Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2007 Forsætisráðuneytið

A-249/2007 Úrskurður frá 29. mars 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 29. mars 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-249/2007:

Kæruefni

Hinn 15. janúar 2007 kærði [...] synjun Ríkisútvarpsins, dags. 9. janúar sl., um aðgang að upplýsingum um kostnað stofnunarinnar við Áramótaskaupið 2006.
Með bréfi, dags. 15. febrúar 2007, var kæran kynnt Ríkisútvarpinu og stofnuninni veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til 26. febrúar sl. Jafnframt var þess óskað að Ríkisútvarpið léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að innan sama frests. Í umsögn lögmanns Ríkisútvarpsins, dags. 26. febrúar sl., er kröfu kæranda hafnað.
Með bréfi, dags. 28. febrúar sl., var kæranda var veittur frestur til 9. mars sl. til þess að tjá sig um umsögn Ríkisútvarpsins. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni 14. mars sl. með bréfi hans, dags. 8. mars sl.
Með bréfi, dags. 19. mars sl. var fyrirtækinu [A] ehf. veittur frestur til 25. mars sl. til þess að upplýsa nefndina, hvort fyrirtækið teldi eitthvað vera því til fyrirstöðu að veita kæranda aðgang að þeim gögnum sem kæra hans laut að og með hvaða hætti hagsmunir þess gætu hlotið skaða af yrði kæranda veittur aðgangur að þeim. Í svarbréfi fyrirtækisins, dags. 23. mars sl., er lagst gegn afhendingu samnings þess og Ríkisútvarpsins um gerð Áramótaskaupsins 2006. Athugasemdir kæranda við umsögn [A] ehf. bárust nefndinni með tölvubréfi hans, dags. 27. mars sl.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með munnlegri beiðni fór kærandi þess á leit að fá aðgang að gögnum um kostnað Ríkisútvarpsins við gerð Áramótaskaups 2006. Með bréfi framkvæmdastjóra Sjónvarps, dags. 9. janúar sl., var beiðninni synjað með vísan til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga Tekið er fram að byggja verði á því að sjónvarpsstöð í opinberri eign, sem sé í samkeppnisrekstri, eigi að vera jafnsett sjónvarpsstöðvum í einkaeign. Þar sem slíkum sjónvarpsstöðum sé óskylt að verða við beiðni um aðgang að sambærilegum gögnum verði að telja að Ríkisútvarpið sé það einnig óskylt.
Í umsögn lögmanns Ríkisútvarpsins er vísað til þess að í þeim gögnum, sem geymi upplýsingar um kæruefnið, séu upplýsingar um kostnað annars vegar af greiðslum til viðsemjanda stofnunarinnar og hins vegar framlagi hennar sjálfrar til verkefnisins, svo sem föstum mannafla og búnaði. Er því mótmælt að stofnuninni sé skylt að afhenda samning við samstarfsaðila sinn. Vakin er athygli á því að kæran lúti hvorki að tilteknu gagni né gögnum tiltekins máls eins og tilskilið sé, heldur aðeins að upplýst verið um tiltekna fjárhæð. Ennfremur er vísað til þess að ákvæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga sé ætlað að hafa þau áhrif að opinberir aðilar, sem keppa við aðra á frjálsum markaði, standi jafnfætis keppinautum sínum að því er snerti skyldu til að veita upplýsingar um viðskipti sín. Upplýsingar um verðákvarðanir í samningum við verktaka um framleiðslu efnis og um eigin framlag í samstarfsverkefnum geti nýst samkeppnisaðila og þar með veikt samkeppnisstöðu þess sem verði skyldaður til að afhenda samkeppnisaðila sínum slíkar upplýsingar.
Í athugasemdum lögmanns kæranda er því lýst að beiðnin uppfylli skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. þar sem sá sem óski eftir aðgangi að gögnum geti óskað eftir því að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða. Jafnframt er vísað til þess að utantekningar frá upplýsingarétti almennings, sbr. 3. gr. laganna beri að skýra þröngt. Þannig sé rakið í athugasemdum með 3. tölul. 6. gr. að markmið frumvarps þess er varð að upplýsingalögum sé meðal annars að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri til að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum sé varið. Óheftur réttur til upplýsinga geti hins vegar skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja þegar hið opinbera keppi á markaði við einkaaðila sem ekki séu skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Að mati kæranda geti þessar röksemdir ekki átt við um kostnað við gerð áramótaskaups. Eingöngu hafi verið óskað eftir upplýsingum um heildarkostnað Ríkisútvarpsins af gerð áramótaskaups en ekki sundurgreindar upplýsingar. Undantekningarregla 3. tölul. 6. gr. eigi því ekki við í máli þessu og hljóti meginreglan um upplýsingarétt almennings að ganga framar í þessu máli.
Í umsögn fyrirtækisins [A] ehf. ert lagst gegn því að kærandi fái aðgang að verksamningi þess og Ríkisútvarpsins frá 29. september 2006. Hafi efni samningsins verið trúnaðarmál milli samningsaðila, sbr. síðari málslið 5. gr. upplýsingalaga. Í samningnum komi fram viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu og þar af leiðandi viðkvæma viðskiptahagsmuni. Af hálfu kæranda er í umsögn hans 27. mars sl. áréttað að hann hafi ekki óskað eftir aðgangi að umræddum samningi heldur einungis að fá uppgefinn kostnað Ríkisútvarpsins vegna Áramótsskaupsins 2006.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er stjórnvöldum skylt, „... sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. – 6. gr.“ Þá segir í 1. mgr. 10. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, að: „Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn máls sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.“ Framangreind ákvæði eru á því byggð að í beiðni verður að tilgreina gögn máls eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á málinu og gögnum þess.
Ríkisútvarpið hefur fært þau rök fyrir synjun sinni að beiðni kæranda lúti hvorki að tilteknu gagni né gögnum tiltekins máls svo sem tilskilið sé. Af hálfu stofnunarinnar var ekki byggt á þessari röksemd í synjun hennar 9. janúar sl. Kærandi hefur afmarkað beiðni sína við upplýsingar um heildarkostnað Ríkisútvarpsins af gerð Áramótaskaups 2006. Þótt kærandi hafi þannig farið fram á að fá aðgang að tilteknum upplýsingum, án þess að tilgreina þar sérstaklega fyrirliggjandi gögn, verður við það að miða að hann hafi afmarkað beiðni sína við gögn tiltekins máls. Þykir beiðnin því nægilega afmörkuð, sbr. síðari málslið 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, enda verður ekki séð að hún hafi valdið Ríkisútvarpinu vandkvæðum við að hafa uppi á málinu eða gögnum þess.


2.
Ríkisútvarpið hefur látið úrskurðarnefndinni í té verksamning, dags. 29. september 2006, ásamt fylgiskjölum, þ. á m. kostnaðaráætlun sem telst hluti verksamningsins. Geymir áætlunin m.a. upplýsingar um framleiðslukostnað Ríkisútvarpsins af gerð Áramótaskaups 2006, þar sem fram koma m.a. upplýsingar um greiðslur til verktaka og reiknaðan kostnað stofnunarinnar vegna verksins. Verður að byggja á því að beiðni kæranda taki til þessara upplýsinga eingöngu, sbr. einnig tölvubréf hans, dags. 27. mars sl. Af þessari afmörkun kæruefnisins leiðir ennfremur að beiðni kæranda tekur ekki til upplýsinga er falla undir síðari málslið 5. gr. upplýsingalaga.
Þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir að kynna sér eru tilgreindar í nefndri kostnaðaráætlun undir liðnum „Framleiðslukostnaður alls ...“. Synjun Ríkisútvarpsins um afhendingu upplýsinganna er reist á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang að gögnum, „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um ... viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga, að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.“ Samkvæmt upphafi 6. gr. er því aðeins heimilt að takmarka upplýsingar af þessari ástæðu að „mikilvægir almannahagsmunir“ krefjist. Þá kemur fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna að óheftur réttur til upplýsinga geti „... skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína.“ Við úrlausn máls verður að gæta að þessum sjónarmiðum.
Eins og kæruefnið hefur verið afmarkað varðar það ráðstöfun opinberra fjármuna. Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sínum, byggt á því að sjónarmið um það, að upplýsingar um umsamið endurgjald fyrir kaup á þjónustu oppinnberra aðila skuli fara leynt, verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Í því sambandi er ennfremur rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Koma sjónarmið þessi m.a. fram í úrskurðum nefndarinnar í málum A-74/1999, A-133/2001 og A-232/1006. Þegar það er virt sem hér hefur verið rakið, um skýringu á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga og að ekki hefur af hálfu Ríkisútvarpsins verið sýnt fram á að það geti skaðað samkeppnisstöðu stofnunarinnar, verði kæranda veittur aðgangur að umræddum upplýsingum, er það niðurstaða nefndarinnar að veita beri kæranda aðgang að þeim upplýsingum sem er að finna í kostnaðaráætlun með áðurnefndum verksamningi undir liðnum „Framleiðslukostnaður alls“, sbr. 7. gr. upplýsingalaga.

 

Úrskurðarorð:

Ríkisútvarpinu er skylt að veita kæranda, [...] aðgang að upplýsingum, sem tilgreindar eru í liðunum „Framleiðslukostnaður alls“ í kostnaðaráætlun með verksamningi Ríkisútvarpsins og [A] ehf., dags. 29. september 2006.


Páll Hreinsson
formaður


                                                   Friðgeir Björnsson                                 Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta