Fjárlagafrumvarpið: Heilbrigðiskerfið eflt á ýmsum sviðum
Heilsugæslan verður efld til muna, auknu fé veitt til uppbyggingar nýrra hjúkrunarrýma, framkvæmdir við nýjan Landspítala verða tryggðar og rekstrargrunnur stóru sjúkrahúsanna og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni verður varinn samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2016.
Heildarútgjöld til heilbrigðismála árið 2016 verða tæpir 162 milljarðar króna á næsta ári og nemur aukningin 10% eða 14,5 milljörðum króna þegar launa- og verðlagsbreytingar eru meðtaldar. Að raungildi nemur aukningin 4,4 milljörðum króna eða 3,0%.
Aukið svigrúm nýtt til að stórefla heilsugæslu um allt land
Framlag til heilsugæslu og heimahjúkrunar verður aukið um tæpar 500 milljónir króna á næsta ári með áherslu á ýmis ný verkefni. Sérfræðingum í heimilislækningum verður fjölgað, stöðum sálfræðinga fjölgað til muna og framlög aukin til að bæta við námsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að fjárlagafrumvarpið endurspegli afdráttarlausa stefnu stjórnvalda um að efla heilsugæsluna þannig að hún geti staðið undir nafni sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu: „Heilsugæslan á að vera grunnstoðin í heilbrigðiskerfinu sem fólk getur leitað til og fengið úrlausn eða leiðsögn um kerfið eftir atvikum. Um þetta fjallar einmitt áætlunin Betri heilbrigðisþjónusta sem unnið er að í velferðarráðuneytinu.“
Uppbygging Landspítala við Hringbraut
Gert er ráð fyrir að ríflega 1.800 milljónum króna verði varið til uppbyggingar Landspítala við Hringbraut, annars vegar vegna byggingaframkvæmda við sjúkrahótel sem hefjast í haust og hins vegar vegna fullnaðarhönnunar á meðferðarkjarna sjúkrahússins.
Þjónusta við aldraða og uppbygging hjúkrunarheimila
Aukið fé til heilsugæslu og þá einkum til heimahjúkrunar er mikilvægur liður í því að efla þjónustu við aldraða í samræmi við þá stefnu að gera fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili. Í fjárlagafrumvarpinu er einnig gert ráð fyrir uppbyggingu þriggja nýrra hjúkrunarheimila og nemur framlag vegna þeirra framkvæmda 300 milljónum króna á næsta ári samkvæmt frumvarpinu. Auk þessa er gert ráð fyrir 144 milljóna króna auknu framlagi vegna fjölgunar hjúkrunarrýma á Ísafirði og Egilsstöðum.
Rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verða framlög til Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri, auk heilbrigðisstofnana um allt land aukin að raunvirði sem nemur um hálfum milljarði króna árið 2016. Með þessu móti er rekstrargrunnur allra stofnananna varinn.
Aukið fé til tannlækninga barna
Þann 1. janúar 2016 bætast við tveir nýir árgangar barna sem öðlast rétt til tannlæknisþjónustu samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands við tannlækna, þ.e. öll sex og sjö ára börn. Vegna þessa er í frumvarpinu gert ráð fyrir 112 milljóna króna auknu framlagi til málaflokksins. Samningurinn felur í sér að börnin fá alla nauðsynlega almenna tannlæknaþjónustu og greiða aðeins fast komugjald. Samningurinn gildir frá 15. maí 2013 til aprílloka 2019. Velferðarráðuneytið hefur áætlað að þegar samningurinn er að fullu kominn til framkvæmda hafi útgjöld við barnatannlækningar þrefaldast, fari frá því að vera um 500 m.kr. í um 1.500 m.kr. á ári.