Styrkir tilraunaverkefni sem ætlað er að auka virkni ungs fólks
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Vinnumálastofnun 25 milljón króna styrk vegna tilraunaverkefnisins Vegvísir sem ætlað er að bæta þjónustu við ungt fólk í viðkvæmri stöðu, þ.e. einstaklinga á aldrinum 16-29 ára sem eru ekki í námi, þjálfun eða starfi (NEET). Markmiðið með verkefninu er að sporna við ótímabæru brotthvarfi ungs fólks af vinnumarkaði en því lengur sem einstaklingur er óvirkur og án atvinnu því meiri líkur eru á ótímabærri örorku.
Í verkefninu verður lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og þverfaglega sýn, sem felst meðal annars í því að komið verði á formlegu samstarfi þjónustukerfa sem koma að þjónustu ungs fólks sem er óvirkt með því að bjóða þessum hópi að leita á einn stað (e. One Stop Shop). Þar verður veittur stuðningur og ráðgjöf, til dæmis í tengslum við framfærslu, virkniúrræði eða aðra einstaklingsbundna þjónustu. Þannig verði búin til brú á milli þjónustukerfa sem ætlað er að tryggja að einstaklingar njóti samfelldrar þjónustu.
Vegvísir er afurð samstarfshóps sem samanstendur af fulltrúum frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, Tryggingastofnun, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnun og Virk – Starfsendurhæfingarsjóði en hópnum var falið að koma fram með tillögu um aðgerðir til að auka virkni ungs fólks í óvirkni (NEET). Vinnumálastofnun fer með skipulag og framkvæmd verkefnisins, sem er tilraunaverkefni til tveggja ára. Verkefnið fellur að áherslum ríkisstjórnarinnar um að fjárfesta í fólki og fjölga markvisst starfstækifærum einstaklinga með skerta starfsgetu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
„Það er gríðarlega mikilvægt að við tökum utan um ungt fólk í viðkvæmri stöðu sem af einhverjum ástæðum er ekki virkir þátttakendur í námi eða starfi og bjóðum upp á úrræði sem hjálpar þeim að nálgast þá þjónustu sem það þarf á að halda. Kerfið getur oft verið flókið og markmiðið með Vegvísi er að leiðbeina fólki um þau úrræði sem því stendur til boða.“