Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 12/2019

Hinn 19. maí 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 12/2019:

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. E-341/2013:

Íslandsbanki hf.

gegn

Kevin Gerald Stanford

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

  1. Beiðni um endurupptöku
    1. Með erindi, dagsettu 8. júlí 2019, fór Kevin Gerald Stanford þess á leit að héraðsdómsmálið nr. E-341/2013, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 26. júní 2013, yrði endurupptekið.
    2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Hrefna Friðriksdóttir og Björn Jóhannesson.
  2. Málsatvik
    1. Með stefnu Íslandsbanka hf. sem þingfest var þann 13. mars 2013 fyrir Héraðsdómi Reykjaness var endurupptökubeiðandi krafinn um greiðslu að fjárhæð 74.095.634 kr., auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Kröfur bankans má rekja til lánveitingar bankans til endurupptökubeiðanda á árinu 2007 vegna kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Endurupptökubeiðandi hafði af þessu tilefni gefið út skuldabréf þann 24. september 2007, upphaflega að fjárhæð 50.500.000 kr., til sparisjóðsins. Samkvæmt skilmálabreytingu varð nýr höfuðstóll lánsins 64.327.681 kr. sem skyldi greiðast með fimm afborgunum á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. nóvember 2009. Vextir, sem voru kjörvextir auk 0,5% vaxtaálags, skyldu reiknast frá 25. nóvember 2008. Greiðslufall varð á láninu þann 1. nóvember 2009 og nam krafa bankans þá með áföllnum vöxtum 74.095.634 kr. Krafist var dráttarvaxta frá þeim degi að telja.
    2. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 22. apríl 2010 tók Byr hf. við öllum eignum, þar með talið öllum skuldabréfum og verðbréfum Byrs sparisjóðs, sbr. auglýsingu sem birtist í Lögbirtingarblaðinu þann 20. apríl 2010.
    3. Með samruna þann 29. nóvember 2011 yfirtók Íslandsbanki hf. allar skyldur og réttindi Byrs hf., sbr. samrunatilkynning er birtist í Lögbirtingarblaðinu þann 5. desember 2011.
    4. Endurupptökubeiðandi kveðst hafa fengið fregnir af því að Íslandsbanki hf. hefði höfðað ofangreint skuldamál á hendur honum með birtingu stefnu í Lögbirtingarblaðinu árið 2013. Endurupptökubeiðandi leitaði til lögmanns, sem mætti við þingfestingu málsins.
    5. Í kjölfar þingfestingarinnar kveðst endurupptökubeiðandi, ásamt þáverandi lögmanni sínum, hafa fundað með fulltrúum bankans. Á þeim fundi hafi fulltrúar bankans lýst því yfir að einfaldast væri fyrir endurupptökubeiðanda að ljúka málinu með því að taka ekki til varna í dómsmálinu, því að fengnum dómi yrði krafan afskrifuð hjá bankanum.
    6. Að sögn endurupptökubeiðanda ákvað hann að láta þingsókn falla niður og skila ekki inn greinargerð með vörnum sínum með hliðsjón af yfirlýsingum bankans. Í kjölfarið gekk útivistardómur í málinu og þann 26. júní 2013 var héraðsdómsstefnan árituð. Hófst Íslandsbanki hf. síðan handa við innheimtu dómsins í Englandi, þar sem endurupptökubeiðandi býr.
    7. Þáverandi lögmaður endurupptökubeiðanda sendi þann 28. maí 2014 tölvupóst á bankastjóra Íslandsbanka hf. þar sem fram kom að endurupptökubeiðanda hafi verið ráðlagt að taka ekki til varna í málinu þar sem krafan yrði að öllum líkindum afskrifuð að gengnum dómi.
    8. Samkvæmt fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum í kjölfarið lýsti lögfræðingur bankans því yfir að hann myndi leggja til að innheimtuaðgerðum yrði hætt gagnvart endurupptökubeiðanda að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Af þessu tilefni óskaði bankinn eftir yfirlýsingu endurupptökubeiðanda um eignaleysi sem og afriti af nýjasta skattframtali. Lögmaður endurupptökubeiðanda sendi yfirlýsingu ásamt gögnum til bankans þann 15. desember 2014.
    9. Íslandsbanki hf. hóf innheimtu dómkröfunnar að nýju á hendur endurupptökubeiðanda og óskaði eftir gjaldþrotaskiptum á búi hans á grundvelli hennar.
  3. Grundvöllur beiðni
    1. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið var til meðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Endurupptökubeiðandi hafi fallið frá vörnum í málinu eftir að lögmaður Íslandsbanka hf. hafi lýst því yfir að krafan yrði afskrifuð að gegnum dómi, ef ekki yrði tekið til varna í málinu. Endurupptökubeiðandi telur að hann hafi mátt treysta loforði lögfræðings bankans um afskrift kröfunnar, m.a. með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 117/2011 sem kveðinn var upp þann 24. nóvember 2011.
    2. Endurupptökubeiðandi telur jafnframt sterkar líkur leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála, og vísar í því samhengi til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar. Að mati endurupptökubeiðanda hafi framangreindur dómur staðfest að starfsmenn Byrs sparisjóðs hafi boðið stofnfjárkaupendum lán frá sparisjóðnum og Glitni banka hf. með þeim formerkjum að áhættan yrði bundin við stofnbréfin sjálf.
    3. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína enn fremur á því að önnur atvik mæli með því að fallast beri á endurupptöku málsins, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðila séu í húfi, sbr. c-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála. Máli sínu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi til þess að þrátt fyrir fyrirliggjandi samskipti á milli þáverandi lögmanns hans og Íslandsbanka hf., sem lúta að afskrift dómkröfunnar, þá hafi Íslandsbanki hf. engu að síður ákveðið að innheimta dómkröfuna án þess að greina frá því hvað valdi þeirri ákvörðun bankans að falla frá samningi þeirra um afskrift kröfunnar. Endurupptökubeiðandi segist hafa stórfellda hagsmuni af því að fá málið endurupptekið til þess að koma að fullnægjandi vörnum gagnvart Íslandsbanka hf. Endurupptökubeiðandi telur ljóst að verði niðurstaðan sú að hann fái ekki að halda uppi vörnum í málinu muni Íslandsbanki hf. hagnast á því að hafa fengið hann, með röngum yfirlýsingum um afskriftir kröfunnar, til þess að falla frá eðlilegum vörnum og knýja fram gjaldþrot hans.
  4. Niðurstaða
  1. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í héraðsdómi verði tekið til nýrrar meðferðar ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð einkamála segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.
  2. Skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála eru eftirfarandi:
    1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
    2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
    3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
  3. Til að fallist sé á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.
  4. Samkvæmt 2. mgr. 192. gr. laga um meðferð einkamála synjar endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku ef endurupptökubeiðni þykir bersýnilega ekki á rökum reist.
  5. Af hálfu endurupptökubeiðanda er byggt á því að ástæða þess að þingsókn féll niður af hans hálfu hafi verið sú að Íslandsbanki hf. hafi lýst því yfir, eftir þingfestingu málsins og áður en til stóð að skila greinargerð, að krafa bankans yrði afskrifuð að gengnum dómi ef endurupptökubeiðandi tæki ekki til varna í málinu. Íslandsbanki hf. hafi ekki staðið við þetta samkomulag. Þá hefur endurupptökubeiðandi bent á dóm Hæstaréttar í máli nr. 117/2011 sem hann telur að hefði leitt til sýknu af kröfum bankans.
  6. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála þarf að leiða sterkum líkum að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um það. Ljóst er að þáverandi lögmaður endurupptökubeiðanda mætti við þingfestingu í málinu nr. E-341/2013 sem liggur til grundvallar endurupptökubeiðni. Ekki varð af frekari þingsókn af hans hálfu og var stefna árituð um aðfararhæfi þann 26. júní 2013. Endurupptökubeiðandi tók sjálfur ákvörðun um að taka ekki til varna en hann hefði getað látið á það reyna hvort málsatvik yrðu metin sambærileg og í dómi Hæstaréttar í máli nr. 117/2011, sem kveðinn var upp þann 24. nóvember 2011.
  7. Að mati endurupptökunefndar snúa þau sjónarmið sem endurupptökubeiðandi byggir á ekki að eiginlegum málsatvikum í því máli sem krafist er endurupptöku á, heldur fyrst og fremst á samskiptum aðila um hvort krafan yrði síðar afskrifuð. Endurupptökubeiðandi hefur því bersýnilega ekki leitt sterkum líkum að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd þannig að honum verði ekki um kennt.
  8. Þá liggur fyrir að dómur Hæstaréttar í máli nr. 117/2011 lá fyrir þegar mál Íslandsbanka hf. gegn endurupptökubeiðanda var þingfest og getur dómurinn því ekki talist nýtt gagn í skilningi b-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála.
  9. Samkvæmt framansögðu eru skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála því bersýnilega ekki uppfyllt. Af þeim sökum er ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um hvort skilyrði c-liðar sömu lagagreinar séu uppfyllt.
  10. Í ljósi þessa skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-341/2013 og er endurupptökubeiðni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 192. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Beiðni Kevin Gerald Stanford um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. E-341/2013, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 26. júní 2013, er hafnað.

Haukur Örn Birgisson formaður

Hrefna Friðriksdóttir

Björn Jóhannesson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta