Opnun farandsýningar um arfleifð Vilhjálms Stefánssonar
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun í dag opna farandsýningu um arfleifð Vilhjálms Stefánssonar heimskautafara á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Sýningin ber heitið "Heimskautslöndin unaðslegu" og verður bein vefsending frá opnuninni á norðurslóðagáttinni www.arcticportal.org laust eftir klukkan 15 í dag.
Vefgáttin verður einn helsti vefvettvangur alþjóðaheimskautaársins sem hófst í dag. Á norðuslóðagáttinni verða beinar vefsendingar frá fjölmörgum opnunaratburðum heimskautaársins víðsvegar um heim.
Það er nýjung að alþjóðaviðburði sé hleypt af stokkunum með þessum hætti á fjölmörgum stöðum inni á einu vefsvæði. Stuðst er við vefsendingarbúnað sem þróaður hefur verið fyrir fjarkennslu við Háskólann á Akureyri.
Utanríkisráðherra opnaði norðurslóðagáttina formlega á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Salekhard í Rússlandi í október síðastliðnum.