Samráð um starfsstöðvar nýrra embætta lögreglustjóra og sýslumanna
Frestur til að skila inn umsögnum og ábendingum vegna nýrra embætta sýslumanna og lögreglustjóra hefur verið framlengdur til 14. júlí.
Sem kunnugt er samþykkti Alþingi sl. vor tvö frumvörp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um breytingar á lögum um umdæmaskipan lögreglustjóra og sýslumanna. Með lögunum er embættum sýslumanna fækkað úr 24 í níu og lögregluumdæmum úr 15 í níu.
Þann 4. júní sl. birti ráðuneytið til kynningar og samráðs umræðuskjöl um umdæmamörk og starfsstöðvar nýrra embætta lögreglustjóra og sýslumanna, sjá nánar hér. Frestur til að skila inn umsögnum var til 1. júlí sl.
Að gefnu tilefni skal það tekið fram að þær hugmyndir sem þar er að finna eru settar fram til að fá fram ábendingar og sjónarmið þeirra sem málið varðar og fela þær því ekki í sér endanlega ákvörðun ráðherra. Þá skal tekið fram að þar sem eitt markmið þessara breytinga er að tryggja öfluga þjónustu sýslumanna og lögreglustjóra um land allt munu þær ekki fela í sér fækkun eða tilflutning núverandi starfsstöðva á landsbyggðinni og munu því íbúar áfram geta sótt þangað þjónustu.
Þar sem umsagnir og ábendingar eru enn að berast ráðuneytinu hefur verið ákveðið að framlengja umsagnarfrestinn til mánudagsins 14. júlí nk.
Undirbúningur nýrra laga um umdæmaskipan lögreglustjóra og sýslumanna hefur staðið yfir lengi. Innanríkisráðherra kynnti fyrirhugaðar breytingar á fundum víða um land sl. vetur, með fulltrúum embættanna, sveitarstjórnarfulltrúum, landshlutasamtökum og fl. og nú hefur sem fyrr segir verð leitað eftir frekari samráði við hluteigandi aðila um umdæmamörk og starfsstöðvar nýrra embætta.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra:
„Tilgangurinn með stærri rekstrareiningum sýslumannsembætta er að auka og efla þjónustu ríkisins í héraði og skapa aukin tækifæri til að færa ný verkefni til sýslumanna. Það sama gildir um umdæmi lögreglustjóra, þar sem markmiðið er að auka samhæfingu og samstarf og standa vörð um grunnþjónustu lögreglunnar. Allan þann tíma sem unnið hefur verið að þessu máli höfum við lagt áherslu á náið samráð við hluteigandi aðila, þ.e. embættin sjálf, sveitastjórnir, landshlutasamtök og fleiri. Það samráð hefur gefist vel og málið verið unnið í mikilli sátt. Á sama tíma og við gefum aðilum tækifæri til að koma með athugasemdir og ábendingar, stendur yfir ráðningarferli vegna sýslumanna og lögreglustjóra. Í framhaldi af því tekur verkefnisstjórn í hverjum landshluta til við að útfæra tillögur til ráðherra um staðsetningu, fyrirkomulag og framkvæmd. Ég er sannfærð um að sú vinna mun takast jafn vel og skila jafn miklum árangri og sú sátt sem náðst hefur um þessar mikilvægu breytingar."