Einkaframkvæmd álitleg leið sé hún ódýrari
Nefnd sem falið var að leggja fram tillögur um hvenær einkaframkvæmd í samgöngum gæti talist vænlegur kostur hefur skilað skýrslu. Kemst hún meðal annars að þeirri niðurstöðu að einkaframkvæmd sé álitleg leið sé hún ódýrari kostur en eiginframkvæmd ef annar kostur er um leiðaval og sértækri gjaldtöku beitt. Nefndin telur mikilvægt að finna nýjar fjáröflunarleiðir til að sinna brýnum samgönguframkvæmdum þar sem markaðir tekjustofnar standi greinilega ekki undir þeim öllum eins og staðan er nú.
Verkefni nefndarinnar var að marka stefnu um hvaða skilyrði þurfi almennt að vera fyrir hendi til að einkaframkvæmd eigi við í samgöngum; við hvaða aðstæður, hvort og hvernig ganga megi til samninga við þá sem bjóðast til að fjármagna einkaframkvæmd og hvort samstarf við einkaaðila um verkefni sem ekki hafa komist inn á 12 ára samgönguáætlun raski forgangsröð annarra brýnna framkvæmda. Nefndin hélt 12 fundi og kallaði til sín nokkra sérfræðinga og aðra sem hafa tengst einkaframkvæmd.
Hentar misjafnlega vel
Nefndin telur að almennt markmið sérhverrar framkvæmdar ríkisins eigi að felast í sem mestri hagkvæmni óháð framkvæmdaleið. Forsenda fyrir því að taka tilboði í einkaframkvæmd sé að núvirt tilboð verktaka í einkaframkvæmd sé lægra en núvirt kostnaðaráætlun verkkaupa. Að öðrum kosti sé eðlilegt að ríkið annist framkvæmdina með hefðbundnum aðferðum. Þá telur nefndin að samgöngumannvirki henti misjafnlega vel til einkaframkvæmdar; æskilegt sé að rekstrarþátturinn sé verulegur hluti verksins og að gjaldtaka sé auðveld. Einnig telur nefndin það skilyrði fyrir einkaframkvæmd í samgöngum að gjald verði greitt beint af notendum eða að til komi styrkir frá hagsmunaaðilum sem standi undir greiðslum fyrir mannvirkið. Veggjöldin komi þannig til viðbótar við markaða tekjustofna til samgönguframkvæmda.
Í skýrslunni er einnig fjallað um samstarf við áhugaaðila, röðun framkvæmda og leiðir til að auka tekjur til samgangna.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skipaði nefnd um einkaframkvæmd í samgöngum í júlí 2006 og skilaði hún skýrslunni nýverið. Nefndina skipuðu Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, sem var formaður hennar, Halldór Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, og Stefán Jón Friðriksson, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu. Ritari nefndarinnar var Eiríkur Bjarnason, verkfræðingur í samgönguráðuneytinu.
Skýrslu nefndarinnar er að finna hér.