Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 719/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 719/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17110050

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa í máli [...]

 

Málsatvik

Þann 14. nóvember 2017 féllst kærunefnd útlendingamála á endurupptöku á úrskurði nefndarinnar, dags. 14. september 2017, þar sem staðfest var ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. júlí 2017, um brottvísun [...], ríkisborgara [...], og endurkomubann til landsins í 15 ár. Með úrskurði kærunefndar þann 14. nóvember 2017 var ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun aðila staðfest og honum ákveðið endurkomubann til landsins í 10 ár. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir aðila þann 17. nóvember 2017 og þann 22. nóvember 2017 barst kærunefnd beiðni aðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar, en beiðninni fylgdu athugasemdir aðila.

Aðili krefst þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hann fer með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Málsástæður aðila

Aðili byggir kröfu um frestun réttaráhrifa aðallega á því að eiginkona hans sé barnshafandi og að ákvörðun um brottvísun yrði henni og fjölskyldu þeirra þungbær. Fram kemur að eiginkona aðila sé komin [...] á leið. Þá hafi aðili vilyrði fyrir vinnu þegar hann ljúki afplánun refsingar. Byggir aðili á því að um verulega breyttar aðstæður sé að ræða. Hann hafi verið til fyrirmyndar í afplánun og horfi nú til reynslulausnar. Er hann losni úr fangelsi hyggist hann hefja vinnu, styðja við fjölskyldu sína og létta álagi af eiginkonu sinni. Aðili vísar til viðtals við [...] um aðstæður hans en fyrir liggi að kanna réttarstöðu hans með tilliti til þess að hann hafi gleymst öllum. Þá bendir aðili á að kærunefnd hafi stytt endurkomubann úr 15 árum í 10 ár með hliðsjón af aðstæðum hans og því tekið undir sjónarmið hans að hluta til. Sé því öðru fremur þörf fyrir umfjöllun dómstóla um mál hans. Að lokum bendir aðili á að hann hafi enga tengingu við heimaríki og að allt hans líf sé hér.

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum aðila af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi aðila óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi hans að dómstólum eða hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Í beiðni aðila um frestun réttaráhrifa kemur fram að eiginkona hans sé barnshafandi og að hún sé komin um [...] á leið. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð til staðfestingar á því. Þá liggja fyrir upplýsingar um að aðila hafi verið veitt reynslulausn úr fangelsi. Kærunefnd telur að líta verði til þess að aðstæður aðila eru um margt óvenjulegar. Þar á meðal má nefna lengd dvalar aðila hér á landi, þau tengsl sem hann hefur myndað við eiginkonu sína, hagsmuni aðila af samvistum við hana og og sú hætta að þau tengsl rofni varanlega dvelji aðili erlendis á meðan hann rekur mál sitt hér á landi, enda hefur eiginkona aðila takmarkaða möguleika til að dvelja með honum á þeim tíma í ljósi stöðu hennar. Að mati kærunefndar vega þessar sérstöku aðstæður kæranda þungt við mat á því hvort ástæða sé til þess að fresta framkvæmd úrskurðar í máli hans.

Þá lítur kærunefnd til þess að í máli kæranda hafi komið fram álitaefni sem rétt sé, í þágu sjónarmiða um réttaröryggi og fyrirsjáanleika, að fá skorið úr um fyrir dómstólum. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. júní 2017 í máli nr. E-3940/2015. Þá hefur nefndin einnig haft hliðsjón af því að mál til ógildingar á úrskurði kærunefndar hefur þegar verið höfðað.

Á grundvelli heildarmats á öllum aðstæðum aðila telur kærunefnd að ástæða sé til að fresta réttaráhrifum á úrskurði kærunefndar um brottvísun og endurkomubann aðila, dags. 14. nóvember 2017, meðan aðili rekur mál sitt fyrir dómstólum, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, með þeim skilyrðum sem koma fram í ákvæðinu og áréttuð eru í úrskurðarorði.

Kæranda er leiðbeint um að uppfylli hann ekki nefnd skilyrði kann úrskurður kærunefndar, dags. 14. nóvember 2017, í máli kæranda að verða framkvæmdarhæfur.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli aðila, dags. 14. nóvember 2017, er frestað á meðan aðili rekur máls sitt fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun í máli sínu á stjórnsýslustigi. Frestun réttaráhrifa úrskurðarins er bundin því skilyrði að aðili hafi borið málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar þessarar og óski eftir flýtimeðferð. Sé beiðni um flýtimeðferð synjað skal þá höfðað mál innan sjö daga frá þeirri synjun.

The legal effects of the decision of the appeals board in the case of the applicant, dated 14 November 2017, are suspended during the time that the applicant’s legal proceedings for the annulment of the final administrative decision in the applicant’s case are under way. The suspension of legal effects is subject to the condition that the applicant brings the case to court within five days of the date of the notification of this decision and requests accelerated procedures. If the request for accelerated procedures is denied the applicant shall initiate legal proceedings before a court within seven days of that denial.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                                           Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta