Hoppa yfir valmynd
12. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mótun landsáætlunar í mannréttindamálum hafin

Haldinn var fyrir helgina fyrsti fundur á vegum innanríkisráðuneytisins í röð funda um mannréttindamál. Var þar fjallað um fyrirtöku vegna stöðu mannréttinda á Íslandi hjá mannréttindaráði  Sameinuðu þjóðanna og um samning Evrópuráðsins um bann við kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi
Fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindi hófst 9. desember
Fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindi hófst 9. desember

Tilefni þessa fyrsta fundar var alþjóðlegi mannréttindadagurinn, 10. desember, en Sameinuðu þjóðirnar hvetja aðildarlönd til að taka mannréttindamál til sérstakrar umfjöllunar þann dag.

Fundurinn hófst með ávarpi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Hann sagði að í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og leiðbeiningar SÞ hafi ráðuneytið hafið undirbúning við mótun landsáætlunar í mannréttindamálum. Hann sagði liggja fyrir niðurstöður frum greiningarvinnu í tengslum við undirbúning landsáætlunar, bæði hvað varði form og efni slíkrar áætlunar og að vinna að undirbúningi hennar væri hafin. ,,Því er ljóst að ekki aðeins liggur fyrir pólítískur vilji og fagleg greining á verkefnunum sem liggja fyrir í málaflokknum, heldur er tækifæri fólgið í tímasetningum á aðhaldi alþjóðasamfélagsins með framkvæmd mannréttindamála á Íslandi,” sagði ráðherra ennfremur.

Fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindi hófst 9. desember

Ráðherra sagði drög að verkefnaáætlun að mótun áætlunarinnar liggja fyrir og að  meginsjónarmið við ákvörðun um vinnuferli og verklag sé mikil áhersla á að viðhafa víðtækt og markvisst samráð við aðila innan Stjórnarráðsins og undirstofnana þess, sem og við hagsmunaaðila, fræðasamfélagið og frjáls félagasamtök.

Áhersla verður lögð á nýja sýn varðandi mannréttindamál í samfélaginu, þ.e. ekki aðeins mannréttindavinnu á grundvelli alþjóðasamninga og stjórnarskrár, heldur einnig á þá áherslu að mannréttindasjónarmið séu undirstaða allrar stefnumörkunar í samfélaginu og vinnu stjórnvalda. Stefnt er að hinni eiginlegu stefnumótunarvinnu ljúki með framlagningu þingmáls á Alþingi í október 2012.

Tveir hópar móta landsáætlunina

Tveir hópar munu starfa að mótun landsáætlunarinnar, annars vegar nefnd skipuð fulltrúum ráðuneytanna sem mun annast m.a. úrvinnslu ábendinga í tengslum við fyrirtöku á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og dragi vagninn í stefnumótunarvinnunni og hins vegar vettvangur sem leiðir saman fulltrúa félagasamtaka, fræðasamfélagsins og stjórnvalda við stefnumótunina. Hluti af þeim vettvangi verður röð mánaðarlegra morgunverðarfunda þar sem fjallað verður um mannréttindi í víðum skilningi.

Að loknu ávarpi innanríkisráðherra greindu fulltrúar í sendinefnd Íslands frá helstu niðurstöðum og ábendingum sem komu í kjölfar fyrirtöku mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Genf í október síðastliðnum en innanríkisráðherra fór fyrir sendinefndinni. Þar komu fram fjölmörg sjónarmið en eitt þeirra atriða sem stóð uppúr voru áhyggjur alþjóðasamfélagsins af kynbundnu ofbeldi á Íslandi.

Þetta væri meðal annars kveikjan að umræðuefni seinni hluta fundarins.

Fluttur var fyrirlestur um samning Evrópuráðsins um bann við kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi og þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld þurfa að grípa til svo fullgilda megi samninginn. Johanna Nelles, sérfræðingur frá Evrópuráðinu sem hefur unnið að gerð samningsins, fjallaði um efni hans og mögulega framkvæmd.

Taka þarf gagnavinnslu föstum tökum

Í pallborðsumræðum að loknu erindinu ræddu fulltrúar nokkurra hagsmunaaðila ýmsar hliðar mannréttindamála. Í pallborði sátu fulltrúar UNWomen - íslensk landsnefnd, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisstofu, Stígamóta, Kvennaathvarfsins auk Ingólfs V. Gíslasonar, dósents í félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Ingólfur lagði áherslu á að mikilvægt væri að tryggja að söfnun og úrvinnsla gagna eins og kveðið væri á um í samningum yrði tekin föstum tökum á Íslandi og að mikilvægt væri að samræma stofnanir og aðila sem komi að málaflokknum.

Fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindi hófst 9. desemberFulltrúi Jafnréttisstofu sagði að það væri mikið áhyggjuefni að úti á landi hefði komið upp tilvik þar sem lögreglan þekkti ekki ákvæði laganna um austurrísku leiðina sem snýst um að banna mönnum sem sýnt hafa af sér ofbeldi aðgang að heimili sínu eða beittu þeim að minnsta kosti  ekki. Einnig að mikilvægt væri að taka afstöðu til þess hvað eigi að gera við ofbeldismenn þegar er búið að taka þá út af heimilinu og varpaði fram vangaveltum um meðferðarúrræði í tengslum við við ákvæði samningsins. Hann benti einnig á að eigi að fullgilda samninginn þurfi að leiða í íslensk lög ákvæði um heiðursglæpi.

Hjá Kvennaathvarfi var bent á að betri aðbúnað vanti og fagnað var ákvæði í samningnum sem skyldar ríki til að bjóða uppá fullnægjandi athvörf fyrir þolendur. Einnig var vakin athygli á stöðu erlendra kvenna – sérstaklega frá ríkjum utan EES.

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, var almennt ánægð með samninginn og þótti bæði sjónarmið og áherslur sem þar birtast á réttum forsendum. Henni þótt þó að orðalagið hefði mátt verið beinskeyttara, og vísaði þá til þess að talað er um að konur verði fyrir ofbeldi en sjónum hefði mátt beina meira að gerandanum.

Af hálfu UN Women var bent á að ofbeldi gegn konum væri alheimsvandamál, forvarnir væru mikilvægar og kölluðu eftir því að stjórnvöld veittu fjármagni í vitundarvakningu og að á niðurskurðartímum væri það fjárhagslega hagkvæmt að styðja við forvarnarverkefni. Í því samhengi var vísað til nýlegrar úttektar Ástrala á hversu mikill kostnaður samfélagsins væri af því að beita ofbeldi gegn konum og börnum þeirra og var niðurstaðan var sú að tilkostnaður Ástrala næmi sem samsvaraði um 1.600 milljörðum íslenskra króna á ári. Yfirfært í íslenskt samhengi mætti áætla að kostnaður íslensks samfélags væri um 22 milljarða á hverju ári.

Af hálfu Stígamóta var bent á að í samninginn er hvergi er minnst á klám, vændi og mansal en í samninginum er reynt að skilgreina alvarlegustu form ofbeldis gegn konum.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta