Fleiri börn af erlendum uppruna stundi íþróttir
Fimm íþróttafélög hlutu í gær styrki til hvatningaverkefna er tengjast þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi. Framtak það er liður í samstarfverkefni ÍSÍ og UMFÍ sem kynnt var í gær.
„Við viljum að íþróttir og tómstundastarf sé aðgengilegt fyrir sem flesta, það er vettvangur þar sem allir eiga að fá að njóta sín. Því viljum við að efla virkni og fjölga tækifærum fyrir börn og ungmenni af erlendum uppruna og þá áherslu má meðal annars sjá hjá Íþróttasjóði og í nýjum fjárlögum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Við Íslendingar erum geysilega stoltir af okkar fjölbreytta og kröftuga íþróttastarfi. Ég fagna þessu framtaki félaganna; gott aðgengi og jöfn tækifæri iðkenda eru verkefni sem við verðum ávallt að vera vakandi fyrir og áherslan nú á börn af erlendum uppruna er brýn í samhengi við niðurstöður rannsókna um þátttöku þeirra.“
Í tengslum við verkefnið hafa ÍSÍ og UMFÍ gefið út bækling á fimm tungumálum, auk íslensku, þar sem finna má hagnýtar upplýsingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins, upplýsingar um æfingagjöld íþróttafélaga, frístundastyrki, mikilvægi þátttöku foreldra í íþróttum barna og kosti þess að hreyfa sig í skipulögðu starfi. Markhópurinn eru foreldrar barna og ungmenna af erlendum uppruna. Bæklingurinn er gefinn út á sex tungumálum, þ.e. á íslensku, ensku, pólsku, tælensku, litháísku og filippseysku.
Félögin sem styrkina hljóta eru ÍBV, Héraðssamband Snæfells- og Hnappadalssýslu, Íþróttabandalag Akraness, Valur og Taekwondodeild Keflavíkur.