Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2020 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu um að veita kæranda skriflega áminningu fyrir brottkast

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. 18. október 2019, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. sama dag, kærðu [A] f.h. [B], þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 25. september 2019, að veita kæranda, útgerðaraðila skipsins [C][skriflega áminningu fyrir ætlað brottkast á þremur bolfiskum sem komið höfðu í grásleppunet skipsins [C] í veiðiferð skipsins þann 15. apríl 2019.

Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 25. september 2019, um að veita [B] Páli Guðjónssyni, útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu fyrir  ætlað brottkast á þremur bolfiskum sem komið höfðu í grásleppunet skipsins [C] í veiðiferð skipsins þann 15. apríl 2019.

Málsatvik

Málsatvikum er lýst í bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 31. maí 2019, þar sem Fiskistofa tilkynnti kæranda að stofnunin hefði mál félagsins til meðferðar og veitti honum kost á að gera athugasemdir og senda gögn. Þar kemur fram m.a. að Landhelgisgæsla Íslands hafi sent Fiskistofu til þóknanlegrar meðferðar afrit af kæru landhelgisgæslunnar til Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, vegna ætlaðs brots [B] skipstjóra, fiskiskipsins [C] gegn 2. mgr. 2. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 57/1996, með því að hafa 15. apríl 2019 fleygt fyrir borð og í sjóinn þremur bolfiskum sem komið höfðu í grásleppunet sem skipið dró 15. apríl 2019 um kl. 16:18. Með afritinu fylgdi hreyfimyndaupptaka af atvikunum. Fiskistofa taki málið til meðferðar að hætti stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beinist nú málsmeðferð að útgerð skipsins. Meðferð málsins geti lokið með ákvörðun um beitingu viðurlaga samkvæmt 15. gr. laga nr. 57/1996. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 segi að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Sé sú regla áréttuð í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla. Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi hafi brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot sem varði sviptingu veiðileyfis skuli leyfissvipting ekki standa skemur en í eina viku og ekki lengur en í tólf vikur, en við ítrekað brot skuli leyfissvipting ekki standa skemur en í fjórar vikur og ekki lengur en í eitt ár. Í 3. mgr. 15. gr. segi að við fyrsta minni háttar brot skuli Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Fiskistofa hafi mál þetta til meðferðar. Málsmeðferðin beinist að útgerðaraðila skipsins og sé óháð hugsanlegri meðferð lögreglu að hætti sakamála. Áður en ákvörðun verði tekin um hvort beitt verði viðurlögum sé kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum og athugasemdum sem skyldu berast Fiskistofu eigi síðar en 15. júní 2019 en að ósk útgerðarinnar var fresturinn framlengdur til og með 5. júlí 2019.

Með bréfi, dags. 5. júlí 2019, bárust Fiskistofu athugasemdir frá [A] f.h. kæranda. Þar segir að almennt sé skylt að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa, en með ákveðnum undantekningum sem ráðherra ákveði í reglugerð, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 468/2013 komi fram að heimilt sé að varpa fyrir borð þeim fisktegundum sem ekki séu háðar takmörkunum á leyfilegum heildarafla, enda verði þær ekki taldar hafa verðgildi. Í reglugerð nr. 633/2018, um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2018/2019, séu taldar upp þær fisktegundir sem háðar séu takmörkun á leyfilegum heildarafla. Kærandi hafni alfarið þeim ásökunum að hafa kastað fyrir borð þremur bolfiskum þann 15. apríl 2019, enda sé með öllu ómögulegt að greina hvað falli í sjóinn á framangreindu myndbandi. Kærandi geti ekki sagt með vissu hvað það sé sem fari fyrir borð á myndbandinu, en hann muni ekki hvað hafi farið fyrir borð þennan dag enda töluverður tími liðinn frá því að þessi meintu brot áttu sé stað. Kærandi hafi aldrei kastað bolfiski fyrir borð enda sé það með öllu óheimilt. Í ljósi alls ofangreinds og sérstaklega þess að ómögulegt sé að greina nákvæmlega hvað hafi farið í sjóinn á myndbandsupptökunni verði að teljast óhjákvæmilegt annað en að fella málið niður þar sem um mjög svo íþyngjandi viðurlög sé að ræða sem sé veiðileyfissvipting. Kærandi hafi atvinnu sína af því að stunda fiskveiðar á smábáti sínum og því yrði það verulega íþyngjandi fyrir hann ef hann yrði sviptur veiðileyfi vegna brottkasts á bolfiski þegar á engan hátt sé hægt að sjá á myndbandsupptökunni að verið sé að varpa bolfiski fyrir borð.

Með bréfi, dags. 25. september 2019, tók Fiskistofa ákvörðun um að veita kæranda, [B], útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu. Þar er vísað til málsatvikalýsingar sem gerð var grein fyrir í framangreindu bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 31. maí 2019, og einnig sömu laga og reglugerða og þar er gerð grein fyrir. EÍ bréfinu hafi málsatvikum verið lýst, leiðbeint um lagaatriði og útgerðinni gefinn kostur á að koma andmælum eða athugasemdum á framfæri við Fiskistofu áður en tekið yrði afstaða til þess hvort brot hefði verið framið og eftir atvikum hvort viðurlögum yrði beitt. Frestur hafi verið veittur til 15. júní 2019 en að ósk útgerðarinnar hafi sá frestur verið framlengdur, auk þess sem útgerðinni hafi verið send afrit af gögnum málsins. Meðal þeirra hafi verið myndbandsupptaka sem gerð hafi verið með búnaði eftirlitsflugvélar landhelgisgæslunnar. Andmæli útgerðarinnar hafi borist til Fiskistofu 5. júlí 2019 með bréfi frá lögmanni kæranda. Það sé því hafnað að áhöfn [C] hafi kastað fyrir borð bolfiski 15. apríl 2019. Segi í bréfinu að ómögulegt sé að sjá á myndbandsupptökunni hvað það hafi verið sem hafi farið í sjóinn og að útgerðin geti ekki sagt til um það atriði vegna þess hve langt sé um liðið, en árétti að áhöfnin kasti aldrei bolfiski fyrir borð, enda sé það óheimilt. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 segi að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Sé sú regla áréttuð í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla. Fiskistofa hafi farið yfir sögu málsins, m.a. með tilliti til þeirra andmæla sem hafi borist frá útgerðinni. Fiskistofa telji að myndbandsupptaka sýni svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að kl. 16:20:09 þann 15. apríl 2019 hafi annar áhafnarmeðlima í áhöfn [C] kastað einum þorski fyrir borð og í sjóinn. Hvað varði önnur tilvik verði fallist á það með útgerðinni að um þau ríki vafi sem túlka skuli henni í hag. Verði því litið svo á að aðeins sé sannað að einum þorski hafi verið kastað í sjóinn og að um einstakt og einangrað tilvik hafi verið að ræða.

Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi hafi brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot sem varði sviptingu veiðileyfis skuli leyfissvipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en í eitt ár. Í 3. mgr. 15. gr. segi að við fyrsta minni háttar brot skuli Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Við mat á því hvort um minniháttar brot sé að ræða sé meðal annars litið til þess hvort brot sé framið af ásetningi eða gáleysi, hvort útgerð skips eða aðrir hafi haft fjárhagslegan ávinning af brotinu og hvort brot sé til þess fallið að skaða mikilsverða hagsmuni. Það sé mat Fiskistofu að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið framið af ásetningi. Það eitt geti þó ekki orðið til þess að brotið teljist meiri háttar, heldur verði að leggja á það heildarmat. Varðandi fjárhagslegan ávinning verði að líta til þess að þorskur hafi talsvert verðgildi fyrir útgerðir skipa og að hann sé almennt talinn eftirsóknarverður afli. Við brottkastið verði því útgerðin að af verðmætum en á móti komi að hún hafi þá tök á því að beina útgerðarkostnaði og fyrirhöfn að því að færa verðmætari afla að landi. Þar sem aðeins sé um einn þorsk að ræða í þessu tilviki verði gengið út frá því að óvíst sé um hvort brotið hafi fært útgerðinni fjárhagslegan ávinning. Brottkast afla valdi því að afli skips verði vanskráður og að sá fiskur sem kastað er fyrir borð dragist ekki af aflamarki skips. Skipið hafi því möguleika á að veiða meiri afla í viðkomandi tegund en það hafi heimild til. Það leiði til þess að heildarveiði úr nytjastofnum sjávar verði meiri en ráðherra hafi ákveðið, en mikilsverðir hagsmunir séu í því fólgnir að ekki sé ofveitt úr nytjastofnum við landið. Vanskráning afla leiði einnig til þess að vísindamenn skorti upplýsingar um það sem veitt sé úr nytjastofnum og útreikningar á stofnstærð og hámarksafrakstursgetu þeirra verði ónákvæmari. Fiskistofa líti hins vegar svo á að um einstakt tilvik sé að ræða í þessu tilviki. Eitt afmarkað tilvik verði ekki talið ógna mikilsverðum hagsmunum, svo að það teljist meiri háttar brot. Engin fyrri brot hafi áhrif á ákvörðun viðurlaga vegna brotsins.

Þá kom þar fram að ákvörðun þessa megi kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík innan eins mánaðar frá því að hún barst til málsaðila, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996. Einnig var þar tekið fram að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 18. október 2019, kærðu [A] f.h. [B], þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 25. september 2019, að veita kæranda, útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu fyrir ætlað brottkast á þremur bolfiskum sem komið höfðu í grásleppunet skipsins [C] í veiðiferð skipsins þann 15. apríl 2019.

Í stjórnsýslukærunni er segir m.a. að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Fiskistofu verði ógilt og að skrifleg áminning vegna brots verði felld úr gildi. Einnig er þar málsatvikum lýst af hálfu kæranda en þar segir m.a. að þann 31. maí 2019, hafi kæranda borist bréf frá Fiskistofu þar sem honum hafi verið gefið að sök að hafa þann 31. maí 2019 15. apríl 2019 fleygt fyrir borð þremur bolfiskum sem komið höfðu í grásleppunet skipsins [C]. Með bréfinu hafi fylgt myndbandsupptaka af meintu broti sem tekin hafi verið af Landhelgisgæslu Íslands. Fiskistofa hafi byggt málsmeðferðina á því að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Kærandi hafi komið á framfæri andmælum í bréfi til Fiskistofu þann 5. júlí 2019 enda sé með öllu ómögulegt að greina hvað falli í sjóinn á framangreindu myndbandi. Með bréfi, dags. 25. september 2019, komi fram að Fiskistofa veiti kæranda skriflega áminningu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 þar sem stofnunin telur að myndbandið sýni að kærandi kasti fyrir borð einum þorski. Við þessa niðurstöðu geti kærandi ekki unað og kæri því ákvörðun Fiskstofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Fiskistofa beri sönnunarbyrðina fyrir því að kærandi hafi brotið gegn lögum nr. 57/1996 og það þurfi að vera hafið yfir allan vafa að kærandi hafi kastað bolfiski í sjóinn. Slíkt telji kærandi ekki hafa verið sýnt fram á enda hafi hann aldrei kastað bolfiski fyrir borð. Almennt sé skylt að hirða og landa öllum afla sem komi í veiðarfæri fiskiskipa, en með ákveðnum undantekningum sem ráðherra ákveður í reglugerð, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 468/2013 komi fram að heimilt sé að varpa fyrir borð þeim fisktegundum sem ekki séu háðar takmörkun á leyfilegum heildarafla, enda verði þær ekki taldar hafa verðgildi. Í reglugerð nr. 633/2018, um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2018/2019, séu taldar upp þær fisktegundir sem háðar séu takmörkun á leyfilegum heildarafla á hverju fiskveiðiári. Framangreint myndband sé of óskýrt til að hægt sé að segja nákvæmlega til um hvort um sé að ræða fisktegund og þá hvaða fisktegund sé kastað fyrir borð. Við veiðar sem þessar sé ýmislegt sem komi í veiðarfæri skipanna, s.s. ýmis sjávargróður, grjót, rusl, fisktegundir sem heimilt sé að henda fyrir borð og svo framvegis. Kærandi geti ekki sagt með vissu hverju sé kastað fyrir borð þennan dag enda nokkuð langt liðið síðan myndbandið hafi verið tekið. Eðli málsins samkvæmt séu það oft ósjálfráð viðbrögð kæranda að kasta fyrir borð ýmsum sjávargróðri, grjóti og tegundum sem hann viti að heimilt sé að kasta fyrir borð. Kærandi kynni sé í upphafi hvers fiskveiðiárs þær tegundir sem hann ekki séu háðar takmörkunum á leyfilegum heildarafla og ekki hafi verðgildi, núna síðast í reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2018/2019, nr. 633/2018. Eins og fram hafi komið sé sönnunarbyrði um að brot gegn lögum nr. 57/1996 hafi átt sér stað hjá Fiskistofu. Sönnun um brot sé því grundvöllur þess að Fiskistofa geti beitt svo íþyngjandi ákvörðun sem skrifleg áminning sé enda hafi hún ítrekunaráhrif í tvö ár. Skrifleg áminning sé gríðarlega íþyngjandi úrræði fyrir útgerðir og eigendur þeirra enda snúi þær að atvinnuréttindum einstaklinganna. Fiskistofu beri að gæta meðalhófs sem kærandi telji að hafi ekki verið gert í hans tilviki. Kærandi hafi atvinnu sína af því að stunda fiskveiðar á smábáti sínum og því sé skrifleg áminning gífurlega íþyngjandi fyrir hann. Það séu því enn ríkari ástæður fyrir Fiskistofu til að sýna fram á að brot hafi átt sér stað í tilviki kæranda, sbr. úrskurð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 25. júní 2019. Fiskistofu sé heimilt að fara um borð í skip og fara með þeim í veiðiferðir, gagngert til að fylgjast með því hvort farið sé að settum lögum og reglum.

Í ljósi alls ofangreinds ítreki kærandi kröfu um að ákvörðun Fiskistofu, dags. 25. september 2019, verði ógilt og skrifleg áminning felld úr gildi.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Undirritað umboð, dags. 1. júlí 2019. 2) Bréf frá Fiskistofu, dags. 31. maí 2019, bls. 1. 3) Bréf frá Fiskistofu, dags. 31. maí 2019, bls. 2. 4) Kæra Landhelgisgæslu Íslands, dags. 26. apríl 2019. 5) Bréf til Fiskistofu, dags. 5. júlí 2019. 6) Bréf frá Fiskistofu, dags. 25. september 2019. 7) Myndband.

Með bréfi, dags. 28. október 2019, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 12. nóvember 2019, segir m.a. að um málavexti vísist til málavaxtalýsingar í hinni kærðu ákvörðun. Um rökstuðning vísist til rökstuðnings í hinni kærðu ákvörðun. Einnig segir þar að í málsástæðum kæranda segi að áhöfn skips hans muni ekki hvað það hafi verið sem hent hafi verið fyrir borð í veiðiferðinni sem um ræðir og að engin leið sé að greina það á þeim myndskeiðum sem Landhelgisgæsla Íslands hafi afhent Fiskistofu. Við meðferð málsins hafi starfsmenn Fiskistofu skoðað þessi myndskeið og hafi þau sýnt þrjú tilvik þar sem fiski hafi verið kastað frá skipinu. Fyrsta atvikið hafi verið kl. 16:18:19, annað kl. 16:20:10 og hið þriðja kl. 16:22:49. Í öllum þremur tilkvikum séu verulegar líkur á því að þorski hafi veri fleygt fyrir borð. Fiskistofa hafi hins vegar metið það svo að eins í tilvikinu sem hafi gerst kl. 16:20:10 væri forsvaranlegt að telja sannað svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa að þorski hefði verið kastað fyrir borð. Í hinum tveimur tilvikunum hafi Fiskistofa talið að þrátt fyrir að verulegar líkur væru á því að þorski hefði verið kastað fyrir borð, væri það ekki hafið yfir skynsamlegan vafa og að þann vafa yrði að skýra kæranda í hag. Í samræmi við það hafi einnig verið tekin sú afstaða að líta á brottkastið sem sjáist á myndskeiðinu kl. 16:20:10 sem einangrað tilvik þrátt fyrir að sterkar vísbendingar væru um annað. Við ákvörðun viðurlaga vegna brottkastsins væri meðal annars litið til þess að lagatexti og lögskýringagögn beri með sér að löggjafinn leggi mikla áherslu á að stemma stigu við slíkum brotum. Þar sem í þessu tilviki hafi aðeins verið um einn þorsk að ræða, svo annað verði talið með óyggjandi hætti, hafi Fiskistofa hins vegar haft til hliðsjónar þau sjónarmið sem lágu til grundvallar í úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 30. júní 2017 í máli nr. ANR17040044, þar sem ráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að brottkast á einum þorski teldist minniháttar brot í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996. Teljist sú afstaða orka tvímælis telur Fiskistofa að það komi í hlut ráðuneytisins að endurskoða viðurlögin og eftir atvikum úrskurðað um að beitt skuli viðurlögum samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laganna.

Umsögn Fiskistofu fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Afrit af kæru Landhelgisgæslu Íslands til Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra. 2) Afrit af myndskeiði (minnislykill). 3) Bréf Fiskistofu, dags. 31. maí 2019. Tilkynning um upphaf málsmeðferðar. 4) Bréf Fiskistofu, dags. 19. júní 2019. Afrit málsgagna send til aðila máls. 5) Andmæli [D], lögmanns f.h. málsaðila. 6) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 25. september 2019.

Með bréfi, dags. 5. desember 2019, sendi ráðuneytið [A] f.h. kæranda ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 12. nóvember 2019, og veitti kæranda kost á að gera athugasemdir við umsögnina.

Með tölvubréfi, dags. 19. desember 2019, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá [A] f.h. kæranda. Þar segir m.a. að öll viðurlög og refsingar verði að byggjast á skýrum grunni og alls ekki megi vera neinn vafi um að sá sem viðurlög hlýtur hafi með skýrum hætti brotið af sér. Það sé langt frá að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að kærandi hafi kastað þorski fyrir borð. Þær upptökur sem byggt sé á séu óskýrar og engan veginn hægt að átta sig á því að um þorsk hafi verið að ræða. Á þessum árstíma sé lax t.d. farinn að ganga á þessum slóðum og margt annað geti komið til eins og lúða, háfur, tindabykkja, dauðir og óþekkjanlegir fiskar o.fl. Það sé augljós ávinningur af því að hirða og landa þorski enda greitt fyrir þann afla og safnist þegar saman komi. Ekki sé ennþá mögulegt að byggja á þessari tækni refsingar og refsikennd viðurlög, a.m.k. í þessu tilviki.

Rökstuðningur

I. Stjórnsýslukæra í máli þessu barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 18. október 2019, með tölvubréfi, dags. sama dag. 7. Kærufrestur í málinu sem er einn mánuður, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996, var því ekki liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu.

II. Hin kærða ákvörðun Fiskistofu í máli þessu, dags. 25. september 2019, um að veita [B], útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu byggir á því að brot kæranda samkvæmt framangreindum lögum nr. 57/1996 hafi verið fólgið í því að fleygt hafi verið fyrir borð þremur bolfiskum sem komið höfðu í grásleppunet skipsins [C] í veiðiferð skipsins þann 15. apríl 2019.

Ákvörðunin er byggð á því að með framangreindri háttsemi hafi verið brotið gegn  2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, en í umræddu lagaákvæði segir m.a.:

"Skylt er að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að sleppa skuli lifandi afla sem er undir tiltekinni lengd eða þyngd eða fæst í ákveðin veiðarfæri. Þá getur ráðherra með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum." (https://www.althingi.is/lagas/149c/1996057.html)

Af hálfu kæranda hefur því ekki verið mótmælt að kastað hafi verið einhverju af skipinu [C] þann 15. apríl 2019, en því borið við að um sé að ræða minna magn en kemur fram í hinni kærðu ákvörðun. Fiskistofa hefur í umsögn til ráðuneytisins, dags. 12. nóvember 2019, lýst því yfir að stofnunin teliji ekki sannað að um hafi verið að ræða meira magn en einn þorsk.

Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að kærandi í máli þessu hafi brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. og 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 468/2013, nýtingu afla og aukaafurða.

III. Brot gegn þeim ákvæðum sem fjallað er um í II. kafla hér að framan varða viðurlögum samkvæmt 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar er kveðið á um að Fiskistofa skuli beita áminningum og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Í 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, er svohljóðandi ákvæði:

"Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.

Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.

Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu."(http://www.althingi.is/lagas/142/1996057.html)

Í framangreindu ákvæði 15. gr. laga nr. 57/1996 kemur fram að Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta minni háttar brot er Fiskistofu þrátt fyrir framangreint ákvæði heimilt í stað þess að svipta skip leyfi að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.

Um er að ræða fyrsta brot kæranda en útgerð skipsins, áhöfn eða aðrir sem í þágu útgerðarinnar starfa hafa ekki samkvæmt gögnum málsins áður orðið uppvís að brotum sem þýðingu hafa við úrlausn þessa máls.

Þegar litið er til þessa er fallist á það með Fiskistofu að um minni háttar brot sé að ræða sem varði viðurlögum samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 25. september 2019, um að veita [B], útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu fyrir að hafa fleygt fyrir borð afla sem komið hafði í grásleppunet skipsins [C] í veiðiferð skipsins þann 15. apríl 2019.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 25. september 2019, um að veita [B], útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu fyrir að hafa fleygt fyrir borð afla sem komið hafði í grásleppunet skipsins [C] í veiðiferð skipsins þann 15. apríl 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta