Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2007 Forsætisráðuneytið

A-250/2007 Úrskurður frá 11. maí 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 11. maí 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-250/2007.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 12. mars 2007, kærði [...] synjun utanríkisráðuneytisins frá 2. mars 2007 um aðgang að upplýsingum um samskipti íslenskra og bandarískra stjórnvalda er varða hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001.
Með bréfi, dags. 14. mars sl., var kæran kynnt utanríkisráðuneytinu og því veittur frestur til 26. mars til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. sl. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins barst nefndinni með bréfi þess, dags. 26. mars. sl.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um umsögn utanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 30. mars sl. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni 5. apríl sl.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 25. desember 2005, óskaði kærandi eftir því að utanríkisráðuneytið léti honum í té svör við eftirtöldum spurningum:
„1. Hafa fulltrúar Bandaríkjanna átt fund með starfsmönnum Utanríkisráðuneytisins í Reykjavík haustið 2001, þar sem lagðar hafa verið fram sannanir um hlutdeild Al Qaeda í fjöldamorðunum 11. september 2001? Ef svo er, hvenær og hvar var þessi fundur haldinn og hverjir hafa verið fulltrúar Íslands sem tóku þátt á þessum fundi?
2. Fengu fulltrúar ráðuneytisins ráðrúm til að kanna  með sjálfstæðum hætti trúverðugleika staðhæfinga bandarískra stjórnvalda um tengsl milli Osama bin Laden og árásanna 11. september 2001?
3. Hefur Utanríkisráðuneytið í vörslu sinni hin meintu sönnunargögn sem Bandaríkjamenn kynnu að hafa lagt fram við fulltrúa Íslands ?
4. Hefur Utanríkisráðuneytið fengið óyggjandi sannanir um að hinir 19 meintu flugræningjar sem bandaríska alríkislögreglan hefur nafngreint hafi farið um borð flugvélanna morguninn 11. september 2001, og ef svo, hvers eðlis eru þessar sannanir.“
Kærandi lýsir því í kæru sinni að hann hafi leitað til umboðsmanns Alþingis vegna dráttar sem varð á því að ráðuneytið svaraði erindi hans. Utanríkisráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dags. 2. mars sl. Er þar vísað til þess að íslensk stjórnvöld ættu í nánu samstarfi við Bandaríkin um varnar- og öryggismál og að gagnkvæmur trúnaður þyrfti að ríkja í samskiptum ríkjanna á þessu sviði. Af þessum sökum teldi ráðuneytið sér ekki unnt að upplýsa nánar hvaða upplýsingar íslensk stjórnvöld hefðu þegið frá Bandaríkjunum um öryggismál þess, enda væri upplýsingagjöf af þeim toga til þess fallin að grafa undan trúnaði og spilla samstarfi ríkjanna. Taldi ráðuneytið því ekki hægt að verða við beiðni kæranda og yrði afstaða þess ekki rökstudd frekar, sbr. 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1991, en að því marki sem 2. mgr. 6. gr. upplýsingalaga yrði lögð henni til grundvallar gæti kærandi borið hana undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Í umsögn utanríkisráðuneytisins er vísað til þess að beiðni kæranda varði ekki nema að hluta ósk um aðgang að gögnum sem fallið geta undir gildissvið upplýsingalaga og með tilvísun til 1. og 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga falli beiðni kæranda utan upplýsingaskyldu á grundvelli upplýsingalaga. Þá sé ennfremur ljóst af gildissviði upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, að ákvæði þeirra taki eingöngu til skriflegra gagna sem fyrirliggjandi séu hjá stjórnvöldum. Tekið er fram að í skjalasafni ráðuneytisins sé ekki að finna nein skrifleg gögn er hafi að geyma upplýsingar frá bandarískum stjórnvöldum frá september til október 2001 um það hverjir hafi borið ábyrgð á  hryðjuverkunum 11. september 2001. Þar sem ekki verði annað séð en beiðni kæranda beinist að aðgangi að slíkum upplýsingnum, og að erindi hans gefi ekki tilefni til þess að leita í skjalasafni ráðuneytisins að sambærilegum upplýsingum frá öðrum tímabilum, sé ekki tilefni til frekari athugasemda við kæruna.
Í athugasemdum kæranda er því lýst að afstaða utanríkisráðuneytisins sé ekki í samræmi við þau markmið upplýsingalaga að draga úr tortryggni almennings í garð stjórnvalda. Hafi beiðnir hans snúist um það að fá að vita á hvaða forsendum Ísland hafi stutt árásarstríð gegn Afganistan haustið 2001, en ráðuneytið hafi neitað að birta þær. Dregur kærandi í efa að ekki finnist eitt einasta skjal um þessar forsendur í fórum utanríkisráðuneytisins.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er stjórnvöldum ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af  7. gr. laganna. Er þetta í samræmi við þá skýringu nefndarinnar á ákvæðinu, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-181/2004, A-239/2007 og A-243/2007, að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi, þegar um þau sé beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki séu fyrirliggjandi þegar eftir þeim sé leitað. Þá leiðir það ennfremur af 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, eins og þeim var breytt með 2. gr. laga nr. 161/2006, að sá sem fer fram á aðgang að gögnum getur annað hvort afmarkað beiðni sína við tiltekin gögn máls eða gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.

Eins og lýst er í málavöxtum fela liðir 1, 2 og 4 í beiðni kæranda ekki í sér ósk um tiltekin gögn, heldur beiðni um svör við nánar tilgreindum spurningum. Að því er varðar lið 3 í beiðni kæranda hefur utanríkisráðuneytið staðhæft að í skjalasafni þess sé „ekki að finna nein skrifleg gögn“ sem ráða megi að falli undir beiðni kæranda. Að mati úrskurðarnefndar liggja ekki fyrir upplýsingar eða gögn sem leiða til þess að draga beri í efa framangreindar fullyrðingar ráðuneytisins.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa kæru þessari frá nefndinni.


Úrskurðarorð:

Ákvörðun utanríkisráðuneytisins frá 2. mars 2007 að synja um aðgang að gögnum, sem ekki eru til í vörslu þess, er staðfest.

 

Páll Hreinsson
formaður


                                                    Friðgeir Björnsson                               Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta