Hoppa yfir valmynd
2. september 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

12 verkefni fjármögnuð í fjárfestingarátaki um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu

Tólf verkefni fá fjármögnun úr fjárfestingarátaki um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu sem nemur um 148 milljónum króna. Markmið átaksins var að auka nýsköpun með þarfir heilbrigðisþjónustu að leiðarljósi og fjölga á sama tíma störfum.

Mikill áhugi var á verkefninu og alls sóttu 48 opinberir aðilar í samvinnu við fyrirtæki um fjárfestingu til þróunarverkefna innan heilbrigðiskerfisins. Meðal þeirra verkefna sem fengu fjármögnun var DNA hraðgreiningarlausn, sem m.a. er hugsuð til að greina Covid-19 og app fyrir innlagða sjúklinga sem mun gera sjúklingum kleift að nálgast í gegnum smáforrit upplýsingar um innlögn og komu á spítala. 

Valnefnd, sem skipuð var af fjármála- og efnahagsráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra mat verkefnin út frá nýsköpunargildi, áhrifum á heilbrigðisþjónustu, framkvæmd, markmiðum og árangri.

Eftirfarandi verkefni fengu fjármögnun úr fjárfestingarátakinu:

Heilbrigðisstofnun

Samstarf við

Heiti verkefnis

Fjárfestingarupphæð

Landspítali

ArcanaBio

DNA hraðgreiningar og fjöldagreiningar fyrir SARS-CoV-2 og aðra sýkla.

14.975.000

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Kolibri

Hugbúnaðarlausn fyrir samvinnu við meðhöndlun nýrnasjúkra.

15.000.000

 

Landspítali

Risk

Áhættureiknir á augnsjúkdómum vegna sykursýki.

14.850.000

 

Landspítali

Advania

Smáforrit fyrir innlagða sjúklinga - skjólstæðingurinn í öndvegi.

14.839.382

 

Landspítali

Heilsugreind

Hugbúnaður til að halda utan um rekjanlegt og tímasett ferli sjúklinga sem greinast með brjóstakrabbamein.

15.000.000

 

Landspítali

Sidekick Health.

Rafræn vöktun og fræðsla með smáforriti fyrir krabbameinssjúklinga á ónæmisörvandi meðferð.

14.999.979

 

Landspítali

Origo, Geðhjálp, Trans Ísland, Embætti Landlæknis.

Rafræn samskipti milli sjúklinga og fagaðila geðþjónustu.

9.900.000

 

Sjúkrahúsið á Akureyri

Origo og Embætti Landslæknis

Eigin saga sjúklings - ritaðu þína eigin sjúkraskrá.

15.000.000

 

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Sjónlag

Nútímavædd augnlæknaþjónusta á landsbyggðinni – pilot í Vestmannaeyjum.

9.950.000

 

Landspítali

Fleygiferð

Leviosa - nútímalegt sjúkraskráningarviðmót á Landspítala.

14.972.500

 

Landspítali

Heilsugreind

Þróun spálíkans fyrir gjörgæslur á Landspítala.

5.000.000

 

Landspítali

 

Beanfee

 

Ný leið í atferlisþjálfun ungmenna á BUGL.

3.425.927

 

Var því beint til stofnana sem fá fjárfestingu að tryggja eftir fremsta megni að verkefnin geti nýst öðrum stofnunum heilbrigðisráðuneytisins í samræmi við markmið átaksins um jákvæð áhrif á þróun heilbrigðismála hér á landi og auka skilvirkni, samvinnu og samhæfingu þjónustunnar þvert á heilbrigðisstofnanir.

Í valnefnd fjárfestingarátaksins sátu:

  • Andri Heiðar Kristinson, framkvæmdarstjóri Stafræns Íslands, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra, jafnframt formaður,
  • Hildur Georgsdóttir, lögfræðingur hjá Ríkiskaupum, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra,
  • Hlynur Hreinsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra,
  • Ásthildur Knútsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneyti, tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti,
  • Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneyti, tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti,
  • Sigurður Björnsson, sviðstjóri í Rannís, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti,
  • Hildur Sif Arnardóttir, verkefnastjóri í Nýsköpunarmiðstöð Íslands, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Valferlið fór þannig fram að hvert verkefni var lesið yfir af þremur nefndarmönnum og voru 20 verkefni metin styrkhæf eftir fyrstu yfirferð og þá í framhaldi metin af öllum nefndarmönnum. Fjárfestingu var veitt til verkefna í samræmi við niðurstöðu valnefndar, innan ramma fjárfestingarinnar. Frekari umfjöllun um verkefnin verður birt í lok átaksins  í apríl 2021.

Hakkaþon og heilbrigðismót

Fjárfestingarátakið hljóðaði alls upp á 150 m.kr. en því var skipt upp í þrjá þætti. Auk fjármögnunar verkefna var haldið hakkaþon „Hack the crisis Iceland“ þar sem keppt var um besta verkefnið innan fjögurra mismunandi flokka og var nýsköpun í heilbrigðisþjónustu einn þeirra. Verkefnið sem vann í þeim flokki nefnist Futuristics og snýr að því að nota gögn innan Landspítala til þess að spá fyrir um fjölda sjúklinga á bráðamóttöku. Þá var haldið Heilbrigðismót þar sem 16 opinberir aðilar settu fram áskoranir og 32 fyrirtæki kynntu mögulegar lausnir sínar við þeim. Í kjölfarið á því móti urðu til viðskiptasambönd og aðilar sóttu saman um í fjárfestingarátakinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta