Traust á tímum kórónuveiru
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:
Í gær tók ég ákvörðun um að framlengja til 4. maí takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem áttu að falla úr gildi 13. apríl til að hefta útbreiðslu COVID 19-sjúkdómsins, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Ég hef haft það leiðarljós í allri ákvarðanatöku minni í viðbrögðum við sjúkdómnum að hlusta á og fylgja faglegum leiðbeiningum okkar besta fólks í þessum efnum. Sóttvarnalæknir hefur veitt mér skýra og faglega leiðsögn og hafa ákvarðanir sem ég hef tekið um samkomubönn og -takmarkanir verið byggðar á þeirri leiðsögn.
Samkvæmt könnunum sem birtar voru í lok mars ber almenningur mikið traust til stjórnvalda og heilbrigðiskerfisins nú þegar COVID 19-sjúkdómurinn gerir innrás í landið okkar. Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup ber almenningur m.a. mikið traust til heilbrigðisyfirvalda. Könnunin var gerð 20.-26. mars og í henni voru mæld viðhorf almennings til ýmissa þátta sem tengjast faraldrinum. 45% aðspurðra sögðust treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum „fullkomlega“ í baráttunni, 38% mjög vel og 12% vel. Einungis 2 prósent sögðust treysta heilbrigðisyfirvöldum frekar illa eða alls ekki.
Í könnun MMR um COVID 19-sjúkdóminn, sem var birt í lok mars, sagðist 91% svarenda bera frekar eða mjög mikið traust til almannavarna í tengslum við viðbrögð þeirra við útbreiðslu kórónaveirunnar. 88% aðspurðra kváðust bera mikið traust til heilbrigðisstofnana og 82% til lögreglunnar.
Þessar kannanir sýna að heilbrigðisyfirvöld og þær stofnanir sem sinna mikilvægum hlutverkum í viðbrögðum við faraldrinum njóta mikils trausts meðal almennings. Það er mikilvægt að finna þetta traust því það er að mínu mati lykilforsenda þess að okkur takist vel að virkja almenning til þátttöku í sóttvarnaraðgerðum.
Ég tel að það hafi þýðingu að hér á landi ákváðu stjórnvöld að treysta því kerfi sem við höfum sjálf búið okkur; fara að ráðum fagfólks, treysta almenningi til þess að taka þátt í sóttvarnaraðgerðum án þess að beita harðræði, boðum og bönnum, og verja lýðræðið. Víðtækari heimildir ríkisstjórna til að taka ákvarðanir tengdar faraldrinum, án aðkomu þinga og lýðræðislega kjörinna fulltrúa, hafa verið veittar í nágrannalöndum okkar, til dæmis í Noregi. Slíkar aðgerðir eru ekki til þess fallnar að styrkja lýðræðið.
Við megum nefnilega ekki gleyma því að lýðræðið er ekki sjálfgefið. Við þurfum að passa upp á það og gæta þess alltaf, en kannski sérstaklega á krísutímum sem þessum. Virkt þing, mikil upplýsingamiðlun og það að láta fagleg sjónarmið ráða för við ákvarðanatöku eru til dæmis þættir sem skipta miklu í því samhengi og sem ég hef lagt áherslu á í viðbrögðum mínum við innrás COVID 19-sjúkdómsins í landið. Ég mun halda því áfram.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2020