Hoppa yfir valmynd
18. júní 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2009

Fimmtudaginn 18. júní 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 17. apríl 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 29. mars 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 21. janúar 2009 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

Kæra vegna umsóknar um greiðslu úr fæðingarorlofssjóði, sem var synjað

Ég kæri hér með þá ákvörðun að synja mér um greiðslu úr fæðingarorlofssjóði. Sem er hreint brot á 65.gr. Stjórnarskrár lýðveldisins íslands 1944 nr. 33 17. júní.

Framlögð gögn og skattframtal sýna heildartekjur X kr. þar af X kr. sem eru Tryggingagjaldsskyld laun samkvæmt. Lögum um tryggingagjald 1990 nr. 113. og eru það talin 100% laun. Öll framlögð gögn eru í vörslu Vinnumálastofnun, fæðingarorlofssjóðs.

Ég mótmæli einnig þeim fullyrðingum sem koma fram í synjunarbréfinu og er skýlaust brot á félagsmálasáttmála Evrópu 1976 nr. 3 22. janúar. Þar sem verið er að fullyrða að vinnuframlag mitt sé undir 25%. Starfshlutfall á vinnumarkaðnum. Máli mínu til stuðnings sendi ég hér nokkur lög og félagsmálasáttmála Evrópu.“

Auk 65. gr. stjórnarskrárinnar og félagsmálasáttmála Evrópu er í kærubréfi vitnað til efnis 5. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald.

 

Með bréfi, dagsettu 26. maí 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 27. maí 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 3. desember 2008 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði vegna barnsfæðingar Y. nóvember 2007.

Auk umsóknar kæranda barst Fæðingarorlofssjóði tilkynning um fæðingarorlof, ódagsett, fæðingarvottorð frá D-landi, dags. 14. nóvember 2007 og staðfesting frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, dags. 6. febrúar 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með tveimur bréfum Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 21. janúar 2009, var honum tilkynnt að staðfestingu vanti um að hann fari með forsjá barnsins eða samþykki um umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlofi er ætlað að standa yfir og að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væri ráðið að hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns tímabilið maí – október 2007 þar sem engar tekjur voru skráðar á hann þá mánuði í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Jafnframt var kæranda bent á að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teldust einnig stafliðir a. – d. í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 og var kæranda gefinn 15 daga frestur til að leggja fram upplýsingar um að hann hafi verið á vinnumarkaði framangreint tímabil.

Þann 4. febrúar 2009 barst með tölvupósti samþykki forsjárforeldris á umgengni kæranda við barnið í fæðingarorlofi. Með tölvupósti þann 10. febrúar 2009 bárust launaseðlar frá B stimplaðir af RSK þann 6. febrúar 2009, fyrir tímabilið maí – október 2007.

Þann 11. febrúar 2009 var kæranda send synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ráðið væri af framlögðum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum að kærandi hafi ekki verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli mánuðina maí – október 2007.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sem í gildi var við fæðingu barns kæranda, er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Barn kæranda er fætt Y. nóvember 2007. Sex mánaða ávinnslutímabil er, samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, Y. maí – Y. október 2007. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á framangreindu tímabili.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og á skattframtali fyrir árið 2007. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi er með X kr. í laun á mánuði mánuðina maí – október 2007. Á skattframtali ársins 2007 kemur fram að kærandi er með X kr. í heildarlaun á árinu og ökutækjastyrk að upphæð X kr.

Á launaseðlum sem kærandi sendi Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði og áritaðir voru af RSK, þann 6. febrúar 2009, fyrir mánuðina maí – október 2007 kemur fram að kærandi er með X kr. í laun á mánuði alla mánuðina. Kærandi fær að auki greiddan ökutækjastyrk alla mánuðina sem hann heldur utan staðgreiðslu; X kr. í maí, X kr. í júní, X kr. í júlí, X kr. í ágúst, X kr. í september og X kr. í október. Í 3. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, kemur fram að heimilt sé að halda utan staðgreiðslu greiðslu launagreiðanda fyrir afnot af eigin bifreið launamanns þegar sannanlega er um að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar sem til er kominn vegna aksturs tiltekinnar vegalengdar í þágu launagreiðanda. Á launaseðlunum kemur jafnframt fram að orlof er reiknað af þeim launum sem hann var með í hverjum mánuði, þ.e. X kr.

Af framangreindu verður vart annað ráðið en að kærandi hafi ekki verið starfandi samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns enda X kr. í laun á mánuði langt undir lágmarkslaunum fyrir 25% starfshlutfall. Ökutækjastyrkir geta ekki talist hluti af starfshlutfalli starfsmanns heldur er þeim ætlað að mæta útlögðum kostnaði starfsmanna vegna nota á eigin bifreið, sbr. að framan. Kærandi hefur ekki lagt fram önnur gögn sem sýna fram á þátttöku hans á innlendum vinnumarkaði í samræmi við a. – d. liði 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna um að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 2. júní 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs frá 21. janúar 2009 um synjun á greiðslum til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði við fæðingu barns kæranda hinn Y. nóvember 2007, öðlaðist foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. einnig 1. mgr. 2. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar var skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, telst jafnframt:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 var við það miðað að við mat á starfshlutfalli skyldi fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns. Foreldri sem hafi unnið 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50 – 100% starfi en foreldri sem unnið hafi 43-85 stundir teljist vera í 25-49% starfi. Þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem teljast fullt starf samkvæmt kjarasamningi.

Barn kæranda er fætt Y. nóvember 2007. Sex mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. var því frá Y. maí 2007 fram að fæðingardegi barnsins. Ágreiningur lýtur að því hvort kærandi hafi verið á vinnumarkaði í skilningi ffl. á því tímabili.

Í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2007 kemur fram að kærandi fékk greidd laun hjá B mánuðina maí til október X kr. hvern mánuð. Samkvæmt skattframtali voru launatekjur hans árið 2007 X kr. og ökutækjastyrkur það ár X kr.

Á launaseðlum kæranda kemur fram að auk launatekna upp á X kr. hvern mánuð ávinnslutímabilsins hafi hann fengið ökutækjastyrk utan staðgreiðslu að fjárhæð X kr. í maí, X kr. í júní, X kr. í júlí, X kr. í ágúst, X kr. í september og október 2009. Þá kemur fram á launaseðlum kæranda að orlof hafi verið reiknað af staðgreiðsluskyldum launum kæranda, það er af X  kr. hvern mánuð, og að kærandi hafi áunnið sér 2 klukkustundir í orlof á mánuði.

Af því sem að framan er rakið verður ekki ráðið að kærandi hafi í hverjum mánuði á tímabilinu, frá 1. maí til 1. nóvember 2007, verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki skilyrði um rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og staðfesta ber því hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta