Fréttapistill vikunnar 27. sept. - 3. okt. 2003
Samkomulag um prestsþjónustuna í Lundúnum
Samkomulag hefur tekist um með hvaða hætti kostnaður vegna prestsembættisins í Lundúnum verður greiddur. Þjóðkirkjan, utanríkisráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins standa undir greiðslum við prestsembættið þar sem þjónusta prestsins er í megin dráttum þríþætt, þ.e. hefðbundin prestsþjónusta, verkefni sem falla að einhverju leyti undir verksvið utanríkisráðuneytisins og aðstoð, eða stuðningur við sjúklinga sem dveljast ytra og eru að einhverju leyti skjólstæðingar Tryggingastofnunar ríkisins. Ágreiningur var um í hvaða hlutföllum greitt yrði fyrir þjónustu prestsins í Lundúnum en hann var leystur með því að nú greiða stofnanirnar sem í hlut eiga kostnað við prestsembættið í hlutfalli við þjónustuna sem veitt er hverri stofnun. Starfhópur aðstoðarmanna fjögurra ráðuneyta, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis, fór yfir fjármögnun prestsembættis í Lundúnum síðsumars, m.a. vegna breyttra forsenda, og leysti málið með þeim hætti sem greint er frá hér að ofan. Í hópnum sátu Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðaráðherra, sem var formaður starfshópsins, Egill Heiðar Gíslason, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Þorsteinn Davíðsson, aðstoðarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra
Páll nýr formaður Lyfjaverðsnefndar
Páll Pétursson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, hefur verið skipaður formaður nýrrar Lyfjaverðsnefndar. Varamaður hans er Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Aðrir nefndarmenn eru Guðlaug Björnsdóttir, viðskiptafræðingur, og Sigurmar K. Albertsson, hæstaréttarlögmaður. Varamaður hans er Jakob R. Möller, hæstaréttarlögmaður. Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra skipar nefndarmennina þrjá til setu á kjörtímabili sínu og er einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands. Hlutverk Lyfjaverðsnefndar er að ákvarða hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum og öllum dýralyfjum í heildsölu og smásölu. Þegar fjallað er um hámarksverð á lyfjum í heildsölu tekur sæti í nefndinni fulltrúi samtaka lyfjaheildsala og þegar fjallað er um hámarksverð í smásölu tekur fulltrúi samtaka lyfsala sæti í nefndinni. Nefndin skal fylgjast með innkaups- og framleiðsluverði lyfja og verðlagningu lyfja í heildsölu og smásölu og taka mið af þeim athugunum við verðákvarðanir sínar.
Endurskilgreining framundan
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra nauðsynlegt að endurskilgeina nokkra grundvallarþætti heilbrigðisþjónustunnar færi svo að heilsugæsla og öldrunarþjónusta yrði flutt til sveitarfélaganna. Ráðherra lagði einnig áherslu á öflugt efnahagslíf og vöxt á því sviði til að standa undir umbótum í velferðarþjónustunni.
RÆÐA RÁÐHERRA...
Skipulag heilbrigðisþjónustu við börn og unglinga með geðraskanir
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd sem gera á tillögur til ráðherra um skipulag heilbrigðisþjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Nefndinni er m.a. ætlað að skila tillögum um hvernig haga skuli þessari þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, hvernig best megi tryggja samspil þjónustuþáttanna, hvaða þjónustuform og rekstarform séu heppilegust og fleira er varðar heildarskipulag heilbrigðisþjónustu við þennan hóp skjólstæðinga. Formaður nefndarinnar er Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn eru Sigurður Guðmundsson, landlæknir. Gísli Baldursson, læknir. Páll Biering, hjúkrunarfræðingur. Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur. Magnús Skúlason, deildarstjóri og Hólmfríður Grímsdóttir, deildarstjóri. Nefndin mun hefja störf nú þegar.
3. október 2003