Hoppa yfir valmynd
10. október 2012 Utanríkisráðuneytið

Jákvæð framvinduskýrsla um Ísland

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í dag skýrslu um framvindu samningaviðræðna Íslands og ESB um aðild að sambandinu. Skýrslan er jákvæð um Ísland og kemur fram að aðild Íslands komi báðum til góða.  Sameiginlegir hagsmunir Íslands og Evrópusambandsins fari vaxandi, t.d. varðandi endurnýjanlega orkugjafa og loftslagsbreytingar og mikilvægi Norðurslóða.  ESB telur einnig að hin sterka lýðræðislega hefð á Íslandi komi sambandinu til góða.

Framkvæmdastjórnin er þess fullviss að ESB muni takast að kynna heildarlausn fyrir viðræðurnar sem muni taka tillit til sérstöðu Íslands og væntinga innan ramma viðræðnanna og að virtum meginreglum og regluverki ESB. Fram kemur að aðildarviðræðurnar gangi vel, og er staðan öllum málaflokkum reifuð, enda sé íslensk löggjöf að stórum hluta í samræmi við regluverk ESB vegna aðildar Íslands að EES-samningnum og fullri þátttöku í Schengen-samstarfinu.  

Í framvinduskýrslunni er lagt ítarlegt mat á þróun efnahags- og stjórnmála á Íslandi frá útgáfu síðustu skýrslu fyrir ári síðan. Meðal annars kemur fram að eftir djúpa og langvarandi efnahagslægð hafi hagvöxtur náðst á árunum 2011-2012 með tilheyrandi bættum efnahagsskilyrðum. Vikið er að getu Íslands til að takast á hendur skuldbindingar sem aðild að ESB hefði í för með sér.  Þá er greint frá því í skýrslunni að Ísland uppfylli áfram öll pólitísk skilyrði fyrir aðild að ESB.  Tekið er fram að Ísland sé vel starfshæft lýðræðisríki með styrkar stoðir og sterkar hefðir í fulltrúarlýðræði, réttarvörslukerfið sé öflugt og vernd grundvallarréttinda tryggð.  

Efnislegar samningaviðræður um aðild Íslands að ESB hófust hinn 27. júní 2011.  Af samtals 33 samningsköflum hafa samningaviðræður nú verið hafnar um 18 kafla, og þar af hefur viðræðum verið lokið til bráðabirgða í 10 köflum.  Næsta ríkjaráðstefna Íslands og ESB verður haldinn í Brussel miðvikudaginn 24. október 2012 og er gert ráð fyrir opnun nokkurra samningkafla á þeirri ráðstefnu.

Niðurstöður um Ísland í skjali framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuþingsins og ráðsins um stækkunarstefnu og helstu áskoranir 2012-2013:

Framvinduskýrsla framkvæmdastjórnar ESB um Ísland fyrir árið 2012:


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta