Umfjöllun um staðgöngumæðrun
Í ljósi umræðu um staðgöngumæðrun er vakin athygli á umfjöllun vinnuhóps heilbrigðisráðherra um málið frá 5. febrúar á síðasta ári, ásamt lokaáliti vinnuhópsins frá 7. júní 2010. Einnig liggur nú fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um staðgöngumæðrun.
Í lok janúar 2009 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra vinnuhóp sem falið var að skoða siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun og hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun hér á landi. Í vinnuhópnum voru Guðríður Þorsteinsdóttir sviðsstjóri lagasviðs ráðuneytisins, Kristján Oddsson yfirlæknir og Ástríður Stefánsdóttir dósent við Háskóla Íslands.
Áfangaskýrsla vinnuhópsins
Hópurinn skilaði áfangaskýrslu 5. febrúar 2010 þar sem siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni eru reifuð. Einnig er í skýrslunni fjallað um lagalega stöðu þessara mála annars staðar á Norðurlöndunum og fleiri Evrópulöndum og í Bandaríkjunum, Ísrael og á Indlandi. Fram kemur að staðgöngumæðrun er hvergi heimil á Norðurlöndunum þótt löggjöf landanna sé misskýr hvað þetta varðar. Í flestum öðrum löndum Evrópu er staðgöngumæðrun ekki leyfð og þá ýmist bönnuð með beinum lagaákvæðum eða að ákvæði annarra laga koma í veg fyrir að staðgöngumæðrun sé heimil, til dæmis ákvæði laga um tæknifrjóvgun eða ættleiðingu. Staðgöngumæðrun er til dæmis leyfð með lögum í Rússlandi, Ungverjalandi og Úkraníu með misströngum skilyrðum og í nokkrum löndum er hún leyfð í velgjörðarskyni. Þá eru nokkrar þjóðir sem hafa enga löggjöf eða lagaákvæði um staðgöngumæðrun og því ekkert sem stendur í vegi fyrir henni.
Lokaniðurstaða vinnuhópsins
Í júní 2010 skilaði vinnuhópur heilbrigðisráðherra lokaniðurstöðu sinni og var það mat hans að ekki væri tímabært að leyfa staðgöngumæðrun á Íslandi að svo stöddu. Í lokaáliti sínu hvetur vinnuhópurinn til frekari umræðu um staðgöngumæðrun, leggur áherslu á nauðsyn þess að almenn sátt náist um málið og að hagasmuna allra aðila sé gætt. Þá sé rétt að fylgjast með þróun þessara mála hjá öðrum Norðurlandaþjóðum og æskilegt að eiga samleið með þeim um hvort, hvenær og með hvaða takmörkunum staðgöngumæðrun verði leyfð hér á landi.
Þingsályktunartillaga um staðgöngumæðrun
Nú liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga sem hópur þingmanna lagði fram í lok nóvember á liðnu ári. Þar er lagt til að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun. Lagt er til að staðgöngumæðrun verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni og að sett verði ströng skilyrði fyrir staðgöngumæðrun til að tryggja sem best réttindi, skyldur og staðgöngumæðra, væntanlegra foreldra og hagsmuni barnanna.
Velferðarráðherra hvetur til opinnar og hreinskiptinnar umræðu
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur átt fund með fulltrúum staðgöngumæðra og hvatt til opinnar og hreinskiptinnar umræðu um málið. „Álitamálin eru mörg og mikilvægt að vanda lagaundirbúning sem heimilar staðgöngumæðrun svo tryggja megi hag barnanna og mæðranna sem best.“