Hoppa yfir valmynd
21. október 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Bílanefnd ríkisins lögð niður

Með breytingu á reglugerð um bifreiðamál ríkisins hefur bílanefnd verið lögð niður og ábyrgð og eftirlitshlutverk nefndarinnar færð yfir til forstöðumanna stofnana.

Bílanefnd hafði það hlutverk að aðstoða fjármála- og efnahagsráðuneytið við framfylgni reglugerðarinnar. Kaup á bifreiðum, rekstrarleiga, aksturssamningar og notkun starfsmanna á bifreiðum stofnunar utan vinnu fóru fram að fengnu samþykki nefndarinnar. Þá hafði nefndin hlutverk í að koma á sameiginlegum innkaupum stofnana á bílum og framfylgni ríkisstjórnarinnar á þeirri ákvörðun að stofnanir skulu aðeins kaupa rafmagnsbíla, en mikill árangur hefur náðst í orkuskiptum á fólksbílum ríkisins.

Nefndin er lögð niður í samræmi við stefnu stjórnvalda um fækkun nefnda, en Ríkisendurskoðun hefur jafnframt lagt til að nefndin verði lögð niður.

Munu forstöðumenn hér eftir taka ákvarðanir um kaup og leigu bíla sem ekki þurfa að fara fram að fengnu samþykki nefndarinnar, í samræmi við aðrar rekstrarlegar ákvarðanir sem eru á ábyrgð forstöðumanna.

Í ábyrgðinni felst að bílakaup fari, eins og verið hefur, fram í samræmi við áherslur í ríkisrekstri, aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og innkaupasetefnu ríkisins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta