Mál nr. 167/2020
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 167/2020
Miðvikudaginn 30. september 2020
A
gegn
Tryggingastofnun
ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 7. apríl 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. janúar 2020 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 23. október 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. janúar 2020, var umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa samþykkt.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. apríl 2020. Með bréfi, dags. 20. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. maí 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. maí 2020. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda 20. júlí 2020 og voru þau send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júlí 2020. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2020, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. ágúst 2020. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda 16. september 2020 og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi fer fram á að umsókn hennar um styrk til bifreiðakaupa verði samþykkt.
Í kæru kemur fram að kærð sé afgreiðsla Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa. Samþykkt hafi verið uppbót að fjárhæð 360.000 kr., en kærandi telji sig hins vegar eiga rétt á styrk að upphæð 1.440.000 kr. þar sem hún uppfylli þau skilyrði sem fram komi á heimasíðu Tryggingastofnunar um skilyrði styrks til kaupa á bifreið. Í umsókn sinni hafi kærandi tekið fram að hún væri að fara fram á uppbót að fjárhæð 1.440.000 kr.
Kærandi sé hreyfihömluð, að hluta vegna skertrar lungnastarfsemi þar sem hluti lungna hafi verið fjarlægður, hún notist við hækjur að staðaldri og hjólastóla, svo sem við heimsóknir á heilsustofnanir, í verslanir og fleira. Fyrir liggi læknisvottorð varðandi líkamlegt ástand og hreyfihömlun sem hafi fylgt með umsókn um styrk vegna bifreiðakaupa.
Mögulegt sé að fá frekari vottorð vegna þessa frá heimilislækni ef upplýsingar í fyrirliggjandi vottorði séu óskýrar eða að öðru leyti ófullnægjandi.
Í athugasemdum kæranda frá 20. júlí 2020 kemur fram að nýtt læknisvottorð hafi verið lagt fram og þar sé ítarleg greinargerð ásamt mati á hreyfihömlun og þörf fyrir hjálpartæki.
Greint er frá því að kærandi hafi keypt hækjur fyrir nokkrum árum og samfara minnkandi hreyfigetu hafi hún notast við þær og dugi þær dagsdaglega á hennar heimili. Vegna lélegs ónæmiskerfis hafi kærandi verið í nokkurs konar einangrun síðustu ár og hafi farið mjög lítið að heiman. Í þeim tilfellum þegar hún hafi þurft að fara á staði þar sem um lengri vegalendir sé að ræða og hækjur dugi ekki, til dæmis á heilbrigðisstofnanir, í stærri verslanir og á flugstöðvar, hafi hún getað nýtt sér hjólastóla sem séu þar í boði. Kærandi sé reiðubúin að leigja hjólastól eða fá til lengri tíma í gegnum Sjúkratryggingar Íslands eða hjá Stoð eða Sjálfsbjörgu. Þetta sé meðal annars forsenda fyrir lengri ferðalögum innanlands. Það sé skilyrði að bíllinn geti rúmað með góðu móti og aðgengilegu slíkan hjólastól.
Fram kemur í læknisvottorði að hreyfihömlun kæranda sé varanleg og ekki ólíklegt að hún versni frekar á komandi árum. Þar fyrir utan eigi kærandi í miklum erfiðleikum með að setjast inn í og sér í lagi að stíga upp úr venjulegum fólksbíl og þurfi hún því stærri bíl með mátulegri hæð til að gera henni þetta kleift. Sú bifreið sem hún hafi fest kaup á og sæki um styrk vegna uppfylli þessar kröfur um hæð og rými fyrir hjólastól.
Vonandi skýri þetta þörf kæranda varðandi kaup á bifreið. Sé þetta ófullnægjandi, svo sem vegna mats á hreyfihömlun, óski kærandi eftir að fá nákvæma útlistun á því hvers krafist sé í því sambandi.
Í athugasemdum kæranda frá 16. september 2020 segir að í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að stofnunin telji ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun þar sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum uppfylli kærandi ekki viðbótarskilyrði fyrir styrk. Einnig komi fram að staðfest sé að viðkomandi notist við staf eða hjólastól en „ekki kemur fram neitt mat á þörf kæranda á þeim hjálpartækjum.“
Læknir kæranda hafi í góðri trú notast við þar til gert eyðublað við gerð fyrri vottorða og þau séu í raun mat á þörf hjálpartækja. Læknir kæranda hafi lagt fram nýtt læknisvottorð varðandi þessa afstöðu Tryggingastofnunar. Í því vottorði sé ítarlegri greinargerð frá lækni sem geri grein fyrir hennar stöðu. Einnig hafi hann staðfest að hún þurfi við heimsóknir á heilsustofnun aðstoðarmann og hjólastól til og frá bifreið til að geta átt viðtal við hann. Þetta sýni berlega þörf hennar fyrir hjálpartæki, þ.e. hjólastól til að geta ferðast tiltölulega stuttar vegalengdir. Það sé ítrekað að þó svo að kærandi eigi ekki eigin hjólastól þá sé það vegna þess að hún hafi ekkert farið af heimilinu undanfarin misseri nema í undantekningartilfellum, fyrst og fremst á heilsustofnanir, og staðfesti læknisvottorð hennar þörf fyrir hjálpartæki við þær heimsóknir. Kærandi hafi getað notast við hjólastóla sem séu í boði víðsvegar en viðbúið sé þegar einangrun létti og hún hafi þörf fyrir ferðalög að hjólastóll verði að vera til staðar. Fyrir utan þetta telji læknir kæranda að ekki sé þörf á frekari greinargerð vegna notkunar þessara hjálpartækja þar sem fyrir liggi mjög hömluð hreyfigeta vegna skertrar lungnastarfsemi sem vegi þyngra varðandi þetta.
Það sé von kæranda að þetta hjálpi til að skýra hennar þörf og hennar rétt til viðeigandi styrks. Kærandi áskilji sér rétt til að leggja fram frekari gögn í málinu.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla stofnunarinnar, dags. 20. nóvember 2019, á umsókn um styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.
Málsatvik séu þau að kærandi hafi sótt um uppbót/styrk samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 23. október 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. þann 6. janúar 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar hefði verið samþykkt. Kærandi hafi hins vegar ekki verið talin uppfylla skilyrði styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.
Í 1.–3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. En 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:
„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.
Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“
Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóta styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og noti til dæmis tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfa meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá þann styrk þurfi umsækjandi því meðal annars að sýna fram á að hreyfihömlun hans sé svo veruleg og að hjálpartækjaþörf hans sé slík að hann þurfi að miða bifreiðakaup sín við þessi hjálpartæki og þurfi því stærri bíl en einstaklingur sem uppfylli skilyrði 3. gr. En skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóða svo:
„Styrkur skal vera kr. 1.440.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
- Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
- Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.
- Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.
- Mat á ökuhæfni liggur fyrir.
- Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“
Rétt sé að vekja sérstaka athygli á því að í 4. mgr. 4. gr. komi einnig fram að skilyrði sé að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.
Við mat á hreyfihömlun vegna ákvörðunar, dags. 6. janúar 2020, hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 29. október 2018, en það hafi borist með umsókn kæranda.
Í hreyfihömlunarvottorði komi meðal annars fram að kærandi hafi lungnasjúkdóm og krabbamein í lungum með meinvörpum sem hafi í för með sér skerta göngugetu og úthaldsleysi. Fram komi að kærandi „fari um með staf og hjólastól“ en ekki komi fram hve háður kærandi sé þessum hjálpartækjum og ekki komi heldur fram neitt mat á þörf kæranda fyrir þau hjálpartæki.
Á þessum forsendum hafi skilyrði um hreyfihömlun verið talin uppfyllt en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks.
Í málinu sé ekki deilt um að kærandi sé hreyfihömluð. Eins og komi fram í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. janúar 2020, uppfylli kærandi skilyrði hreyfihömlunar samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar. Kærandi telji sig hins vegar eiga rétt á því að fá styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli skilyrði uppbótar samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar en ekki skilyrði styrks samkvæmt 4. gr.
Eftir að farið hafi verið yfir gögn málsins sé ekki hægt að sjá að kærandi sé verulega hreyfihömluð í þeim skilningi sem lagður sé í 4. gr. reglugerðarinnar, þ.e. sé sambærilega hreyfihömluð og einstaklingur sem sé bundinn hjólastól eða þurfi tvær hækjur. Í 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar sé lögð sérstök áhersla á það að meta skuli bifreiðina út frá hjálpartækjaþörfum umsækjanda. Við vinnslu málsins hafi verið fengnar munnlegar upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands um að kærandi hefði engin hjálpartæki frá stofnuninni sem tengist hreyfihömlun. Í kæru komi fram að kærandi notist við tiltekin hjálpartæki sem einstaklingar alla jafna fái frá Sjúkratryggingum Íslands, en ekki komi fram hve háð kærandi sé þeim hjálpartækjum eða neitt mat á þörf fyrir þau. Í ljósi þeirra greininga sem liggi fyrir í máli kæranda þyrfti að liggja fyrir afdráttarlaust mat á þörf kæranda fyrir þau hjálpartæki sem hér um ræði til þess að hægt væri að horfa til þeirra við mat stofnunarinnar á styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar.
Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, reglugerð nr. 170/2009 og við fyrri úrskurði úrskurðarnefndar vegna núgildandi reglugerðar og sambærilegra ákvæða fyrri reglugerðar nr. 752/2002.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 20. ágúst 2020, segir að í nýju læknisvottorði komi fram að kærandi notist við staf og hjólastól, en ekki komi fram neitt mat á þörf kæranda á þeim hjálpartækjum. Í erindi kæranda sjálfs komi fram að hún eigi hækjur sem keyptar hafi verið vegna [brots] fyrir einhverjum árum sem hún notist nú stundum við. Einnig komi fram að kærandi hafi ekki hjólastól en gæti hugsað sér að fá slíkan.
Eftir að farið hafi verið yfir þau gögn sem hafi borist sé það mat Tryggingastofnunar að ekki sé ástæða til þess að breyta fyrri ákvörðun.
Af gögnum málsins sé ekki hægt að sjá að kærandi sé verulega hreyfihömluð í þeim skilningi sem lagður sé í 4. gr. reglugerðarinnar, þ.e. sé sambærilega hreyfihömluð og einstaklingur sem sé bundinn hjólastól eða þurfi tvær hækjur. Í 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar sé lögð sérstök áhersla á það að meta skuli bifreiðina út frá hjálpartækjaþörfum umsækjanda.
Að öðru leyti sé vísað í fyrri greinargerð Tryggingastofnunar.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.
Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:
„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
[...]
Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“
Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar segir að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða:
„a. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,
b. mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma,
c. annað sambærilegt.“
Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar til bifreiðakaupa að nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar sé ótvíræð og að mat á hreyfihömlun liggi fyrir. Þá er í 4. gr. reglugerðarinnar að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Í 2. mgr. þeirrar greinar koma eftirtalin skilyrði fram:
„1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.
3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er til dæmis bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.
4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.
5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“
Í máli þessu liggur fyrir að Tryggingastofnun ríkisins hefur samþykkt að veita kæranda uppbót til bifreiðakaupa samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 en kærandi óskar eftir styrk til bifreiðakaupa. Ágreiningsefnið snýst um það hvort skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um að einstaklingur þurfi að vera verulega hreyfihamlaður, til dæmis bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri, sé uppfyllt í tilviki kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir af orðalagi reglugerðarákvæðisins að við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrðið um að teljast verulega hreyfihamlaður sé horft til þess hvort viðkomandi sé bundinn hjólastól eða þurfi að notast við tvær hækjur að staðaldri. Upptalning á hjálpartækjum sé þannig tiltekin í dæmaskyni til skýringar á því hvað við sé átt með verulegri hreyfihömlun. Sú túlkun er einnig í samræmi við orðalag 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð en þar er veiting styrks til bifreiðakaupa ekki bundin því skilyrði að umsækjandi þurfi að nýta sér hjálpartæki. Það er því ekki fortakslaust skilyrði fyrir veitingu bifreiðastyrks að umsækjandi sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri. Hins vegar leiðir, að mati úrskurðarnefndarinnar, af orðalagi reglugerðarákvæðsins að viðkomandi verði að vera hreyfihamlaður til jafns við þá sem hafa þörf fyrir framangreind hjálpartæki að staðaldri.
Við mat á því hvort skilyrði um verulega hreyfihömlun sé uppfyllt þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig. Fyrir liggur læknisvottorð B, dags. 29. október 2019, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:
„Malignant neoplasm of lower lobe, bronchus or lung
Chronic obstructive pulmonary disease, unspecified
Anxiety neurosis“
Í lýsingu á sjúkdómsástandi kæranda segir í læknisvottorðinu:
„COPD og lungnakrabbamein, interstitisal lungnasjúkdóm, Meinvörp. Kemst ekki af án bifreiðar. Fer um með staf og hjólastól.“
Þá er merkt við í vottorðinu að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og að hún verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Einnig er merkt við að kærandi notist við hjólastól að staðaldri. Í rökstuðningi fyrir notkun hjálpartækis segir:
„Lungnasjúkdómur og krabbamein í lungum með meinvörpum gerir skerta göngugetu og úthaldsleysi.“
Undir rekstri málsins lagði kærandi fram tvö læknisvottorð B, dags. 13. júlí 2020, sem bárust úrskurðarnefndinni annars vegar 20. júlí 2020 og hins vegar 16. september 2020. Í læknisvottorðinu sem barst úrskurðarnefndinni 20. júlí 2020 segir í lýsingu á sjúkdómsástandi kæranda meðal annars:
„A greindist með non-small cell lungnakrabbamein í lobus inferior hægra megin árið X og fór í lobectomiu. Árið X greindist hún með eitt tumor recidive í vinstra lunga og fór í lobectomiu á lobus inferior vinstra megin vegna þess að það lá svo centralt og fór í adjuvant lyfjameðferð eftir það. Er hjá C.
Undirliggjandi COPD, fær endurteknar versnanir. Gold stig IV.
Er að fá endurteknar lungnabólgur og sinusita. Hóstar upp þykku og jafnvel lituðu slími. Nefstíflur, skert lyktarskyn Á endurteknum TS lungu sást íferðar teikn endurtekið
Spirometria : FEV1 0.97 (30%) FVC 1.8 (43%) FEV1/FVC 53%, verulega teppa
Mjög móð vegna sýns lungnasjúkdóms.“
Í framangreindu læknisvottorði er greint frá sama mati á göngugetu og hjálpartækjum og í fyrra læknisvottorði, dags. 29. október 2019.
Læknisvottorð B, dags. 13. júlí 2020, er barst úrskurðarnefndinni 16. september 2020, er að mestu samhljóða framangreindu vottorði hans en þar segir einnig meðal annars:
„Hún verður sprengmóð við stutta göngu og þegar hún kemur í viðtöl til mín á heilsugæslu þá nær eiginmaður hennar fyrst í hjólastól til okkar á D og ferjar A með þeim hætti út í bíl og til okkar.
[…]
Það hefur komið til tals að sækja um hjólastól fyrir A en heima við notar hún staf við göngu, vegna verkja og fótur vill svíkja. Status eftir brot 2013.. Ég hygg þó að frekari greinagerð á notkun þessara hjálpartækja sé ekki þörf þar sem slæmt ástand lungna vegur þyngst í umsókn um styrk til bifreiðakaupa.“
Úrskurðarnefndin telur ljóst af fyrrgreindum læknisvottorðum B að kærandi búi við verulega skerta göngugetu og mjög mikið úthaldsleysi vegna lungnaveikinda. Þá má ráða af vottorðinu að kærandi notist við staf við göngu heima og reglulega við hjólastól utan heimilis. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af sjúkdómsástandi kæranda að hún sé hreyfihömluð til jafns við þá sem bundnir eru hjólastól eða háðir því að nota tvær hækjur að staðaldri. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um verulega hreyfihömlun. Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. janúar 2020 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið er því felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði fyrir greiðslu styrks til bifreiðakaupa séu uppfyllt.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um uppbót/styrk til kaupa á bifreið, er felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði fyrir greiðslu styrks séu uppfyllt.
Rakel Þorsteinsdóttir