Umferd.is
Nýr umferðarfræðsluvefur var opnaður formlega af Sturlu Böðvarssyni fyrr í dag.
Gerð vefsins er þáttur í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda, sem stefna að því að fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra í umferðinni lækki að jafnaði um 5% á ári að jafnaði.
Umferðarfræðsla í grunnskólum er ein af meginaðgerðum umferðaröryggisáætlunar og hefur samgönguráðuneytið ákveðið að 62 milljónum skuli varið til umferðaröryggisfræðslu í grunnskólum á árunum 2005-2008.
Verkefnið er þegar hafið og síðastliðinn september undirrituðu Umferðarstofa og Grundaskóli á Akranesi samning þess efnis að Grundaskóli verði móðurskóli umferðarfræðslu á grunnskólastigi og öðrum skólum til ráðgjafar á því sviði. Við skólann starfar verkefnisstjóri og teymi kennara sem sinnir umferðarfræðslu sérstaklega. Í störfum þeirra felst meðal annars að skipuleggja og stjórna námskeiðum og fræðslufundum fyrir kennara grunnskóla á landinu öllu. Að auki hefur verið unnið að nýjum umferðarvef, í samstarfi við Námsgagnastofnun, sem nú hefur verið opnaður.
Vefurinn er þrískiptur; krakkavefur fyrir yngstu grunnskólanemendurna, unglingavefur og síðan er vefur sem er ætlaður kennurum og foreldrum.
Gert er ráð fyrir að á vefnum verði í framtíðinni fjölbreytt fræðsluefni við hæfi allra aldursflokka innan grunnskólans, þar á meðal vefleiðangrar, vefrallý og ýmiss konar leikir og þrautir. Honum er ætlað að vera í sífelldri þróun og verður bætt við námsefni eftir því sem þörf krefur hverju sinni.
Vefurinn markar ákveðin tímamót í umferðarfræðslu í grunnskólum hér á landi, þar sem fræðslan er nú markvissari en áður. Í könnunum sem gerðar hafa verið kemur í ljós að í mörgum grunnskólum er nánast engin umferðarfræðsla, í allmörgum skólum er einhver fræðsla en alls ekki nógu markviss. Nokkrir skólar skera sig þó úr í þessum efnum og hafa alltaf sinnt fræðslunni með mikilli prýði.
Rannsóknarráð umferðaröryggismála (RANNUM) hefur á undanförnum árum veitt nokkra styrki til kannana á stöðu umferðarfræðslu í skólum og einnig til gerðar námsefnis og má segja að hluta þess efnis sem er á umferðarvefnum megi rekja til þeirra styrkja.
Í kjölfar opnunar vefsins www.umferd.is munu kennarar í Grundaskóla annast kynningu á umferðarfræðslu og halda námskeið fyrir kennara um möguleika vefsins í umferðarfræðslu. Forráðamenn skóla geta haft samband við Grundaskóla hafi þeir áhuga á að halda námskeið eða fræðslufundi fyrir kennara.
Hér fyrir neðan má sjá þær umferðaröryggisaðgerðir sem unnið er að:
Umferðaröryggisaðgerðir: | Fækkun látinna | Fækkun alvarlegra slasaðra | Fjármögnun 2005-2008 |
---|---|---|---|
Hraðakstur og bílbeltanotkun |
2,5 |
4,8 |
687 |
Leiðbeinandi hraðamerkingar |
0,3 |
0,9 |
17 |
Eyðing svartbletta |
0,5 |
2,3 |
312 |
Ölvun/fíkniefni við akstur |
0,5 |
2,7 |
228 |
Umferðaröryggi í öryggisstjórnun fyrirtækja |
0,1 |
0,6 |
15 |
Umferðaröryggi í námsskrá grunnskóla |
0,2 |
1,0 |
62 |
Öryggisbeltanotkun í hópbifreiðum |
0,0 |
0,3 |
16 |
Forvarnir erlendra ökumanna |
0,2 |
1,2 |
47 |
Slysum og óhöppum v. lausagöngu búfjár fækkað með girðingum |
0,1 |
0,7 |
156 |
Samtals |
4,2 |
14,5 |
1.540 m. |