Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 610/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 25. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 610/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21090084

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.             Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 24. september 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda og börnum hennar, […], fd. […], […], fd. […], og […], fd. […], öll ríkisborgarar Nígeríu, um fjölskyldusameiningu við […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir M), á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu, dagsett 15. ágúst 2020 en móttekin hjá Útlendingastofnun þann 4. febrúar 2021, er byggð á því að maki hennar, M, njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi. M hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns hér á landi hinn 17. janúar 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar hinn 24. september 2021. Hinn 15. október 2021 barst kærunefnd greinargerð frá kæranda ásamt fylgigögnum.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að M hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi hinn 17. janúar 2020 á grundvelli þess að hann ætti á hættu ofsóknir í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 4. september 2018, hafi M greint frá því að hann hafi gifst eiginkonu sinni í heimaríki hinn 14. mars 2009 í því skyni að leyna kynhneigð sinni. Hann hafi verið í sambandi með karlmanni að nafni […] á þeim tíma og hafi verið um málamyndahjúskap að ræða. Þá hafi M greint frá því að hann væri ekki líffræðilegur faðir barna kæranda. Kærandi hafi verið ólétt af sínu yngsta barni þegar þau hafi gengið í hjúskap árið 2009. M hafi ekki verið í samskiptum við kæranda og börn hennar frá því að hann hafi flúið heimaríki árið 2014 og viti hann því lítið um aðstæður þeirra. Í ljósi framangreinds hafi það verið mat Útlendingastofnunar að hjúskapur kæranda og M hafi verið til málamynda, en málamyndahjúskapur veiti ekki rétt til dvalarleyfis hér á landi. Þá kemur fram að ósamræmi hafi verið í framburði M og yfirlýsingu til Þjóðskrár um börn kæranda, þ.e. hver aldur barnanna væri og hvort hann væri líffræðilegur faðir þeirra eða stjúpfaðir. Fram komi á fæðingarvottorðum barnanna, sem kærandi hafi lagt fram við meðferð málsins, að einstaklingur að nafni […] sé faðir þeirra. Þá hafi hvorki kærandi né M lagt fram gögn um að hann hafi ættleitt börn kæranda eða fari með forræði yfir þeim. Börn kæranda séu því ekki nánustu aðstandendur M í skilningi laga um útlendinga. Að framangreindu virtu hafi það verið mat Útlendingastofnunar að  kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga til fjölskyldusameiningar við M.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð eru gerðar margvíslegar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, þ. á m. við umfjöllun Útlendingastofnunar um að til hjúskapar kæranda og M hafi verið stofnað til málamynda. Líkt og framlagt hjúskaparvottorð beri með sér hafi þau gengið í hjónaband árið 2009, mörgum árum áður en M hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Þá hafi ekkert komið fram í málinu um að fyrrnefnt vottorð sé falsað eða óáreiðanlegt. Sé það því hafið yfir allan vafa að þau hafi ekki stofnað til hjúskaparins í þeim tilgangi að afla dvalarleyfa hér á landi. Þá mótmælir kærandi því að það hafi ekki verið lögð fram gögn í málinu sem sýni fram á að M hafi ættleitt börn hennar eða fari með forræði yfir þeim. Í gögnum málsins sé að finna fjórar eiðsvarnar yfirlýsingar sem hafi verið lagðar fram fyrir dómstól í Delta fylki, Nígeríu, er varði ættleiðingu barnanna. Þar sé að finna yfirlýsingu M um að hann vilji ættleiða börn kæranda og yfirlýst samþykki föður barnanna, systur kæranda og móður M.

Kærandi telur, m.a. með vísan til framangreinds, að Útlendingastofnun hafi ekki lagt fullnægjandi mat á fjölskyldutengsl hennar og barna hennar við M. Af þeim sökum hafi málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli þeirra ekki verið í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar, þá einkum 10. og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði því ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

V.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig. Í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga segir að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Þá segir í 22. gr. stjórnsýslulaga að í rökstuðningi ákvarðana skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að það sé mat Útlendingastofnunar að hjúskapur kæranda og M hafi verið til málamynda. Þá kemur fram að málamyndahjúskapur veiti ekki rétt til dvalarleyfis hér á landi. Sú staðhæfing er ekki heimfærð undir ákvæði laga um útlendinga eða annarra laga. Þá er ekki að finna frekari rökstuðning fyrir því af hverju kærandi eigi ekki rétt á dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar vegna hjúskaps hennar og M. Kærandi framvísaði hjúskaparvottorði frá heimaríki við meðferð málsins og hefur Útlendingastofnun ekki dregið gildi þess í efa.

Að virtum gögnum málsins telur kærunefnd einnig ástæðu til að gera athugasemd við upplýsingaöflun í máli kæranda og barna hennar. Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um samband kæranda og barna hennar við M, bæði varðandi samband og samskipti þeirra áður en M yfirgaf heimaríki sitt og eftir þann tíma. Þær takmörkuðu upplýsingar sem komu fram í viðtali við M hjá Útlendingastofnun fyrir rúmum þremur árum síðan geta ekki talist fullnægjandi til að leggja mat á framangreint. Þá hefur, að teknu tilliti til frásagnar M um að til hjúskaparins hafi verið stofnað til málamynda, ekkert komið fram í málinu um ástæður umsóknar um fjölskyldusameiningu. Á þeim rúmu sex mánuðum sem Útlendingastofnun hafði umsókn kæranda og barna hennar til meðferðar hefði stofnunni verið í lófa lagið að afla frekari upplýsinga um framangreint, þ. á m. með því að hringja í M eða boða hann í annað viðtal. Af framangreindu telur kærunefnd að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, enda hafi nauðsynlegra upplýsinga ekki verið aflað. Þá telur kærunefnd að veita hefði átt kæranda leiðbeiningar og andmælarétt vegna framlagðra gagna um tengsl barna kæranda við M, einkum hvað varðar kröfur hér á landi um þau skjöl sem staðfest geta ættleiðingu.

Er það mat kærunefndar að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 7., 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á máli hennar. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa áhrif á niðurstöðu máls hennar. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kærenda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                                    Sindri M. Stephensen

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta