Hoppa yfir valmynd
27. september 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 396/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 396/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22090012

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 18. júlí 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2019, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Sómalíu, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 22. júlí 2019. Hinn 14. apríl 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Hinn 10. september 2020 hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 297/2020. Hinn 5. september 2022 barst kærunefnd önnur beiðni um endurupptöku á framangreindum úrskurði kærunefndar og barst greinargerð sama dag ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.      Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að úrskurður kærunefndar í máli hans hafi verið byggður á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd 5. júlí 2017 en kærunefnd hafi í tvígang vísað máli kæranda aftur til Útlendingastofnunar en að lokum hafi máli hans verið synjað á báðum stjórnsýslustigum með úrskurði kærunefndar dags. 18. júlí 2019. Fram kemur að málinu hafi verið vísað til Ríkislögreglustjóra sem sjái um að framfylgja úrskurðum um brottvísanir. Kærandi hafi fengið gögn frá Ríkislögreglustjóra hinn 4. febrúar 2021. Af gögnunum megi ráða að lítið hafi verið gert til að flytja kæranda frá landinu annað en að fulltrúi Ríkislögreglustjóra hafi sett sig í samband við eþíópískt sendiráð í því augnamiði að reyna að fá ferðaskjöl fyrir eþíópískan ríkisborgara, en hvergi í erindi fulltrúans hafi verið tekið fram að kærandi hafi sjálfur neitað því að vera eþíópískur ríkisborgari. Kærandi hafi óskað eftir endurupptöku málsins hjá kærunefnd hinn 14. apríl 2020 og hafi Útlendingastofnun samdægurs brugðist við með því að spyrja stoðdeild Ríkislögreglustjóra um stöðuna á framkvæmd brottvísunar en af fyrirspurninni virðist stofnunin telja hann þrátt fyrir allt sómalskan ríkisborgara og þá hafi í tölvubréfi vegna móttöku endurupptökubeiðni kærunefndar útlendingamála, verið vísað til kæranda sem sómalsks ríkisborgara. Með endurupptökubeiðni sinni frá 14. apríl 2020 hafi kærandi lagt fram sómalskt vegabréf sem hann hafi orðið sér úti um á löglegan hátt. Nefndin hafi fengið vegabréfið og látið rannsaka það og niðurstöður rannsóknar hafi verið að vegabréfið væri ófalsað og gefið út af þar til bærum yfirvöldum í Sómalíu. Engu að síður hafi nefndin hafnað kröfu kæranda um endurupptöku með úrskurði sínum nr. 297/2020, dags. 10. september 2020.

Fram kemur að kærandi eigi bróður hér á landi og að kæranda hafi enn ekki verið vísað úr landi enda virðist af gögnum frá Ríkislögreglustjóra framkvæmdin stranda á því að sýna eþíópískum yfirvöldum fram á að kærandi sé þarlendur ríkisborgari. Kærandi hafi dvalið hér í um sex ár og ekki sé ágreiningur um að bróðir kæranda hafi komið frá Sómalíu. Stjórnvöld byggi á þeirri ósönnu staðhæfingu að kærandi sé eþíópískur ríkisborgari þó engin skjöl í málinu sýni fram á það. Ekki hafi tekist að vísa honum til Eþíópíu og það nægi eitt og sér til að sýna fram á að ákvarðanir og úrskurðir málsins byggi á röngum forsendum. Í gögnum málsins komi fram að í samskiptum við eþíópísk yfirvöld hafi Ríkislögreglustjóri ekki upplýst yfirvöld um að kærandi neiti því að vera eþíópískur ríkisborgari, né að hann hafi framvísað ófölsuðu sómölsku vegabréfi. Þessi háttsemi íslenskra stjórnvalda sé ámælisverð.

Frá þeim tíma sem nefndin staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar, um að kæranda skyldi vísað frá landinu eins fljótt og verða má, séu liðin rúm þrjú ár. Álykta megi að með því að stjórnvöld hafi með aðgerðarleysi sínu gefið samþykki fyrir veru hans hér á landi. Kærandi hafi ekki farið huldu höfði hér á landi heldur hafi fulltrúar íslenskra stjórnvalda aldrei haft samband við hann um brottvísun.

Ljóst sé að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik enda sé kærandi ekki eþíópískur ríkisborgari. Því sé ákvörðun Útlendingastofnunar óframkvæmanleg og forsendur brostnar. Enn fremur sé byggt á því að atvik hafi breyst verulega. Ljóst sé að hin langa dvöl kæranda hafi styrkt tengsl hans við landið og því ríkari skilyrði fyrir hendi til þess að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli þess. Hann hafi dvalið hér án þess að stunda atvinnu og dvalið hér löglega. Af mannúðarástæðum ætti að gefa honum dvalarleyfi hér á landi til þess að hann geti átt hér eðlilegt líf. Sjái nefndin sér ekki fært að endurskoða fyrri ákvörðun sína er þess farið á leit að hún útskýri hversu mörg ár í viðbót kærandi þurfi að dvelja hér á landi áður en stjórnvöld séu reiðubúin að endurskoða afstöðu sína.

Ásamt beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram yfirlit yfir svör stoðdeildar Ríkislögreglustjóra við gagnabeiðni vegna málsins og dagbókarfærslur Útlendingastofnunar um kæranda vegna málsins. Þá vísar kærandi til gagna sem hann hefur þegar lagt fram við meðferð mála hans hjá íslenskum stjórnvöldum. 

III.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 18. júlí 2019, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt komst nefndin að því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. laganna um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. b- og d-lið ákvæðisins.

Líkt og áður greinir má ráða af beiðni kæranda um endurupptöku að hann telji atvik í máli hans hafi breyst verulega í ljósi þess tíma sem liðið hefur frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, án þess að komið hafi til flutnings hans af landinu. Byggir beiðnin m.a. á því að hann hafi dvalið hér á landi í rúm fimm ár og hafi því myndað rík tengsl við landið og þar sem að íslensk stjórnvöld hafi ekki framfylgt brottvísun í máli kæranda leiði það til þess að honum skuli veitt dvalarleyfi hér á landi. Þá lagði kærandi fram ýmis gögn, s.s. afrit af samskiptum fulltrúa stoðdeildar Ríkislögreglustjóra við eþíópísk stjórnvöld til grundvallar þeirri staðhæfingu sinni að úrskurður kærunefndar frá 18. júlí 2019 hefði byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði samkvæmt 37. og 39. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum við frumvarp til laganna kemur fram að átt sé við endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum á báðum stjórnsýslustigum. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 5. júlí 2017, en úrskurður kærunefndar í máli hans var kveðinn upp hinn 18. júlí 2019, eða um 24 mánuðum eftir að hann lagði fram umsókn sína. Var máli kæranda því ekki lokið á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er um í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur ekki farið af landi brott líkt og lagt var fyrir hann með úrskurði kærunefndar og hefur hann því dvalið hér á landi í um fimm ár og tvo mánuði.

Í úrskurði kærunefndar frá 18. júlí 2019 kemur fram að mati kærunefndar hafi skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga ekki verið uppfyllt í máli kæranda þar sem auðkenni hans hafi ekki verið upplýst. Þá hafi kærandi ekki veitt aðstoð við úrlausn málsins, m.a. þar sem hann hafi ekki gefið viðhlítandi upplýsingar og skýringar á auðkenni sínu og uppruna og gefið rangar upplýsingar um aldur sinn og heimaríki. Þetta hafi meðal annars leitt til þess að tafir hafir orðið á meðferð máls hans á meðan fram hafi farið sérstök rannsókn á aldri hans. Því væri ekki heimilt að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var í úrskurði kærunefndar nr. 297/2020, dags. 10. september 2020, komist að þeirri niðurstöðu að gagn sem kærandi lagði fram með beiðni sinni um endurupptöku, vegabréf útgefið af sómölskum yfirvöldum, væri, í ljósi heildarmats á trúverðugleika frásagnar kæranda og heimildum um útgáfu vegabréfa og annarra skilríkja frá Sómalíu, ótrúverðugt og styddi ekki við frásögn kæranda af því að hann væri sómalskur ríkisborgari. Hefði kærandi því hvorki sýnt fram á auðkenni sitt eða að úrskurður kærunefndar hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Er það mat nefndarinnar að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram með beiðni sinni um endurupptöku séu ekki til þess fallin að breyta framangreindri niðurstöðu nefndarinnar. En þess ber að geta að tölvupóstur um tilkynningu til Útlendingastofnunar um endurupptökubeiðni kæranda byggist á upplýsingum sem skráðar voru inn í málaskrá kærunefndar á þeim tíma sem mál hans var kært til kærunefndar og byggir á upplýsingum frá þáverandi talsmanni kæranda en felur ekki í sér afstöðu nefndarinnar til þjóðernis kæranda.

Þá kemur fram í endurupptökubeiðni kæranda að bróðir hans búi hér á landi og hafi fengið alþjóðlega vernd sem flóttamaður frá Sómalíu. Í framangreindum úrskurði kærunefndar frá 20. september 2020, kemur fram að kærunefnd hafi óskað eftir gögnum frá Útlendingastofnun varðandi ætlaðan bróður kæranda. Í svari stofnunarinnar kom fram að sá aðili hafi fengið vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar. Á þeim tíma hafi ekki verið gerð sérstök könnun á ríkisfangi hans né eiginkonu hans. Að því virtu var það mat kærunefndar að frásögn kæranda af því að umræddur maður væri bróðir hans hafi ekki leitt til þess að fallast bæri á að kærandi hefði sómalskt ríkisfang. Í endurupptökubeiðni kæranda er byggt á sömu sjónarmiðum og tekin var afstaða til í úrskurði kærunefndar frá 20. september 2020 og er það því ekki til þess fallið að breyta þeirri niðurstöðu.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að þótt kærandi hafi dvalið hér á landi í nokkurn tíma eftir að hann hafi fengið niðurstöðu í mál sitt hafi atvik ekki breyst verulega á þann veg að tilefni sé til að verða við beiðni hans um endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur að þau gögn sem kærandi lagði fram til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku hafi ekki að geyma nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 18. júlí 2019 var kveðinn upp, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku málsins.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                  Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta