Fréttapistill vikunnar 11. - 17. október 2003
Dómur Hæstaréttar um skerðingu örorkulífeyris
Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp dóm í máli Ingibjargar Gunnarsdóttur gegn Tryggingastofnun ríkisins sem höfðaði mál gegn stofnuninni í framhaldi af svokölluðu örykjamáli. Dómurinn var kveðinn upp í gær en í honum tekurinn rétturinn á þáttum sem snerta örorkulífeyri, ákvæði stjórnarskrárinnar, fyrningar, afturvirkni laga og eignarrétt.
DOMURINN ...
Nýr bæklingur um HIV og alnæmi á sjö tungumálum
Út er kominn bæklingurinn Staðreyndir um HIV og alnæmi hjá sóttvarnasviði landlæknisembættisins og leysir hann af hólmi bækling um sama efni sem kom út árið 1996. Frá þessu er sagt á heimasíðu embættisins. Nýi bæklingurinn hefur verið endursaminn frá grunni og verður hann innan skamms einnig gefinn út á sex erlendum tungumálum: ensku, pólsku, rússnesku, serbó-króatísku, tagalog og tælensku. Er það nýlunda í útgáfustarfi embættisins og er með því vonast til að bæklingurinn nái til alls þorra fólks í landinu. Meðal efnis í bæklingnum eru skilgreiningar á HIV-smiti og alnæmi, umfjöllun um smitleiðir, hvenær HIV smitast ekki og hvernig er hægt að koma í veg fyrir smit. Mikið hefur verið lagt í útlit bæklingsins sem er litríkur og prýddur fjölda mynda.
NÁNAR...
Dagskrá Heilbrigðisþings 7. nóvember
Háskólasjúkrahús á Íslandi: Framtíðarsýn, hlutverk og samfélagsleg ábyrgð er umfjöllunarefni Heilbrigðisþings sem haldið verður í Salnum í Kópavogi 7. nóvember. Dagskrá þingsins og efni fyrirlestra sem þar verða fluttir byggist á fjórum spurningum er varða þetta efni: 1) Hvernig verður háskólasjúkrahús framtíðarinnar? 2) Hvaða kröfur gerum við til háskólasjúkrahúss? 3) Hvernig verða kennsla, rannsóknir og þjónusta á háskólasjúkrahúsi í framtíðinni? og 4) Hver eru sjónarmið fagaðila, samtaka sjúklinga, aðstandenda og nemenda?
DAGSKRÁ ÞINGSINS...
Alþjóðleg ráðstefna um upplýsingatækni á norðurslóðum
Dagana 20. og 21. október 2003 verður haldin á Akureyri alþjóðleg ráðstefna um upplýsingatækni á norðurslóðum (International Conference on Information and Communication Technology ? ICT). Ráðstefnan er á vegum Norðurskautsráðsins og kemur Stofnun Vilhjálms Stefánssonar að skipulagningu hennar ásamt Háskólanum á Akureyri og öðrum stofnunum. Ríki sem eiga aðild að Norðurskautaráðinu eru Kanada, Danmörk, Finnland, Noregur, Rússland, Svíþjóð og Bandaríkin. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.
DAGSKRÁ ...
Tilkynning frá sóttvarnarlækni um bólusetningu gegn inflúensu
Sóttvarnarlæknir telur að inflúensufaraldur sé hafinn hér á landi. Inflúensa af A stofni hefur greinst á Reykjavíkursvæðinu og einstök tilfelli víðar á landinu. Ekki hafa enn borist upplýsingar frá nágrannalöndunum um faraldra þar. Þetta kemur fram á heimasíðu landlæknisembættisins. Þar er hvatt til þess að bólusetningar gegn inflúensu hefjist sem fyrst og verði að mestu lokið fyrir byrjun nóvember. Á heimasíðu embættisins eru birtar leiðbeiningar sóttvarnarlæknis um inflúensubólusetningar.
NÁNAR...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
17. október 2003