Drög að landsáætlun um innviði til umsagnar á SAMRÁÐSGÁTT – opinn kynningarfundur 15. febrúar
Drög að landsáætlun um það hvernig byggja eigi byggja upp helstu innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum hefur verið sett fram til umsagnar á SAMRÁÐSGÁTT Stjórnarráðsins. Þessi stefnumarkandi áætlun er til tólf ára og setur fram sýn um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum svo vernda megi náttúru og menningarminjar fyrir álagi af völdum aukinnar umferðar ferðafólks.
Opinn kynningarfundur um landsáætlunina verður haldinn fimmtudaginn 15. febrúar kl. 13:30-15 í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu Skúlagötu 4. Kynningin og umræður að henni lokinni verða teknar upp og gerðar aðgengilegar á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
Landsáætlunin er stefnumarkandi til tólf ára um gerð innviða á ferðamannastöðum til verndar náttúru og minja og skal hún lögð fram sem þingsályktunartillaga til samþykktar Alþingis. Í verkefnaáætlun eru settar fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti stuðnings 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu.
Samhliða landsáætluninni eru kynnt drög að umhverfisskýrslu í samræmi við lög um umhverfismat áætlana.
Drög að landsáætlun eru unnin af verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk umhverfis – og auðlindaráðuneytis.
Umsögnum um verkefnaáætlun skal skilað fyrir 26. febrúar nk. í gegnum samráðsgátt stjórnarráðsins. Umsögnum um landsáætlun og umhverfisskýrslu skal skilað fyrir 19. mars nk. Nánari upplýsingar veitir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, netfang [email protected]
- Drög að landsáætlun um uppbyggingu innviða og þriggja ára verkefnaáætlunar á samráðsgátt Stjórnarráðsins
- Drög að umhverfisskýrslu landsáætlunar um uppbyggingu innviða á samráðsgátt Stjórnarráðsins