Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármögnun lykilþáttur í vinnu að kynjajafnrétti

Sima Bahous framkvæmdastýra UN Women og Bjarni Benediktsson. - mynd
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra átti í dag fund með Sima Bahous, framkvæmdastýru UN Women sem er stödd hér á landi vegna Heimsþings kvenleiðtoga. Ráðherra og framkvæmdastýra ræddu sameiginlega sýn á mikilvægi fjármögnunar aðgerða sem stuðla að kynjajafnrétti, hlutverk ríkja eins og Íslands í þessum málum og hvernig stuðla megi að aukinni aðkomu fjármálamarkaða.

UN Women hefur sett fram skýra sýn um að efla fjármögnun opinberra aðila og einkaaðila, stefnu og tæki til að stuðla að jafnrétti með hnitmiðaðri ráðgjöf og aukinni þekkingu um ábyrga fjármögnun sem tekur mið af markmiðum um kynjajafnrétti og er líkleg til að skila árangri á því sviði.

Þótt jöfnuður milli kynja mælist hvergi meiri í heiminum en á Íslandi er enn verk að vinna til að tryggja fullt jafnrétti kynjanna hérlendis. Í ljósi mikilvægis fjármögnunar í þeirri vinnu var kynjuð fjárlagagerð innleidd á Íslandi fyrir rúmum áratug og hefur reynst öflugt tól í því að byggja upp þekkingu á jafnréttisáhrifum af ráðstöfun fjármagns og stuðlað að upplýstari ákvarðanatöku við fjárlagagerð.

Auk stjórnvalda geta fjármálamarkaðir einnig gegnt stóru hlutverki við að beina fjármagni í verkefni og fjárfestingar sem stuðla að kynjajafnrétti. Á síðasta ári gaf ráðuneytið út ramma fyrir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs sem gerir ríkinu kleift að gefa út sjálfbær, græn, blá, og/eða félagsleg skuldabréf til að fjármagna aðgerðir á sviði loftslags-, umhverfis- og félagslegra mála, þar á meðal verkefni sem stuðla að kynjajafnrétti.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:


„Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á jafnréttismál og við viljum vera öðrum ríkjum fyrirmynd og áfram í fararbroddi þegar kemur að því að virkja opinber fjármál til að stuðla að jafnrétti kynjanna. Áherslur UN Women á fjármögnun sem stuðlar að kynjajafnrétti er okkur hvatning til að gera enn betur.“

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women: 

„Fjármögnun sem stuðlar að kynjajafnrétti er mikilvægur þáttur í umbreytingum við að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og loka kynjabili. UN Women og fjármála- og efnahagsráðuneyti Íslands deila þeirri sýn.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta