Kerfislægur vandi má ekki bitna á börnunum sem þurfa þjónustu
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, telur að styrkja megi starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og bæta þjónustu hennar með stofnun landshlutateyma. Ráðherra ræddi m.a. um þetta í setningarræðu á vorráðstefnu stofnunarinnar í dag og sagði jafnframt ótækt að kerfislægur vandi bitnaði á börnum með brýna þörf fyrir sérfræðiþjónustu.
Ráðherra sagðist í ávarpi sínu hafa rætt við forstöðumann Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar í tengslum við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks um áherslur inn í áætlunina til að styrkja og styðja við þjónustuhlutverk stofnunarinnar. Fulltrúar stofnunarinna í nefnd um framkvæmdaáætlunina hafa nú skilað inn tillögum hvað þetta varðar og sagði ráðherra í ávarpi sínu að þær muni fá verðugan sess í áætluninni.
Meðal annars er lagt til að sett verði í áætlun viðmið um biðlista fyrir greiningar hjá börnum og einnig að sett verði markmið um hámarksbið eftir þjónustu ásamt aðgerðaáætlun til að ná því markmiði. Stofnun sérstakra landshlutateyma er ein af tillögunum um áhersluþætti inn í framkvæmdaáætlunina og segist ráðherra orðið brýnt að koma slíkum teymum á fót: „Með þeim er tvímælalaust hægt að auka samfellu í þjónustu, veita meiri þjónustu og stuðning í nærumhverfinu og auka þar með lífsgæði barnanna og fjölskyldna þeirra. Binda má vonir við að með því að efla þjónustuna út um land og efla þannig sérfræðiþjónustu sem veitt er hjá sveitarfélögunum muni skapast aukið svigrúm þriðja stigs þekkingar- og þjónustustofnana til að annast þau sérhæfðu verkefni sem þeim eru ætluð. Ef þetta gengur eftir er það í allra þágu“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló minntist í ræðu sinni á nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga þar sem sjónum er beint að þjónustu á öðru og þriðja þjónustustigi. Hún sagði þar koma fram margar gagnlegar upplýsingar og ábendingar til úrbóta. Eins væru þar nefnd ýmis vandamál sem oft hafa verið til umfjöllunar en ekki tekist að finna viðunandi lausnir. Þar vegi þungt umfjöllun um samstarf milli stjórnsýslustiga og þjónustukerfa og skörun þar á milli, svokölluð grá svæði: „Þetta er ekki einfalt úrlausnarefni – en við verðum öll að hafa í huga þá skyldu að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að kerfislægur vandi bitni ekki á þeim sem þurfa á þjónustu að halda“ sagði ráðherra meðal annars.
„Það finnast yfirleitt lausnir á öllum vandamálum, eða a.m.k. nýjar og betri leiðir til að takast á við þau ef að er gáð. [...] Af hálfu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar hefur verið talað fyrir landshlutateymum sem myndu veita börnum þjónustu óháð því hvort þau væru með röskun í taugaþroska eða geðröskun. Engin vandamál barna væru þessum teymum óviðkomandi og þar með væri girt fyrir núverandi ástand þar sem börn falla á milli kerfa og fá ekki lögbundna þjónustu vegna stofnanalegra skilgreininga."