Ráðuneyti verður aðili að samstarfsverkefninu Orkídeu
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur gerst aðili að samstarfsverkefninu Orkídeu, sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands. Áfanganum var fagnað með athöfn í Bankanum vinnustofu á Selfossi og tók Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þátt í athöfninni.
Verkefnið Orkídea nær yfir Suðurland, en það hefur það að leiðarljósi að byggja upp orkutengd tækifæri í landshlutanum, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni.
Í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að Ísland verði vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Styðja eigi við græna atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar ásamt því að greiða götu verkefna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kolefnis, uppbyggingu hringrásarhagkerfis með fjölnýtingu orkustrauma og orkuskipta.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og markmið um kolefnishlutleysi og full orkuskipti kalla á skýrari sýn og nýja nálgun sem mun byggja á markmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífsins, aukna áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins. Með þátttöku í Orkídeu getum við komið að nýjum verkefnum sem ætlað er að draga úr losun sem og stuðla að kolefnishlutleysi.“