægurs barst kærunefnd beiðni af hálfu [...], fd. [...], ríkisborgara Albaníu, dóttir M og K (hér eftir nefnd A) um endurupptöku málanna ásamt beiðni um frestun framkvæmdar á ofangreindum úrskurðum kærunefndar. Þann 16. júlí sl. barst greinargerð aðila ásamt fylgigögnum.

Þrátt fyrir að upphafleg beiðni hafi eingöngu tilgreint A sem beiðanda má skilja greinargerð aðila sem svo að K, M og A óski öll eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar í máli K og M. Beiðni aðila um endurupptöku máls þeirra byggir aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af hálfu aðila er jafnframt óskað eftir frestun framkvæmdar Ríkislögreglustjóra á brottvísun M og K.

II.            Málsástæður og rök aðila

Í beiðni aðila um endurupptöku kemur fram að vegna skorts á umfjöllun um A og réttarstöðu hennar í úrskurðum kærunefndar frá 24. maí 2018 og 28. júní 2018 sé ástæða til endurupptöku sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1193. Nauðsynlegt sé að taka sérstaka afstöðu til réttarstöðu A sem aðila máls í skilningi ákvæða stjórnsýslulaga óháð stöðu foreldra hennar. Vísa aðilar til umfjöllunar um það hver geti verið aðili að stjórnsýslumáli í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum. Sjá megi af ákvæðum 3. mgr. 102. gr. og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, með stuðningi í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002 og 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að vilji löggjafans standi til þess að stjórnvöld taki sérstakt tillit til barna við ákvarðanatöku sína og fjalli um þeirra hlut í niðurstöðum sínum og úrskurðum. Aðilar vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 483/2017 og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga máli sínu til stuðnings.

Aðilar byggja á því að A eigi sama rétt og önnur börn til þess að fá lögheimili sitt skráð í Þjóðskrá, m.a. skv. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, ákvæðum stjórnsýslulaga, lögum um útlendinga og barnasáttmálanum. Um það verði tekist á fyrir dómstólum við aðalmeðferð máls sem hún hafi höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Þjóðskrá. Aðilar vísar til bréfa frá annars vegar umboðsmanni barna og hins vegar barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem lýsi yfir stuðningi við það að A fái að sækja rétt sinn til lögheimilisskráningar fyrir dómstólum hér á landi. Lýst er yfir mikilvægi þess að dómstólar leysi úr þessu álitaefni þar sem það geti haft fordæmisgildi í málum fjölda annarra barna hér á landi í svipaðri stöðu og A. Réttur A til aðgangs að dómstólum njóti verndar 70. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr., sbr. 6. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994. Verði A gert að yfirgefa landið án framkvæmdarhæfrar stjórnvaldsákvörðunar þess efnis muni stjórnvöld koma í veg fyrir aðgengi hennar að dómstólum samkvæmt framangreindum ákvæðum. Vísa aðilar í dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Stagno gegn Belgíu frá 7. júlí 2009 (mál nr. 1062/07) og Mikulic gegn Króatíu frá 7. febrúar 2002 (mál nr. 53176/99) þessu til stuðnings. Einnig byggja aðilar á því að þar sem A byggi rétt sinn fyrir dómi á 1. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, sem verndi börn sem fæðst hafi hér á landi og hafi haft óslitna fasta búsetu hérlendis gegn brottvísun, geti flutningur hennar af landinu valdið því að rekstur dómsmálsins sé í hættu vegna mögulegs skorts á lögvörðum hagsmunum. Verði af brottvísun aðila frá landinu muni það leiða til þess að A uppfylli ekki lengur framangreint skilyrði um óslitna búsetu og myndi því ströng túlkun stjórnvalda koma í veg fyrir að A geti sótt úrræði sem hún eigi rétt á.

Að lokum kemur fram að aðilar telji að lögreglunni sé óheimilt að framkvæma brottvísun á A án þess að sérstök stjórnvaldsákvörðun verði tekin á grundvelli 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga í máli hennar. Ljóst sé að ákvarðanir um brottvísun foreldra hennar varði ekki A.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Endurupptaka

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Af beiðni aðila verður ekki annað ráðið en að farið sé fram á endurupptöku úrskurða kærunefndar útlendingamála nr. 187/2018 og 188/2018 frá 24. maí 2018 og úrskurðar nr. 313/2018 frá 28. júní 2018. Vegna umfjöllunar í greinargerð með beiðni um endurupptöku tekur kærunefnd í upphafi fram að framangreindir úrskurðir kærunefndar frá 24. maí 2018 vörðuðu umsóknir M og K um dvalarleyfi vegna lögmæts og sérstaks tilgangs en ekki var lögð fram umsókn um slíkt leyfi fyrir A. Þá var M og K í úrskurðum kærunefndar frá 24. maí 2018 vísað brott á þeim grundvelli að þau dveldust ólöglega í landinu. Úrskurður kærunefndar frá 28. júní 2018 varðaði beiðnir M og K um frestun réttaráhrifa framangreindra úrskurða kærunefndar.

Aðilar byggja endurupptökubeiðni sína á því að ekki hafi verið fjallað nægilega um og tekin afstaða til hagsmuna og réttinda A í samræmi við ákvæði laga um útlendinga, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnaverndarlaga við ákvarðanatöku í málum M og K hjá stjórnvöldum. Vísa aðilar til dómsmáls sem M og K hafa höfðað fyrir hönd A sem varðar skráningu á lögheimili hennar.

Við meðferð máls M og K hjá stjórnvöldum, sem lauk með því að nefndin kvað upp úrskurði í málum nr. 187/2018 og 188/2018, færðu aðilar fram málsástæður sem vörðuðu dómsmál sem hefur verið höfðað fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra A sem eru að mestu leyti samhljóða þeim málsástæðum sem koma fram í beiðni aðila um endurupptöku málsins. Lágu þær upplýsingar og afstaða aðila því fyrir þegar nefndin úrskurðaði í málinu. Vegna athugasemda sem fylgdu beiðni um endurupptöku tekur kærunefnd fram að það er mat nefndarinnar að tekin hafi verið afstaða til framangreindra málsástæðna aðila að því er varðar lagagrundvöll þeirra mála sem voru til úrlausnar hjá nefndinni, þ.e. umsókn M og K um dvalarleyfi vegna lögmæts og sérstaks tilgangs og brottvísun þeirra. Í því sambandi er áréttað það mat nefndarinnar, sem fram kom í úrskurðum nefndarinnar nr. 187/2018 og 188/2018, að ekki sé nauðsynlegt fyrir meðferð umrædds dómsmáls að M og K séu viðstödd meðferð þess og að dvöl þeirra hér á landi hafi því ekki lögmætan og sérstakan tilgang. Þá áréttar kærunefnd það mat nefndarinnar, sem fram kom í úrskurði nr. 188/2018, að í ljósi upplýsinga um heimaríki, aldurs, heilsufars og fjölskylduaðstæðna aðila í heimaríki myndi brottvísun þeirra ekki fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart dóttur þeirra. Ennfremur telur kærunefnd að ekkert í gögnum áðurnefndra mála og þessa máls bendi til annars en að það samrýmist hagsmunum A að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Samkvæmt framansögðu er það mat nefndarinnar að ekkert bendi til þess að úrskurðir í málum aðila hafi verið byggðir á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik eða aðrar aðstæður hafi breyst verulega frá því úrskurðirnir voru kveðnir upp. Er það því niðurstaða nefndarinnar að synja beiðni kæranda um endurupptöku, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það niðurstaða nefndarinnar að ekki sé tilefni til endurupptöku málsins á öðrum grundvelli eða að öðru leyti tilefni eða forsendur fyrir nefndina til aðhafast sérstaklega í málum aðila.

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                               Anna Tryggvadóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta