Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2023 Forsætisráðuneytið

Viðburður Íslands um smitáhrif og sjálfbæra þróun

Íslensk stjórnvöld í samstarfi við UNICEF standa fyrir sérstökum hliðarviðburði um svokölluð neikvæð smitáhrif í tengslum við ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Streymi frá viðburðinum hefst kl. 14 á morgun, þriðjudaginn 11. júlí.

Með smitáhrifum (e. spillover effects) er átt við hvernig aðgerðir innan eins ríkis hafa áhrif á getu annarra ríkja til að ná markmiðum um sjálfbærni. Þannig getur t.d. innflutningur á vörum haft neikvæð áhrif á umhverfi, samfélag, efnahag og öryggi í framleiðslulandinu og dregið úr sjálfbærri þróun í viðkomandi landi.

Viðburðurinn fer fram á ensku en rætt er við leiðandi vísindafólk og sérfræðinga á sviði sjálfbærrar þróunar, bæði íslenska og erlenda, um smitáhrif og hvað megi gera til sporna við þeim.

Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands hefur í tengslum við stöðuskýrslu Íslands um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna gert úttekt fyrir forsætisráðuneytið um smitáhrif. Þar má m.a. finna mat á stöðu smitáhrifa Íslands og tillögur að næstu skrefum til þess að lágmarka neikvæð áhrif landsins.

Þann 18. júlí næstkomandi mun Ísland gera grein fyrir stöðu sinni gagnvart heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Heimsmarkmiðin voru sett fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 2015 en gildistími þeirra er til ársins 2030. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur ávarp í gegnum streymi á fundinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta