Hoppa yfir valmynd
26. október 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samtöl við stærstu kröfuhafa ÍL-sjóðs skipulögð

Unnið er að því þessa dagana af hálfu milligönguaðila ráðuneytisins að skipuleggja samtöl við stærstu kröfuhafa ÍL-sjóðs og kalla eftir hugmyndum um hvernig mótaðilar vilja haga viðræðum, t.a.m. hvort þeir telji rétt að vinna saman í einu lagi eða í smærri hópum.

Af hálfu stjórnvalda er lögð áhersla á að viðræður þurfa að ganga tiltölulega hratt. Eru aðilar upplýstir um að hlutverk milligönguaðila sé að hlusta á sjónarmið eigenda krafna og viðbrögð þeirra við þeirri stefnu sem ráðherra hefur sett fram um málefni ÍL-sjóðs. Milligönguaðila er ætlað að leita eftir hugmyndum og eftir atvikum leggja fram tillögur sem stuðlað geta að því að samningar við kröfuhafa náist. Milligönguaðili hefur ekki umboð til samninga og allar tillögur um mögulega samninga eru háðar samþykki fjármála- og efnahagsráðuneytisins og eftir atvikum þinglegri meðferð og að endingu samþykki Alþingis.

Í fyrirhuguðum samtölum verður áréttað að áformað að gera upp ábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs miðað við nafnverð þeirra og áfallna vexti. Viðræðum er m.a. ætlað að ná fram sjónarmiðum kröfuhafa um samsetningu eigna í slíku uppgjöri.

Listi yfir skuldabréfaeigendur

ÍL-sjóður hefur ekki yfirlit yfir eigendur skuldabréfanna. Þeim sem vilja gefa sig fram býðst að skrá sig á lista hjá ráðuneytinu til þess að unnt verði að veita upplýsingar um málið eftir því sem fram vindur og gera þeim kleift að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í því samtali sem fram fer á næstunni.

Mælt fyrir skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs

Fjármála- og efnahagsráðherra mælti í dag fyrir skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs á Alþingi, en skýrslan var opinberuð í síðustu viku.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta