Hoppa yfir valmynd
14. mars 2007 Forsætisráðuneytið

A-247/2007 Úrskurður frá 6. mars 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 6. mars 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-247/2007:


Með bréfi, dags. 5. febrúar sl., er barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál 14. febrúar sl., óskaði [...] eftir því að kannað verði hvort „sá listi sem tilgreindur er í kunnri Þjóðmálagrein, [X] sé enn til í íslenskum eða bandarískum gögnum .... [yfir] menn með ákveðnar stjórnmálaskoðanir er útiloka skyldi frá vissum störfum á vegum ríkisins.“ Jafnframt er tekið fram að óskað sé upplýsinga um hvort tilteknar yfirlýsingar dóms- og kirkjumálaráðherra byggi á skrám sem kunni að vera til í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu eða á skrám sem þar séu færðar.

Ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, eru á því byggð að sá sem óskar eftir því að nýta sér rétt sinn til aðgangs að upplýsingum hjá stjórnvöldum skuli beina beiðni sinni um tiltekin gögn eða upplýsingar um tiltekið mál, sbr. 3. og 10. gr. upplýsingalaga, til hlutaðeigandi stjórnvalds. Hafi slíkri beiðni verið synjað er heimilt að bera hana undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 14. gr. laganna.

Að mati úrskurðarnefndarinnar felur erindi [...] í sér beiðni um aðgang að nánar tilgreindum gögnum og upplýsingum. Af erindinu og fylgiskjali þess verður ekki séð að fyrir liggi synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins eða utanríkisráðuneytisins, á beiðni [...] um aðgang að gögnum eða upplýsingum um tiltekið mál, sem kært verður til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Ber því að vísa beiðni hennar frá nefndinni.

Þar sem beiðni [...] varðar starfssvið dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, sem fer með samkipti við önnur ríki, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er beiðnin framsend dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu til meðferðar.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni [...] um aðgang að skrám yfir íslenska menn með ákveðnar stjórnmálaskoðanir er vísað frá úrskurðarnefnd.
Beiðni [...] um aðgang að skrám yfir íslenska menn með ákveðnar stjórnmálaskoðanir er áframsend dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu til meðferðar.


Páll Hreinsson
formaður


                                     Friðgeir Björnsson                                                           Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta